12.04.1940
Efri deild: 33. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í C-deild Alþingistíðinda. (2367)

52. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

*Jóhann Jósefsson:

Það eru örfá orð út af aths. hv. 1. þm. Eyf. um það, sem ég hafði lagt til málanna, og mín afskipti af þessu máli.

Það er að vísu rétt hjá hv. þm., að ég tel, að beinu skattarnir séu orðnir svo mikils til of háir hér á landi, að þeir verki sem hreinn og beinn hemill á framtakssemi manna af þeirri einföldu ástæðu, að það er farið að verða viðurkennd staðreynd í þessu þjóðfélagi, að það borgi sig ekki að afla fjár, ef mikið er fyrir því haft, og a. m. k. ef mikið er lagt í sölurnar, vegna þess að bæjar- og ríkissjóður hirði svo mikinn kúf þar ofan af og í engu réttu hlutfalli við það, sem sæmilegt mætti teljast. Ég held, að ég geti varla stillt mig um að segja hv. 1. þm. Eyf. frá einn smádæmi um þessa skoðun, hvað hún er orðin almenn og hvað eiginlega þetta ástand er orðið alvarlegt. Ég hefi það fyrir satt, að einn af mjög mætum mönnum þessa þjóðfélags, sem hefir kynnt sér þessa löggjöf nálægra þjóða og okkar, kynnt sér, hvað það opinbera — og tala ég þar bæði um bæjar- og sveitarfélög — hirðir í sinn vasa af tekjum manna hér og annarstaðar, hafi komizt svo að orði eftir að hafa athugað þetta, að segja mætti, að það væri svo komið hér á landi, að ágengni þess opinbera væri orðin svo mikil, að það væri orðin nauðsyn fyrir fólkið að viðhafa brögð til þess að vera ekki rúið um of af þessari skattheimtu. Ég veit, að þetta hefir ekki verið sagt af neinni léttúð, heldur af kunnugleika á, að þessi nauðsyn hefir verið fyrir hendi. Ég geri ráð fyrir, að sá hinn sami hafi litið svo á, að með áframhaldandi skattabrjálæði, sem mér finnst óhætt að nefna svo, muni svo fara, að allir verði jafnaumir í þjóðfélaginu og svo að segja öreigar nema ríkið, og allir vita, að ríkið verður ekki beisinn bógur, ef einstaklingarnir eru yfir höfuð einskis megnugir. Það var út frá þessum forsendum, að skattarnir væru svona geysimikið of háir hér, að ég taldi, að forsvaranlegt væri að ívilna sjómönnum um skatt á það kaup, sem þeir fá sem heiðurslaun eða umframlaun fyrir að sigla á styrjaldarsvæðinu, og ég get ómögulega fengið það í mitt höfuð, að þetta sé svo ákaflega átöluvert sem sumir hv. þm. hér vilja vera láta.

Það var nokkuð laus þýðing á mínni framkomu, sem hv. 1. þm. Eyf. kom með, að ég vildi helzt enga beina skatta. Ég hefi aldrei sagt það, og það er ekki heldur mín skoðun, en Ég vil, að beinu sköttunum sé stillt það mikið í hóf, að þeir verki ekki sem grýla á duglega einstaklinga í þjóðfélaginu og þeir hræddu þá ekki frá að leggja á sig erfiði og hættur til þess að vinna sér inn fé, því að ég veit, að þegar skattarnir verka þannig, þá eru þeir hættulegir fyrir þjóðfélagið eins og fyrir einstaklingana. Ég held, að ég hafi heldur hvergi sagt, að taumlaust mætti hækka óbeinu skattana, því að um marga þeirra er svo nú, að þeir eru allt of háir og þyrftu leiðréttingar við.

Þá kem ég að höfuðásökun hv. þm. í minn garð. Við tveir flm. þessa frv. fengum hvor um sig nokkurskonar ádrepu hjá hv. þm., annar fyrir það að hann fylgdi flokki, sem vildi helzt sem mesta beina skatta, — það var hv. 2. landsk., og hann hefir nú svarað fyrir sig, — en ég fyrir það, að ég væri eyðslusamur á þingi og greiddi oft atkv. með hækkunartill., en kæmi ekki, eins og hv. þm. sagði, með lækkunartill. Nú vil ég benda hv. 1. þm. Eyf. á, að þótt fjárl. ríkisins hafi ákaflega mikla þýðingu fyrir afkoma þjóðarinnar o. s. frv., og það út af fyrir sig, hvernig menn afgr. fjárl., sé mikilsvert atriði, þá er margt fleira í störfum Alþ., sem hefir mikil áhrif á fjárhaginn og það, hvernig fjárl. verða, því að það eru margskonar fjárframlög, sem eru ákveðin með samþykkt sérstakra l., svo að það er ekki alltaf réttur mælikvarði á sparnaðarvilja manna, hvernig þeir greiða atkv. um oft litlar fjárhæðir í fjárl. Ég hefi oft veitt því eftirtekt, að þessi sparnaður hér á þingi er oft í því fólginn, að verið er að metast um, hvort skuli veita hundrað krónum meira eða mínna í þetta eða hitt, hvort þessi og þessi vegarspottinn skuli fá þúsund krónum meira eða minna o. s. frv. Það er oft álitið, að þeir, sem þannig knifa mest við neglur sér, séu mestir búmenn og mestir sparnaðarmenn. En það er ekki alltaf svo. Ég skal játa, að ég hefi tilhneigingu til þess að vera ekki sárknifinn í þessum efnum.

