01.03.1940
Efri deild: 8. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í C-deild Alþingistíðinda. (2343)

28. mál, framfærslulög

*Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti: Ég þarf ekki miklu við það að bæta, sem stendur í grg. frv. Ég tel ekki vafa á því, að þeim, sem áhuga hafa á því að laga framfærslulögin, finnist skammt gengið með þessum breyt., og satt að segja skammast ég mín hálfpartinn fyrir að flytja frv., sem ekki gengur lengra en þetta, þar sem umbóta er svo brýn þörf. En hér er við ramman reip að draga. Ég hefi tvisvar borið fram breyt. á framfærslul., en í hvorugt skiptið hafa þær verið ræddar eða komið úr nefnd. Það er ekki árennilegt að flytja slíkar breytingar, eins og þingið er nú skipað, ekki sízt þegar þess er gætt, að síðasta Alþ. samþ. breyt. á framfærslul., sem ganga í öfuga átt. Hefi ég því tekið þann kostinn, að gera tilraun til þess að fá numda í burt verstu óhæfuna, ákvæði 51. gr. núgildandi l. um nauðungarflutninga. Ég tel, að þetta sé það allra minnsta, sem hægt er að gera til þess að vernda styrkþegana fyrir ofríki, að fá ákvæði þessarar gr. breytt svo sem hér er farið fram á.

Ef verkalýðsfélögin hafa ekki úrskurðarvald um það, hvað talizt geti viðunandi kaup og vinnuskilyrði, er verið að gera tvennt í senn: Að skerða rétt verkalýðsfélaganna og að setja styrkþegana út fyrir mannfélagið. — Hitt atriðið, að læknir skuli skera úr um það, hvort styrkþegi er vinnufær eða ekki, tel ég óþarfa að deila um. — Það er óþarfi að halda því fram, að vald sveitarstjórna yfir styrkþegum sé ekki nóg, þótt þessum ákvæðum, sem síðasta þing samþykkti, sé sleppt. Það hefir verið svo, hvað sem öllum lögum líður, að styrkþegarnir hafa verið ofríki beittir, eins og framfærslulögin hafa verið framkvæmd í flestum bæjum landsins. Þrátt fyrir öll lagaákvæði hafa sveitarflutningar átt sér stað, og þess eru dæmi, að dauðveikur styrkþegi hefir verið settur í erfiðisvinnu, sem hann ekki þoldi og beið bana af. — Það liggur fyrir læknisúrskurður um þetta efni, en hann kom of seint, eða ekki fyrr en maðurinn var látinn.

Vald sveitarsjórnanna er í því fólgið, að þær segja við styrkþegana: Ef þú gengur ekki að þeim kostum, sem þér eru settir, fær þú engan styrk !

Ég læt svo þessi fáu orð nægja. Ég álít, að þessar breytingar á framfærslul., sem frv. felur í sér, séu það minnsta, sem unnt er að gera til þess að tryggja styrkþegunum frumstæðustu mannréttindi, og engum er það ljósara en mér, hve framfærslulögunum er áfátt, þótt þessi breyt. verði samþ.

Ég leyfi mér að vænta þess, að frv. verði að umr. lokinni vísað til allshn.