19.04.1940
Neðri deild: 45. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í C-deild Alþingistíðinda. (2318)

118. mál, skattgreiðslur útgerðarfyrirtækja

*Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Það er furðulegt að heyra, þegar hv. 6. þm. Reykv. er að spyrja hv. 2. þm. Skagf. um það, sem hann segir, að hann hafi enga þekkingu á. Þessi hv. þm. skýrir það samt fyrir útgerðarmönnum, að þeir hafi haft rangt fyrir sér, þegar þeir óskuðu eftir gengisfallinu. Hvers vegna báðu þeir um, að gengið væri fellt, heldur en um beinan styrk? vill þm. ekki svara því? Ég veit ekki betur en að þeir hafi beðið um að fá gengisfall í stað þess að fá beinan styrk. Geta þeir, sem voru með því, gert að því, ef það hefir ekki gagnað, eða þeir hafa séð skakkt? Ég efast ekki um, að þeir hafi haft gagn af þessu og að þeir hafa séð rétt, þegar þeir óskuðu þess að fá gengisfallið í stað þess að skattleggja alla þjóðina til þess að fá beinan styrk, en svo koma, — já, mér liggur við að segja, þó að það sé hálf-óþinglegt, hálfgerðir hvutar þeirra á eftir og kenna öðrum um það, sem er sjálfum þeim að kenna. Þeir hafa beðið um þetta, og ef nokkrir ættu að hafa skilning á því, hvað útgerðarmönnunum er fyrir beztu, ættu það að vera þeir sjálfir. Það hefir verið farið að þeirra ráðum, og svo á náttúrlega að þakka á venjulegan hátt, þegar búið er að hjálpa þeim.