Þá vildi hv. I. þm. Eyf. álíta, að það hefði verið ósæmilegt af mér að segja eitthvað á þá leið, að höfuðandmælandi þessa frv., hv. 1. þm. N.-M., tilheyrði þeim flokki, sem ætti mesta sök á, að skattarnir væru orðnir svona háir og þyrftu að vera svona háir, því að þetta væri ekki tilfellið, sagði hv. 1. þm. Eyf. Jæja, hv. l. þm. N.-M. tilheyrir Framsfl., eins og maður veit. Hann er ekki búinn að sitja eins lengi á þingi og ég og hv. 1. þm. Eyf. við erum líklega búnir að vera jafnlengi á þingi og getum því báðir dæmt um gang málanna, og ég ætla bara að segja það, að ég hefi sýnt miklu meiri sparnaðarviðleitni á okkar þingsetutímabili heldur en hv. 1. þm. Eyf., því að nú í 10–12 ár hefi ég þráfaldlega barizt á móti mörgum eyðslufrv., sem Framsfl. hefir komið hér með hvert á fætur öðru. (BSt: Flutt af Alþfl.). Ég vil minna á einkasölurnar, öll þau bákn, sem Framsfl. og Alþfl. hafa staðið fyrir að koma upp. (PHerm: Ríkið hefir miklar tekjur af einkasölunum). Ég held, að þegar allt kemur til alls, séu þær engin gróðalind fyrir þjóðina. Ég vil minna hv. 1. þm. Eyf. á þær miklu fjárhæðir, sem Framsfl. varð að samþ. fyrir kröfur frá Alþfl., þegar hann sat einn við stjórn, eingöngu af því að Alþfl. studdi hann og hann átti sitt líf í fleiri ár undir því, að hann styddi hann og hann lét kosta miklar upphæðir, sem urðu að koma á fjárlög. Öll þessi ár var ég á móti því að kaupa sitt pólitíska líf fyrir síhækkandi fjárlög og fyrir nýjar og nýjar ríkisstofnanir, svo að ef á að fara út í þetta mál og hv. 1. þm. Eyf. ætlar að hafa hér eitthvert uppgjör, þá held ég, að ég hafi ekki unnið nærri því eins mikið að því að hækka útgjöld ríkisins — ég tala nú ekki um útgjöld þjóðarinnar — eins og þessi hv. þm. hefir orðið að gera. Ég veit, að hann hefir oft unnið sér það nauðugt, en það kemur beinlínis ekki þessu máli við.

Að síðustu vil ég minna á það misrétti eða ranglæti, sem hér hefir verið haldið fram, að flm. frv. séu að leiða inn með því að vilja láta áhættuþóknun sjómanna vera skattfrjálsa. Í því efni skal ég fúslega kannast við, að ég álít, að þessir menn eigi að búa við betri kjör um kaupgjald en ég og mínir líkar, sem aldrei fara út í þessar hættur. En ef andmælendur þessa frv. vilja byggja höfuðrök sín á því, að hér sé verið að ívilna sérstaklega einum flokki manna á kostnað annara, þá vil ég benda þessum hv. þm. á, að fyrir löngu hefir verið lögleitt hér ósamræmi í skattalögum, sem líka mætti kalla ranglæti. Á ég þar við skattfrelsi samvinnufélaganna, og ætla ég, að ef nokkur stjórnmálaflokkur landsins á drjúgan þátt þar að, þá sé það Framsfl. Framsfl. hefir barizt fyrir því og mundi í dag berjast fyrir því, ef einhver vildi hagga við þessu stórkostlega misrétti um skattgreiðslu, og því svo stóru, að þetta mál, sem hér er um að ræða, kemst hvergi nærri í samjöfnuð við það misrétti í skattgreiðslu, sem samvinnufélög og kaupfélög njóta nú og þessi flokkur ber siðferðislega ábyrgð á. Það getur vel verið, að það sé rétt hjá hv. 1. þm. Eyf., að sökum þess að hv. 1. þm. N.- M. hefir verið stutt hér á þingi, þá beri hann persónulega ekki ábyrgð á öllu því misrétti, sem átt hefir sér stað um skattalög. En ég vil réttlæta það með því, að þrátt fyrir það, að hv. 1. þm. N.- M. hafi ekki alltaf verið hér til að rétta upp höndina með öllu því, sem gert hefir verið undir forustu Framsfl. og valdið hefir síhækkandi sköttum, þá finnst mér, að hv. 1. þm. N.- M. sé prýðileg líkamning þess og hann sé svo mætavel að því kominn að vera þar málsaðili.

Ég skal svo ekki tefja tímann frekar, nema sérstakt tilefni gefist til, en vona, að d. fallist á þær röksemdir, sem færðar hafa verið fram fyrir því, að rétt sé og sanngjarnt að veitu sjómönnum þessa ívilnun.