19.04.1940
Neðri deild: 45. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í C-deild Alþingistíðinda. (2313)

118. mál, skattgreiðslur útgerðarfyrirtækja

*Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Það er aðeins eitt atriði í ræðu hv. 6. þm. Reykv., sem mér finnst, að ekki megi koma fram ómótmælt. Hann segir, að framkoma þessara manna, sem vilja afnema þessa heimild laganna um að undanþiggja útgerðarfyrirtækin skatti, hafi alltaf verið köld og skilningslaus í garð útgerðarinnar. Ég vil nú spyrja þennan hv. þm. að því, hvar framkoman var köld og skilningslaus, þegar þessi mál voru til meðferðar í fyrra, þegar átti að leysa mesta vandamál útgerðarinnar. voru það þá þeir menn, sem að þessari till. standa, sem styrktu útgerðarmenn, eða var það hann og flokksmenn hans? Hvar væri komið máli eins og gengislækkuninni, ef útgerðarmenn hefðu hvergi mætt meiri skilningi en frá honum og flokksmönnum hans? Þetta er það atriði, sem mér finnst, að ekki megi ganga ómótmælt fram, þegar hv. þm. slengir fram í þingdeildinni slíkum fullyrðingum, sem ekki eiga sér nokkra stoð í veruleikanum.