22.04.1940
Efri deild: 44. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í C-deild Alþingistíðinda. (2376)

52. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Við 2. umr. þessa máls féllu hér í deildinni nokkur orð um það, sérstaklega hjá hv. þm. Vestm. og hv. 1. þm. Reykv., að sú stefna, sem Framsfl. hefði fylgt í skattamálum, væri svo brjáluð, að hún fyrirbyggði, að menn vildu hafa háar tekjur eða gætu eignazt nokkuð í þessu þjóðfélagi. Þó að þeir segðust báðir vera mér sammála um. að ekki ætti í þessu þjóðfélagi frekar en öðrum að skapa sérréttindastéttir hvað skattgreiðslu eða slíkt snertir, vildu þeir brjóta þessa meginreglu sína til þess að geta brotið í henni það. sem þeir kalla stefnu Framsfl. Þessu verð ég að mótmæla.

Hv. 2. landsk. þarf ég, held ég, engu að svara. Hann virtist falla frá því að rökræða og svaraði ekki einu orði framar þeim rökum, sem ég hafði borið fram. En ekki ber hann því við, eins og hinir hv. andmælendur mínir, að enginn eignist neitt lengur vegna skattanna. Hann er þar samkvæmari sjálfum sér en þeir.

Ég held, að þessi skoðun, sem þeir prédika nú sýknt og heilagt, fyrr og síðar, sé orðin hið mesta átumein í þjóðfélaginu, sé í rauninni réttnefnd landráð. Ef því er komið inn hjá borgurunum, að þeim þýði ekkert að afla sér tekna, þeir geti aldrei eignazt neitt með því, er rænt frá þeim viðleitni, sem þessir hv. þm. hafa, og að mörgu leyti með réttu, talið til hinna nauðsynlegustu þjóðfélagsdyggða.

Nú skal ég benda á staðreyndir um það, að þeir fara hér með rangt mál, ég held beinlínis visvítandi. Í hv. Nd. hefir nú verið samþ. fyrir þeirra tilstilli frv. um hærra kaup fyrir verzlunarmenn og skrifstofufólk. Er það tilgangslaust? Nei það er það ekki; Það viðurkennir hv. 2. landsk. og allir heilvita menn, að það er ekki allt tekið aftur með sköttum og útsvörum. Hér vorum við áðan að samþ. verðlagsuppbætur á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins. Skyldi þeim vera nokkur akkur í að fá hana? Jú, það gæti maður haldið eftir áhug, hv. sjálfstæðismanna fyrir því máli. En það er í skrítnu samræmi við þá skoðun þeirra, að allt hverfi það í skatta. Ef við lítum á reynsluna, sést, að þetta er bara blaður hjá þeim.

Til þess að sjá, hvernig þetta er, hefi ég farið gegnum það, hve margir menn hafa borgað tekju- og eignarskatt núna síðast og fyrir 10 árum og athugað muninn. Það hefir breytzt þannig á þessu tímabili, að persónufrádráttur hefir verið hækkaður, svo að skattgreiðendum hefði að öðru jöfnu átt að fækka talsvert. Þó skal ég sleppa því úr reikningnum, aðeins minna á, að það mundi auka þann mismun, sem nú kemur í ljós við þessar tölur.

Ég tilgreini skattgreiðendur í 4 flokkum og þar aftan við tölu þeirra 1927 og við síðasta skattuppgjör, sem skýrslur ná til:

Tekjur Skattgreiðendur í

kr. 1927 nú

100— 4000 ...... ............................ 23672 ……28305

4000– 10000 . . . . . . . . . . . . . . . . .. 1052 1444

10000–20000 . . . . . . . . . . . . . . . . . . 104 119

yfir 20000 ................ 24 13

Alls 24822 29881

Þá eru eignabreytingar manna í 3 flokkum:

Eignir Skattgreiðendur

í kr. 1927 nú

5000- 30000 ................... 4098 7094

30000-100000 ................... 451 600

yfir 100000 ............... 108 124

Alls 4657 7818

Á þessum tíma fjölgaði þjóðinni um 14.8%, en fjölgun skattgreiðenda er miklu meiri, eða tekjuskattsgreiðendum hefir fjölgað um liðug 20% og eignarskattsgreiðendum um 67%. Í öllum flokkum hefir skattgreiðendum fjölgað að mun, nema þeim, sem hafa yfir 20 þús. kr. árstekjur, hefir fækkað úr 24 í 13. Það eina, sem þessir hv. þm. hafa þá til síns máls, er, að færri menn en áður muni keppast eftir að hafa yfir 20 þús. kr. í árstekjur. Er það svo óttaleg breyting, að hennar vegna eigi að fara að brjóta niður skattakerfið? Það held ég varla. Og í heild er tekjuhækkun skattgreiðenda mjög mikil. Þá er að lita á það, hvort þessar auknu tekjur hafi allar farið í eyðslu, því að enginn þori að eiga neitt, eins og prédikanirnar geta leitt til. En eignirnar hafa líka vaxið stórum, eins og skýrslan gefur í skyn. Skattskyldar tekjur hækkuðu um 35 millj. kr. þennan áratug, sem ekki var þó af öllum talinn glæsilegur. Er þó ýmislegt af því, sem metið var til eigna fyrir 10 árum, fellt niður nú. Ef við gætum nánar að því, í hvaða eignaflokki hafi fjölgað mest, eru það þeir, sem áttu 4–7 eða upp í 8 þús, þeir hafa allt að því tvöfaldazt. En eignamönnum. sem eiga yfir 100 þús., hefir líka fjölgað úr 108 í 124, eða um 15%. Þessar staðreyndir tala skýru máli um það, á hverju staðhæfingar hv. andmælenda minna eru reistar. Og slíki blaður er hættulegt, og menn, sem ala upp slíkan hugsunarhátt, að engum þýði að ætla að eignast neitt, eru þjóðhættulegir menn og ættu ekki að fá að tala um þá hluti og koma þeim hugsunarhætti inn hjá uppvaxandi kynslóð.

Ég vona nú, að þegar menn líta á staðreyndirnar og sjá, að þær eru algerlega á móti þeim, hætti þeir áróðri sínum, sem aðeins getur orðið þeim til minnkunar, og hlutist til um, að aðrir sem farnir eru að prédika þetta eftir þeim, leggi það líka niður, því að það á ekki að gerast.