11.03.1940
Efri deild: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í C-deild Alþingistíðinda. (2350)

52. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

*Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Herra forseti! Við hv. þm. Vestm. og hv. 10. landsk. höfum leyft okkur að leggja fram þetta frv., sem nú er hér til 1. umr.

Þetta mál var sem kunnugt er mikið rætt á síðasta þingi. Ég flutti þá brtt. um, að öll stríðsáhættuþóknunin skyldi vera skattfrjáls. Það fékk þá mjög litlar undirtektir hér, og sama máli var að gegna í Nd. Þrátt fyrir það höfum við leyft okkur að bera þetta frv. fram nú, sem fer fram á, að öll áhættuþóknunin sé undanþegin sköttum, bæði til ríkis og bæjar. Síðan þetta hefir skeð, hefir í okkar nágrannalöndum, a. m. k. í Danmörku og ég hygg líka í Noregi, verið samþ., að sjómenn þar fengju alla áhættuþóknunina skattfrjálsa. Sjómenn hér líta svo á, að lítill stigmunur sé á milli þess að heita íslenzkur farmaður eða norskur eða danskur farmaður. Þeirra aðstæður eru yfirleitt líkar, og þeir eru í sömu lífshættu, þegar þeir sigla um sömu svæði. Sem betur fer hefir gifta okkar sjómanna hingað til verið það mikil, að fram til þessa hefir ekki orðið tjón á mannslífum eða skipum, en enginn veit, hvenær það kann að koma fyrir á þessum miklu hættutímum, sem nú eru fyrir sjófarendur. Það hefir verið litið svo á, að þessi áhættuþóknun sé ekki kaup í venjulegri merkingu, heldur verðlaun fyrir að leggja sig í þessa lífshættu, og hún eigi að koma þeim að fullum notum heil og óskert. Sjómennirnir sjálfir hafa ótvírætt látið óskir sínar í ljós. Um síðustu áramót lágu fyrir óskir frá um 600 sjómönnum, sem störfuðu á skipum, sem sigldu til Bretlands og annara landa, um að Alþingi vildi verða við þessum óskum þeirra. Óskir frá sjómannastéttinni til Alþingis eru ekki svo tíðar, að það væri vel viðeigandi, ef þingið sæi sér fært að verða við þessum óskum þeirra, þar sem afkoma þjóðarinnar veltur ekki hvað minnst á því, að þessum siglingum verði haldið uppi, svo lengi sem nokkur fleyta er til og nokkur maður fæst til að sigla á þessum svæðum. Það má vera öllum hv. þm. ljóst, að aðstaða okkar yrði mjög bág, ef við yrðum neyddir til að leggja niður þessar siglingar. Og þar sem siglingahættan er það mikil. að það getur því miður komið fyrir, að skip geti horfið á einu augnabliki, án þess að nokkur eigi þess kost að bjarga sér, þá teljum við alla sanngirni mæla með þessu frv., sem við höfum lagt hér fram.

Ég skal játa, að við höfum ekki reiknað út, hversu mikil upphæð þetta mundi vera, því að þessi upphæð kemur mjög mismunandi niður og á mismarga menn; sumir sigla kannske hvern mánuð, aðrir annanhvern mánuð og enn aðrir þriðja hvern mánuð. Er því illmögulegt að gera þetta upp, fyrr en skattskýrslurnar liggja fyrir, en við erum þess fullvissir, að ekki sé um stærri upphæð að ræða en það, að ríki og bær mundu komast yfir sína örðugleika, þó að þessi áhættuþóknun sjómanna yrði undanþegin öllum sköttum.

Ég tel svo ekki þörf á að hafa fleiri orð um þetta mál. Ég vænti, að n., sem fær frv. til meðferðar, sem ég legg til, að verði fjhn., hraði afgreiðslu þess sem mest, því að sennilega er ekki svo ýkjalangt eftir af þingtímanum, en æskilegt, að málið gæti fengið fljóta afgreiðslu.