04.03.1940
Efri deild: 9. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í C-deild Alþingistíðinda. (2346)

29. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

*(Flm. Páll Hermannsson):

Þetta frv. fer fram á þá einu breyt. á l. um húsmæðafræðslu í sveitum, að í staðinn fyrir það, sem í l. er gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram helming af stofnkostnaði, þá skuli það framlag hækka upp í þrjá fjórðu hluta stofnkostnaðar.

Í l. um húsmæðrafræðslu í sveitum er ákveðið. að í framtíðinni skuli vera hér á landi 7 húsmæðraskólar, 5, sem nú þegar eru starfandi, á Hallormsstað, Laugum, Laugalandi„ Blönduósi og Staðarfelli, en auk þess tveir, sem ekki hefir enn verið byrjað á að reisa, á Laugarvatni og í Reykholti.

Það er þannig um þessa húsmæðraskóla, sem þegar eru starfandi, að ástæður þeirra eru nokkuð misjafnar. Sumir þeirra standa á tiltölulega gömlum og góðum merg fjárhagslega, eins og t. d. kvennaskólinn á Blönduósi og ég hugsa líka Staðarfellsskólinn. Aftur á móti eru sumir hinna skólanna„ sem eru nýlega reistir, og þeir eiga við fjárhagslega örðugleika að búa, sem stafar af því, að framlag til stofnunar þeirra skóla hefir ekki að öllu leyti fengizt sem fjárframlag, heldur hafa þeir orðið að byrja með allmiklar skuldir. Hinsvegar eru í l. um húsmæðrafræðslu í sveitum skólunum ákveðnar tekjur jafnháar að öðru leyti en því, sem þær miðast við nemendafjölda. Af þessu kemur, að þeir skólar, sem eru skuldlausir, geta, að ég ætla, komizt sæmilega af með það fé, sem þeim er ætlað til rekstrar. En þeir skólar, sem skuldugir eru, kikna undir skuldunum, m. a. vegna þess, að l. um húsmæðrafræðslu útiloka, að skólarnir geti drýgt tekjur sínar með kennslugjöldum. Það er með þeim l. bannað að leggja á nemendur þeirra skólagjöld, sem er að vísu ágætt, því að jafnvel þó að heimild sé fyrir smákennslugjöldum, þá er útilokað, að einstakir skólar geti notað sér þá heimild„ því að ef aðeins sumir skólar notuðu sér þetta, mundi það ýta frá þeim nemendum, sem mundi nema meiri tekjumissi en tekjurnar yrðu af þessum kennslugjöldum.

Þegar maður ber nú saman kjör húsmæðraskólanna við kjör bændaskólanna, þá sér maður mikinn mismun. Þeim, sem standa að húsmæðraskólunum, er ætlað að leggja fram helming af stofnfé þeirra og auk þess eitthvað af rekstrartekjum, þó að það sé mínna hlutfallslega. Bændaskólarnir eru hinsvegar bæði reistir og reknir alveg fyrir fé úr ríkissjóði. Ég ætla ekki að gera ýtarlegan samanburð á verksviði bændaskólanna annarsvegar og húsmæðraskólanna hinsvegar. En ég get getið þess, að mín skoðun er það, að húsmóður í sveit sé alls ekki minni þörf á uppfræðslu en bóndanum. Mér finnst þess vegna skjóta dálítið skökku við, að gera þann mun, sem nú er gerður á fjárframlögum til bændaskólanna annarsvegar og húsmæðraskólanna hinsvegar.

Það er ekki hægt að gizka á það nákvæmlega, hvaða útgjaldaauka þetta frv. myndi hafa í för með sér fyrir ríkissjóð. Það má auðvitað safna um það upplýsingum, hvaða skuldir hvíla á þeim húsmæðraskólum, sem til eru, því nokkurn hluta þeirra mundi ríkissjóður taka á sig, en hitt er ekki vitað, hvaða vaxtarkröfur þessir skólar gera.

Það er svo um þessa skóla, að þeir þurfa mikið húsrúm. Skólar, þar sem kennt er verklegt, þurfa alltaf meira húsrúm en bóklegir skólar. Auk þess er varla gerlegt að reka húsmæðraskóla, nema hafa bú í sambandi við hann. Er þetta nauðsynlegt til þess m. a., að nemendurnir geti lært t. d. algengan matartilbúning úr mjólkurafurðum, sem tíðkast í sveitum, o. s. frv.

Ég ætla nú samt þrátt fyrir þetta, að kostnaðurinn, sem af frv. leiðir, verði vel viðráðanlegur fyrir ríkissjóð.

Ég skal geta þess í sambandi við niðurlag 1. gr. frv., þar sem segir: „þegar ríkissjóður greiðir stofnstyrk, má aðeins verja því fé til húsabóta og annara umbóta á skólasetrinu, í samráði við kennslumálaráðherra“, að þetta ákvæði er tekið orðrétt úr gildandi l. um héraðsskóla. Það er ef til vill vafamál, að rétt sé að tiltaka, að þetta skuli gert í samráði við kennslumálaráðherra, því ég ætla, að bændaskólarnir og húsmæðraskólarnir heyri undir landbúnaðarráðherra. Það er spursmál, hvernig ætti að breyta þessu. Ef til vill ætti að standa þarna „í samráði við ráðherra“.

Ég vil ekki tefja d. með lengri ræðu. Ég vil svo að lokum óska þess, að málinu verði, að lokinni þessari umr„ vísað til 2. umr. og menntmn.