05.04.1940
Efri deild: 30. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í C-deild Alþingistíðinda. (2353)

52. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

*Frsm. (Erlendur Þorsteinsson):

Herra forseti! Mál þetta, sem nú liggur fyrir til umr., var flutt í byrjun þingtímans og hefir því dregizt nokkuð lengi að afgr. það frá fjhn. Aðalorsökin til þessa dráttar er sú, að n. fannst rétt að leita upplýsinga um málið. Hún óskaði eftir því, að ríkisstj. léti sér í té vitneskju um, hvernig þessum málum væri háttað hjá nágrannaþjóðunum, og fékk það svar, að í Danmörku væri öll stríðsáhættuþóknun skattfrjáls. Í Noregi hefir ekki verið ákveðið um þetta enn og ekki heldur í Svíþjóð, en búizt við, að þar muni þessi þóknun verða skattfrjáls. N. hefir samt orðið sammála um að afgr. málið til d. með brtt., sem eru á þskj. 364. Einn nm. hefir skrifað undir nál. með fyrirvara. Þetta frv. fer fram á það að breyta l., sem sett voru á síðasta Alþ. um útsvarsgreiðslu af stríðsáhættuþóknun sjómanna. Eins og hv. þm. mun kunnugt um, þá varð það að samkomulagi milli ríkisstj. og sjómanna, að hún skyldi bera fram frv. um, að helmingur stríðsáhættuþóknunar til sjómanna skuli vera skattfrjáls, og þetta var samþ. á síðasta þingi. Nú kom í ljós, að sjómenn voru ekki ánægðir með þessa afgreiðslu málsins, og 700 sjómenn, sem voru í millilandasiglingum, hafa sent áskorun til Alþ. þess efnis, að það sýni sjómannastéttinni viðurkenningu og réttlæti með því að undanþiggja stríðsáhættuþóknunina öllum skatt- og útsvarsgreiðslum.

Nú hefir fjhn. komið með þá brtt. við 1. gr. frv., að hún vill fallast á að undanþiggja skatt af stríðsáhættuþóknuninni hjá þeim, sem hafa 8 þús. kr. tekjur. En hjá þeim, sem hafa samanlagt í tekjur og áhættuþóknun yfir 8 þús. kr., skal draga 75% af þóknuninni. Þeir þurfa því aðeins að borga skatt af 25%.

Ég skal svo ekki lengja umr. frekar, en vænti góðra undirtekta hjá hv. þm. undir þetta mál. Hér er ekki um annað að ræða en viðurkenningu til handa sjómannastéttinni, með þeim fríðindum, sem frv. fer fram á.