29.02.1940
Efri deild: 7. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í C-deild Alþingistíðinda. (2339)

21. mál, húsnæði

*Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti! Þetta frv. var flutt nærri shlj. á siðasta þingi af þm. Sósialistafl. í Nd., en kom þó aldrei til umr. Aðalatriði þess eru þau, í fyrsta lagi, að húsaleiga má ekki hækka frá því, sem var 14. maí 1939, nema húseign sé endurbætt, svo að hún hækkar í verði, eða ef opinber gjöld af húseigninni hækka. Þó má ekki hækka leiguna nema öllum meðlimum húsnæðisn. beri saman um, að það sé sanngjarnt. Húsnæðisn. skal meta leigu allra íbúa þeirra húsa, er eigi hafa verið leigð fyrir 14. maí 1939, en síðan hafa verið eða verða teknar til íbúðar. Þá er það atriði, að ekki má segja upp húsnæði, meðan leigjandi heldur samninga, nema húseigandi þurfi húsnæðisins til eigin íbúðar, og þó því aðeins, að hann hafi ekki þegar meira húsnæði en svo, að 10 gólfflatarmetrar komi á hvern mann í heimili.

Þá er bannað að taka leiguíbúðir til annarar notkunar eða rífa þær, nema þær teljist óhæfar til íbúðar. Húseiganda er skylt að bjóða til leigu allt leigufært húsnæði, sem hann notar ekki til íbúðar fyrir sjálfan sig og sína. Engir leigusamningar skulu gildir, nema þeir séu staðfestir af húsnæðisn. Bæjarstj. skal heimilt að taka til sinna umráða auðar íbúðir. sem fyrir eru, og ráðstafa þeim til leigu. Þá mega húseigendur ekki segja upp íbúðum, þó að leigjendur geti ekki staðið í skilum vegna atvinnuleysis. En ef eignalausir húseigendur verða fyrir missi húsaleigu á þennan hátt eða vegna atvinnuleysis sjálfra sín geta ekki greitt vexti og afborganir af húseigninni, skulu þeir undanþegnir þessum greiðslum meðan þannig er ástatt fyrir þeim.

Þessi tvö síðasttöldu atriði eru veigamestu nýmæli frv. Til þess að standast kostnað af þessum framkvæmdum er svo bæjarstj. heimilt að leggja á stóribúðaskatt, samkv. reglugerð. sem samþ. sé af ráðh.

Ætlazt er til þess, að framkvæmd þessara l. sé í höndum n., sem kosin sé af félögum leigjenda og húseigenda á staðnum, eða et slík félög eru ekki til, þá fjölmennasta verðlýðsfélagi og fjölmennasta félagi atvinnurekenda á staðnum, sem hvort skal skipa tvo menn í n., en formaður hennar sé kosinn af bæjarstj.

Varla mun verða ágreiningur um það, að ef styrjöldin stendur lengi og lítið verður reist af húsum, þá verði nauðsynlegt að gera róttækar ráðstafanir til að tryggja mönnum húsnæði og koma í veg fyrir, að húsaleiga hækki. Í gengisskráningarl. frá síðasta þingi er ákvæði, sem eiga að koma í veg fyrir hækkun húsaleigu, en þetta ákvæði fellur niður 14. maí næstk., og ef það verður ekki framlengt, er enginn vafi á því, að húsaleiga mun hækka stórlega. Þetta ákvæði hefir ekki heldur, að ég hygg, komið í veg fyrir hækkun húsaleigu, og mun óhætt að fullyrða, að hún hafi hækkað nokkuð hér í Reykjavík, af því að eftirlit hefir ekki verið nægilegt. Með þessu frv. er betur um hnútana búið, svo að það væri sérstakt sleifarlag á framkvæmdinni, ef ekki kæmi að haldi.

Meðan við búum við þetta þjóðskipulag, getur það vitanlega aldrei orðið annað en slagorð, að eitt skuli yfir alla ganga að því er húsnæði snertir. Hér eru því aðeins gerðar þær hóflegu kröfur, að til ráðstafana verði gripið til tryggingar því, að menn geti haft þak yfir höfuðið, þótt húsnæði sé af skornum skammti og atvinnuleysi ríkjandi. En ef atvinnuleysi eykst, hlýtur þar að koma, að margir geta ekki staðið í skilum með húsaleigu, og verður þá að koma í veg fyrir, að hægt sé að fleygja þeim út á götuna. En ef leigjendur geta ekki greitt húsaleigu, geta efnalitlir húseigendur ekki haldið húseignum sínum, og er engum hagur að því. Það þýddi aðeins það, að fleiri sykkju niður í örbirgðina og fátækraframfærið ykist. Getur því orðið mikil þörf þeirra ráðstafana, sem hér er lagt til, að gerðar verði.

Þá er kostnaðarhliðin. Gert er ráð fyrir því, að kostnaðinum verði mætt með stóríbúðaskatti. Það er erfitt að finna rök gegn þessum skatti, enda hafa áður verið lögð fram frv. um stóríbúðaskatt, ekki aðeins af sósíalistum, heldur einnig af fulltrúum þeirra flokka, er skipa ríkisstj. Ef menn telja sig ekki hafa efni á að greiða þennan stóríbúðaskatt, geta þeir minnkað við sig húsnæðið, og þá er tilganginum náð að því leyti, að íbúðir losna, svo að fleiri geta orðið þeirra aðnjótandi.

Að lokum legg ég til, að málinu verði vísað til allshn., og óska þess, að það fái fljóta afgreiðslu, enda þótt ég geri mér ekki háar vonir í því efni eftir undanfarna reynslu.