12.04.1940
Efri deild: 33. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í C-deild Alþingistíðinda. (2365)

52. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

Bernharð Stefánsson:

Ég ætla að láta umr. um þetta mál niður falla frá minni hendi, en þegar ég kvaddi mér hljóðs í gær, þá var það út af því, að mér fannst hv. 2. landsk. fala á þeim grundvelli, eins og hann hefir gert áður, þegar þetta mál hefir verið til umr., að það væri stríðsáhættuþóknunin sjálf, sem verið væri að tala um. Hann var að leggja út af því í þeim kafla ræðu hans, sem ég heyrði, að sjómennirnir ættu það sannarlega skilið fyrir það, sem þeir legðu á sig í þessu efni, að fá þessi fríðindi. Hér hefir enginn hreyft andmælum gegn því, að sjómennirnir, sem sigla á hættusvæðinu, eigi að fá bætur fyrir það, og það hafa þeir líka fengið, og ég tók það beinlínis fram, að ég gæti vel gengið inn á, að a. m. k. sumir þeirra ættu að fá hærri bætur en þeir nú fá, en ég get ekki gengið inn á það, að ekki séu einhver takmörk fyrir því, jafnvel þó um lífshættulegt starf sé að ræða, hvað íslenzka þjóðfélagið getur leyft sér að greiða mönnum há laun. Ég ætla, að með sama áframhaldi og verið hefir, þá séu til sjómenn, sem sigla um þetta svæði, er hafa tekjur, sem nema jafnvel tugum þúsunda, en það eru auðvitað ekki margir. En hér er ekki verið að ræða um það, hvort sjómenn eigi að fá uppbót eða ekki, enda hafa engin andmæli komið fram gegn því, a. m. k. ekki frá mér, heldur er verið að ræða um, hvort veita eigi ákveðnum mönnum í þjóðfélaginu sérréttindi, þannig, að þeir séu lausir við að greiða skatta eins og aðrir landsmenn. Það er um þetta, sem er verið að ræða, og ég verð að segja, að mér þykir það undarleg kenning frá hv. 2. landsk. um þetta efni, að allt í einu virðist hann telja, að það að greiða skatta sé eitthvert ógurlegt böl, sem þessir menn eigi að komast undan. Hann tilheyrir þó þeim flokki, sem hefir haldið því fram, að sem allra mest af tekjum ríkisins eigi að innheimtast með beinum sköttum, en ekki óbeinum. Þá skil ég betur hv. þm. Vestm. Hann hefir þá skoðun, að tekjur ríkissjóðs eigi að vera af óbeinum sköttum og að menn eigi helzt alls ekki að greiða beina skatta til ríkissjóðs, eða sem allra lægsta, svo það er ekkert ósamræmi hjá honum, þótt hann vilji losa þessa menn undan skatti, því hann vill í sjálfu sér, að mér skilst, að lækkaðir verði beinir skattar á öllum til ríkissjóðs, en óbeinu skattarnir verði aftur á móti hækkaðir í staðinn (JJós: Eða kostnaðurinn lækkaður). Já, eða það, en ekki hafa enn komið neinar till. frá honum um það. Það er hægur vandi að segja á þingmálafundum, að menn vilji lækka skattana, en ekki man ég eftir, að komið hafi neinar lækkunartill. frá þessum hv. þm„ heldur þvert á móti, og ég hygg, að hann hafi greitt atkv. með flestum þeim hækkunartill., sem fram hafa komið við fjárl. Ég býst við, að það sé óhætt að slá því föstu með þennan hv. þm., að hann kjósi ekki að breyta þannig til, heldur vilji hann lækka beinu skattana og hækka tollana, en það hefir hv. 2. landsk. ekki talið sig vilja.

Þótt ég finni enga hvöt hjá mér til þess að svara fyrir aðra hv. þm., þá held ég, að það sé ekki rétt, að það sé hv. 1. þm. N.-M., sem sérstaklega hefir valdið því, að hér eru háir skattar, eins og hv. þm. Vestm. var að halda fram í gær. Það erum ekki við, sem tilheyrum Framsfl., sem því völdum. (JJós: Ekki það?). Nei, alls ekki.

Ég ætla aðeins að segja það, að þótt ég skrifaði undir nál. með fyrirvara, þá var það út af málinu sjálfu, en ekki brtt., og þótt ég hafi gert þessa aths., þá hefi ég tekið þá afstöðu til málsins, að ég mun að sjálfsögðu greiða atkv. með brtt. frá n., en um málið sjálft vil ég ekki greiða atkv. eins og á stendur. Þótt sjómennirnir séu alls góðs maklegir, þá finnst mér það einkennilegt, að frá sömu mönnum skuli það koma, sem hér liggur skjallega fyrir í þessu máli, að þeir vilja hafa 8 þús. kr. einskonar lágmarkslaun hjá sjómönnum, um leið og þeir telja, að það eigi að vera hámarkslaun hjá embættismönnum ríkisins. Það sýnir aðeins, að þrátt fyrir allt getur þetta mál komizt út í dálitlar öfgar.