23.04.1940
Efri deild: 47. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í C-deild Alþingistíðinda. (2276)

105. mál, verðlagsuppbót á laun starfsmanna í verzlunum og skrifstofum o. fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Þetta mál kemur mér mjög undarlega fyrir sjónir. Ég hefi alltaf haldið, að meginstefna Sjálfstfl. væri að hefta sem minnst allt athafnafrelsi, láta sem flest vera frjálst og lofa athafnalifinu að njóta sin í þjóðfélaginu. Láta duglega manninn, sem getur náð betri samningum en hinn við t.d. fólk sitt, njóta þess o.s.frv. En nú skilst mér, að einn af þeirra þm., sem hefir staðið mjög framarlega í sínum flokki, hafi skipt um skoðun og vilji láta lögákveða í þinginu, hvað menn eigi að fá fyrir sína vinnu, og þar með skerða mjög verulega athafna- og samningafrelsi manna. En ég hefi ekki ennþá séð till. um, hvernig tryggja skuli, að framleiðendur geti borgað hið háa kaup. vafalaust hafa þeir hugsað líka um þá hlið málsins. Þetta verður aðeins fyrsta sporið í allsherjarskipulagi, og ég skoða þetta frv. sem tilkynningu frá Sjálfstfl. um það, að nú sé hann sammála Alþfl. í því efni, að lögin skuli ákveða, hvað hver maður ber úr býtum fyrir sína vinnu. Ég vænti þess, að sé þetta misskilningur hjá mér, þá verði það leiðrétt, og vona ég þá, að í ljós komi, hve langt er komið bandalagi milli þeirra og kommúnista, sem flest vilja þjóðnýta. En ég hryggist yfir þessari stefnubreytingu flokksins og vil ákveðið óska þess, að hún verði skýrð hér undir umr., en það láðist 1. þm. Reykv. alveg að gera.

Hv. 1. þm. Reykv. benti á það sem sönnun fyrir því, að hér væri gott mál á ferðinni, að frv. hefði gengið óbreytt gegnum Nd. og margir þm. hefðu þar fylgt því. Ég held, að þetta sé misskilningur hjá hv. þm., því að 1. gr. var breytt í Nd. og et til vill einhverju fleiru. Það kemur líka fyrir, að mál ganga óbreytt gegnum þingið, af því að þau eru svo lítils virði, að menn hafa ekki viljað eyða tíma í þau. Ég hugsa, að vegna þeirrar ástæðu hafi frv. þetta ekki tekið meiri breytingum í Nd. en raun ber vitni um. Frv. er í alla staði vanhugsað, og vil ég benda á ýmislegt, sem sannar það álit mitt. Ég geri ráð fyrir, að frv. skipti launamönnum í flokka og ákveði dýrtíðaruppbótina fyrir hvern flokk tilsvarandi við frv. um launauppbót starfsmanna ríkisins. Eins og það frv. var, þegar það fór frá okkur, var þar tekið fram, að ekki skyldi veita uppbót á ókeypis húsnæði. En hér er ekkert um þetta sagt. Nú skal ég taka nokkur dæmi úr lífinu og spyrja hv. 1. þm. Reykv., hvernig hann vilji heimfæra þau undir þetta frv. Norður í landi er kaupmaður, sem á stórt tún, og búðarmaðurinn fær afnotaréttinn af túninu sem kaup fyrir sína vinnu. Hvernig á að borga uppbót af þessu? Það er ákaflega algengt, þegar út fyrir bæinn hér kemur, að Verzlunar- og skrifstofufólk fær ókeypis húsnæði sem hluta af sínu kaupi. Um þetta er ekki einn stafur í þessu frv. Það er heldur ekkert óalgengt úti um landið, að verzlunarfólk fæðir sig sjálft, en er látið hafa fæðispeninga upp í kaupið, en hér er ekki minnzt á þetta. Margt fólk úti um landið hefir framleiðslu jafnhliða starfi sínu, og um þetta er ekki einn stafur hér. Oft vinnur verzlunarfólk á fleiri en einum stað og fær kaup greitt frá fleiri, en hjá embættismönnum skal uppbótin þá reiknuð af laununum samanlagt. Í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir neinu slíku. Frv. er sannkallað hrákasmíði, og er ómögulegt að samþ. það á þessum grundvelli, án þess að gerbreyta því. Það er þess vegna svo langt frá, að Alþ. eigi að samþ. þetta frv., heldur á að fella það sem fyrst. Frv. mun vera samið af einhverjum manni á einhverri skrifstofu, sem aldrei hefir komið út fyrir sína eigin skrifstofu, né séð út yfir sinn litla verkahring. Honum hafa ekki verið kunnar þær „variationir“, sem eru á kaupgreiðslu þessa fólks úti um landið, þar sem því er borgað á ýmsa vega. Og hann hefir ekki reynt að kynnast því, þótzt vita allt bezt sjálfur. Það bezta, sem gert verður við þetta frv., er að drepa það, og þeir, sem vilja láta það ná fram að ganga, verða að taka sér tíma og gerbreyta því, ef það á að vera frambærilegt fyrir Alþ. og ekki verða þeim til skammar, er bera það fram, eins og það óneitanlega hefir nú orðið hv. þm. Snæf.