27.03.1940
Efri deild: 22. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í C-deild Alþingistíðinda. (2387)

82. mál, skipulagssjóður

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Ég held, að hinar almennu hugleiðingar hv. þm. Vestm. um skatta á fasteignir eigi ekki við hvað snertir þetta frv. sérstaklega, og ummæli hans um, að með þessu sé verið að þyngja á fasteignaeigendum, efna til nýrra álagna o. s. frv., séu byggð á allmiklum misskilningi.

Ég skal ekki blanda mér inn í almennar umr. um skattaákvæði, en aðeins halda mér við þetta frv., en þar er í raun og veru ekki farið fram á skattaálögur nema mjög litlar, ef verðhækkun hefir orðið vegna aðgerða þess opinbera. Í 4. gr. ræðir aðeins um þær fasteignir, sem bæir eða sjávarþorp hafa eignazt vegna skipulagsins, og að tekjur af þeim skuli renna í skipulagssjóð. Hér er um engan skatt að ræða á fasteignaeigendur. Í 5. gr. er fasteignaeigendum gert að skyldu að endurgreiða að verulegu leyti bæjarfélögunum þá verðhækkun, sem hefir orðið vegna skipulags, sem bærinn eða sjávarþorpið hefir framkvæmt. Það getur ekki heldur talizt, að með þessu sé verið að ofþyngja fasteignaeigendum, heldur þvert á móti, því að mönnum er gefinn kostur á að gera eign sína verðmætari með opinberum aðgerðum, þó að þeir fái ekki allt það verðmæti, sem við það skapast.

Ég held því, að hugleiðingar hv. þm. Vestm. út af frv. sjálfu gefi ekki tilefni til andstöðu gegn því. Annað mál er það, hvort á að samþ. önnur frv., sem leggja beinan skatt á menn í landinu, en þetta frv. er ekki þess eðlis.