11.04.1940
Efri deild: 32. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í C-deild Alþingistíðinda. (2362)

52. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

*Jóhann Jósefsson:

Herra forseti! Ég er einn af þeim, sem hafa gerzt flutningsmenn að þessu máli, og skal segja það strax, að þó ég af eðlilegum ástæðum — ég er dálítið kvefaður — geti ekki hamlað upp á móti því stórflóði af ásökunum, sem kom frá hv. 1. þm. N.-M., að ef hér er stofnað til ómaklegra fríðinda með þessu frv., þá er oft búið að stíga á Alþingi spor, sem ekki er betra að réttlæta og eru miklu ómaklegri en hér er gert. Ég ætla ekki að fara að rökræða við hv. þm. um hættur og taugastrið þeirra manna, sem sigla um hættusvæðin. Ég ímynda mér, að þótt annar okkar hafi farið þar um sem ferðamaður, en hinn ekki komið nálægt því, megi um okkur háða segja, að þar sé eins og blindur dæmi um lit. Þar við bætist, að þetta er ekki annað en lagfæring á nokkrum yfirsjónum, sem Alþingi hefir gert í samningu laga. Alþingi hefir samþ., að áhættuþóknunin ætti að vera nokkurnveginn skattfrjáls, og hefir þar með viðurkennt, að þeir, sem þessara réttinda njóta, eigi þau skilið. Það, sem hér er um að ræða, er að gera þetta í nokkuð ríkara mæli en gildandi lög segja fyrir um.

Ef leitað er að höfuðástæðunni fyrir því, að hér er í þetta skipti lögð áherzla á að fá breytt lögunum um skattgreiðslur sjómanna, sem sigla um ófriðarsvæðin, er hún sú, að skattalöggjöfinni hér er orðið þannig háttað, að þó menn vitaskuld hennar vegna ekki leggi niður dagleg störf eða hlaupi frá sínum embættum, þá er hún þannig, að það er satt að segja ekki til mikils að vinna og sízt af öllu fyrir þá, sem hafa föst laun, því þegar launaupphæðin er komin í sæmilegar tekjur, þá er obbanum af þeim sópað í landskassann. (BSt: Fer nú ekki meginið í bæjarkassann?) Ég skal gjarnan láta eitt yfir báða ganga. M. ö. o., það opinbera tekur obbann af launum manna til sín. Þessi skattalöggjöf er fyrir löngu farin að hafa hamlandi áhrif á framtak manna á ýmsu sviði. Þegar ófriðurinn skapaði þetta nýja viðhorf, var það bersýnilegt, að gera þyrfti breytingar til þess, að þeir menn, sem verða að taka að sér að mæta þeim hættum, sem eru í viðbót við þær hættur, sem fylgja hinum venjulegu störfum sjómannanna, bæru nokkuð úr býtum í hlutfalli við sitt erfiði og áhættu. Það er ekki hægt að meta til peninga þá óskaplegu áreynslu, sem menn verða að leggja á sig, og ekki einasta sjálfa sig, heldur og sína nánustu, sem heima eru og vita ástvini sína stadda í sífelldri hættu. Slíkt geri ég ekki neina tilraun til að meta til peninga, en ég segi bara það, að það er meiri mismunur hér í þessu efni heldur en hjá öðrum þjóðum. Nágrannaþjóðir okkar hafa stigið spor í þessa átt, og það í ríkara mæli en hv. nefnd vill vera láta.

Mér finnst, að það eigi að líta á þær algerlega sérstöku ástæður, sem hér eru fyrir hendi, en ekki fara út í þann meting, sem hv. 1. þm. N.-M. leiddi hér inn í sambandi við þetta.

Ég vil að síðustu undirstrika það, að þessi skattaleiðrétting á rót sína í því þjóðarmeini, sem hv. 1. þm. N.-M. á drjúgan þátt í að skapa hér, og sem svo að segja tekur allan afrakstur af rekstri og obbann af launum manna, þegar segja má, að menn séu komnir í launastiga, sem kallast sæmilegt kaup.