12.04.1940
Efri deild: 33. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í C-deild Alþingistíðinda. (2366)

52. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Það er ekki ætlun mín að þreyta umr. um þetta mál, þó margt megi um það segja, en svo virðist sem einstaka hv. þm. hafi frekar löngun til þess að tefja fyrir málinu, og á ég þar við hv. 1. þm. N: M. Um hv. 1. þm. Eyf. vil ég ekki segja það sama, því hann hefir rætt málið rólega, án þess að sýna því nokkra andúð, og reynt að gagnrýna það á hógværan hátt. Áður en ég fer lengra út í málið vildi ég svara því, sem hv. fjmrh. skaut fram um það, hvaða þjóðir hefðu veitt þetta skattfrelsi, en það var tekið fram af hv. frsm. n., að það hefði Danmörk ein gert, eins og málið stóð þá, en kunnugt er, að samskonar ósk frá sjómannastéttinni lá fyrir Stórþingi Norðmanna og Ríkisþingi Svía, en þegar síðast komu fréttir þaðan, hafði enn engin afgreiðsla orðið á þessu máli, án þess að þing þessara þjóða hefðu tekið nokkra ákveðna afstöðu til þess. Nú vita allir, hvernig ástatt er hjá þessum frændþjóðum vorum, og að líklega hefir ekki unnizt tími til að fjalla um slík mál sem þetta, svo það þýðir ekki að vitna í þær að svo stöddu í þessu efni, en þetta vildi ég, að kæmi skýrt fram, svo ekki væri hægt að segja fyrir satt, að alger neitun hefði legið fyrir frá þessum þjóðum.

Ég ætla ekki að svara ræðu hv. 1. þm. N.-M. því hans ræða hér var þannig í garð þessarar stéttar, að hún var langt fyrir neðan það, sem ég hafði vænzt af honum, og hann mun verða þess var hjá þeim, sem hér eiga hlut að máli, að þaðan eigi hann lítils stuðnings að vænta. Hann sagði. að ég flytti þetta mál á þann hátt, að svo virtist sem ég ræddi um sjálfa áhættuþóknunina, hvað hún ætti að vera há. Þetta er ekki rétt, en menn komu nokkuð inn á áhættuþóknunina sjálfa, en ég hefi vitandi vits ekki viljað fara inn á málið út frá skatt-„principinu“ vegna þess, að ég viðurkenni það sem algerlega rétt, að sjómenn greiði skatt af sínum launum, en ég lít á þessa áhættuþóknun sem heiðurslaun, en ekki sem venjuleg laun. Þetta eru verðlaun fyrir að sumir þegnar þjóðfélagsins leggja sig í hættu umfram aðra til þess að draga að þjóðarbúinu og flytja frá því. Eins og ég hefi sagt, þá tel ég það vera heiðursverðlaun, sem hér um ræðir, sem þessi stétt fær, en sem allir vita, að verða að greiðast af almenningi að miklu leyti með hækkuðu vöruverði og hækkuðum farmgjöldum í sambandi við fiskiveiðarnar og alla flutninga á fiski. En það, sem hér er farið fram á, er það, að Alþingi geri sitt til, að mennirnir fái að njóta þessara heiðursverðlauna að fullu, svo að þau gangi ekki að meira eða mínna leyti til þess að fylla upp í þarfir bæjar- og sveitarfélaga og ríkissjóðs. Út frá þessu sjónarmiði höfum við flutt þetta mál hér, og hv. þm. verða að gera það upp við sig, hvort þeir vilja veita sjómönnunum þessi heiðurslaun að fullu eða ekki. Ég get vísað til þess, að sumum mönnum hér hafa verið veitt heiðursverðlaun fyrir unna dáð, eins og t. d. björgun, úr sérstökum sjóðum eins og Carnegiesjóðnum, sem nokkrir Íslendingar hafa fengið verðlaun úr, og ég veit ekki til þess, að þeim mönnum hafi verið gert að greiða af þeim skatt. Að síðustu vildi ég mjög óska þess, að þetta mál fengi að fara í gegnum 2. umr. Og það vil ég segja að þeir, sem hafa heyrt slíkar raddir og ég hefi heyrt um það kapp, sem sjómennirnir leggja á að verða bænheyrðir, munu aðeins snúast á einn veg í þessu máli. Þá vil ég benda á, að nú stendur fyrir dyrum ný samningagerð, einmitt um stríðsáhættuþóknunina, og ef Alþingi neitar sjómönnunum um þessa bón, þá getur það orðið til þess að torvelda framgang þess máls, sem þó veltur mikið á, sem sé að geta haldið óhindrað uppi siglingum að og frá landinu. Ég segi það í fullkominni alvöru, að ef svar Alþingis verður aðeins það: „við viljum ekki hlusta á þetta kvabb ykkar“, þá óttast ég, að það hafi áhrif á stórum veigameira mál. Menn mega taka þetta hvernig sem þeir vilja, en ég hefi aðeins sagt það, sem ég veit satt og rétt í þessu máli.