23.04.1940
Efri deild: 47. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í C-deild Alþingistíðinda. (2277)

105. mál, verðlagsuppbót á laun starfsmanna í verzlunum og skrifstofum o. fl.

*Brynjólfur Bjarnason:

Það var mjög fróðlegt að heyra ræðu hæstv. forsrh. um þetta mál, sem nú er til umr. Hann sagði, að óþarfi væri að setja löggjöf um verðlagsuppbót á laun starfsmanna í verzlunum og skrifstofum, og til þessa frv. lægju allt aðrar ástæður en til laga, sem sett hafa verið um launakjör verkafólks, og þau lög hafi verið sett af brýnni nauðsyn. Hvers vegna var nauðsynlegt fyrir þjóðfélagið að setja þessi þvingunarlög um laun verkafólksins, sem gert var með gengisskráningarlögunum? Það var vegna þess, að ef þau hefðu ekki verið sett, gátu verkalýðsfélögin með frjálsum samtökum komið því til leiðar, að verkamenn fengju launauppbót í samræmi við dýrtíðina. Þess vegna bar nauðsyn til að setja þessi lög, því að verklýðsfélögin voru nógu sterk til þess að ná rétti sínum og fá fulla launauppbót. Þau voru beinlínis sett til þess að lækka kaup verkalýðsins, sem hafði nógu sterk samtök til að tryggja sér góða afkomu. En það er ekki nauðsynlegt að gera þetta frv. að l. vegna þess, að verzlunarfólkið hefir ekki nógu sterk samtök til þess að fá þau launakjör, sem því ber. Ég tel þetta mjög lærdómsríkt fyrir verzlunarfólkið, sem hefir tæplega nógu sterk samtök, þegar sagt er við það: Þið fáið enga launauppbót, en þegar þið eruð orðin svo sterk, að við ráðum ekki við ykkur, þá fáið þið uppbót, til að koma í veg fyrir, að þið bætið kjör ykkar enn meir. verzlunarfólkið mun læra af þessu, sérstaklega ef frv. yrði fellt. Annars er allt skraf um, að með þessu frv. sé verið að setja löggjöf um að ákveða kaupið, þannig að ekki megi semja um annað, algerlega út í loftið. Það er ekki einn stafur um, að ekki megi semja um hærri laun, þó að lögbinda eigi dýrtíðaruppbótina. Þess vegna var það algerlega út í bláinn sagt hjá hv. 1. þm. N.-M., þegar hann var að tala um, að hér sé verið að hefta hið frjálsa framtak. Það er dálítið einkennileg hans afstaða til þessa máls. Hann vill ekki láta þjóðfélagið grípa hér inn í, þar sem ekki er verið að skerða athafnafrelsi nokkurs manns. Aftur á móti var hann samþykkur gengisskráningarlögnnum, þar sem gengið er freklega á allt athafnafrelsi, í beinni mótsögn við stjórnarskrá landsins.

Annars vildi ég gera fyrirspurn til hv. frsm. um það, hvernig skilja beri þetta frv. Það var rætt um það í Nd., hvort skilja bæri þetta frv. þannig. að launauppbótin næði til allra þeirra, sem eru í þjónustu verzlunarfyrirtækja, og þar með líka til forstjóranna. Einnig hvort átt sé við forstjórana, þar sem talað er um starfsmenn í verzlunum og skrifstofum. Eftir því, sem mér hefir verið sagt, var því haldið fram í Nd., að svo væri ekki. Ég vil því gera þá fyrirspurn til hv. frsm., hvernig hann litur á þetta mál. Sé svo, að forstjórar eigi að vera þarna með, sé ég ekki annað en nauðsyn beri til þess að breyta verðlagsuppbótinni í samræmi við frv. það, sem liggur fyrir um launauppbót starfsmanna ríkisins. Ég tel sjálfsagt að samræma þessi tvö frv., og eins og hv. I. þm. Eyf. talaði um, þá álít ég æskilegt, að afgreiðsla þessa máls verði látin bíða, þar til hitt frv. hefir fengið fullnaðarafgreiðslu. Komi ekki neinar till. fram við þetta frv., sem samræma það við frv. um launauppbót starfsmanna ríkisins, þá mun ég bera fram slíkar till.