11.04.1940
Efri deild: 32. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í B-deild Alþingistíðinda. (228)

87. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég vil láta það álit í ljós. að á þeim óvissu tímum, sem við nú störfum á, tel ég það algerlega óþarft að samþ. brtt. fjhn. á þskj. 406. Það mun margt geta skeð á næstu tveim árum, og eins og nú standa sakir tel ég nægilegt að framlengja 1. aðeins um eitt ár. Enda þótt þeir, sem að þessari till. standa, séu fullir af velvild í garð Eimskipafélags Íslands, eins og sjálfsagt er, getur sá velvilji komið í ljós og orðið að fullum notum síðar, þegar það kemur til greina, að Eimskipafélagið þurfi að greiða skatt fyrir árið 1942. Þessi velvild kemur að vísu fram í því að spara Alþ. að eyða tíma í að ræða þessi 1. á næsta ári, eða spara þann pappír, sem fer til þess að prenta þau. En það finnst mér svo lítilsvert atriði, að ég tel alveg sjálfsagt að samþ. þessa framlengingu aðeins fyrir eitt ár. Það er alveg óvíst, hvernig ástandið verður hér á landi árið 1941, og bezt að hafa það alveg opið, hvað við samþ. fyrir árið 1942.