12.04.1940
Efri deild: 33. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í C-deild Alþingistíðinda. (2368)

52. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég þakka hv. þm. Vestm. fyrir hans hól á mig. Það, sem ég vildi benda hv. þm. á, eru fyrst og fremst tvö atriði.

Ég hefi síðan í gær athugað nokkuð, hvernig þetta kemur til með að verka í framkvæmdinni. Því miður hafði ég ekki tíma til að gera það neitt að ráði, en ég fletti í gegnum ýmsa pappíra og athugaði, hvað miklar tekjur eru hjá ýmsum þessum mönnum og hvað mikil uppbótin hefir verið árið sem leið. Ég tók hér á blað hjá mér fjögur dæmi,

Fyrsta dæmi:

Skattskyldar tekjur 3500 kr. Skattur kr. 117.50. Tekjur með þóknun 7800 kr. Skattur ætti að vera kr. 629.00.

Annað dæmi:

Tekjur án þóknunar 8200 kr. Skattur kr. 927.00. Tekjur með þóknun 19000 kr. Skattur ætti að vera kr. 4750.00.

Þriðja dæmi:

Tekjur án þóknunar 5300 kr. Skattur kr. 285.00. Tekjur með þóknun 13000 kr. Skattur ætti að vera kr. 2520.00.

Fjórða dæmi:

Tekjur án þóknunar 12000 kr. Skattur kr. 2180.00: Tekjur með þóknun 22000 kr. Skattur ætti að vera kr. 5940.00.

Mér virðist af þessum dæmum, að það ætti að vera öllum ljóst, að þessir menn séu með sinni áhættuþóknun komnir í það góð laun, að engin ástæða sé til að sleppa þeim, og mér heyrist stundum vera talað um útsvarsþörf bæjanna, svo þeim veiti ekki af að leggja útsvör á þessar háu tekjur.

Svo er annað, sem ég vildi gjarnan, að hv. 2. landsk. útskýrði fyrir mér, sérstaklega í sambandi við það, sem hann sagði í gær og aftur í dag, að þetta væru heiðurslaun, sem menn fengju fyrir það ógurlega taugastríð, sem þeir legðu á sig og sem ég geri ekki mikið úr og stafar af mínni lífsskoðun. (SÁÓ: Það er hægt að vera borubrattur í landi). Ég vil segja honum frá háseta, sem er skráður á skip og fær sitt kaup og áhættuþóknun. Svo fær hann annan á skipið fyrir sig, situr sjálfur í landi og hefir áhættuþóknunina, en sá, sem stendur í taugastríðinu, fær ekkert af því. Þetta dæmi liggur nú fyrir til úrskurðar, því nú er deilt um, hvori maðurinn, sem er í landi, en fær áhættuþóknun fyrir taugastríð sitt þar, á að vera undanþeginn skatti og útsvari af 1/2 hennar eða ekki, eða hvort hinn, sem var á sjónum, en fékk hana ekki, á að fá einhvern hluta af sínu kaupi skatt- og útsvarsfrjálsan.

Þá er það skipstjóri, sem fær 3% af afla og situr heima. Hvað á hann að fá mikið af áhættuþóknun fyrir að heyja taugastríð á sínu heimili í Hafnarfirði? Það liggur fyrir til úrskurðar. Stjórnarráðið er ekki búið að fella úrskurð um það enn. Áhættuþóknunin er þannig farin að ganga kaupum og sölum. Menn, sem sitja í landi, fá hana. Finnst hv. 2. landsk. nokkuð bogið við þetta? Mér finnst það, og eins og ég sagði í gær, till. er ólán, og því væri sæmst fyrir þá að taka hana hreint og beint aftur.