27.03.1940
Efri deild: 22. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í C-deild Alþingistíðinda. (2388)

82. mál, skipulagssjóður

*Jóhann Jósefsson:

Herra forseti! Ræða hæstv. félmrh. hefir ekki haft þau áhrif á mig, að ég hafi sannfærzt um, að hér sé ekki neitt það á ferðinni, sem geti orðið skattur eða aukið gjald á fasteignaeigendur yfirleitt. Í 5. gr. er svo komizt að orði, að meta skuli fyrir hverja fasteign þá verðhækkun, sem orðið hefir innan kauptúnsins eða sjávarþorpsins, frá því að síðasta fasteignamat fór fram og telja má, að stafi af skipulagsbreytingu á staðnum. Af þessari verðhækkun er ætlazt til, að greitt sé allt að 80%, sem renni í skipulagssjóð. Það er að vísu talað um undanþágu í sömu gr. undan þessu gjaldi til hrepps- eða bæjarsjóðs, en ég hygg, að þær undanþágur nái ekki til þeirra fasteigna, sem ég talaði um, sem sé þær, sem notaðar eru til atvinnurekstrar, t. d. sjávarútvegs.

Ég veit, að aths. mín var á breiðari grundvelli heldur en þeim, sem lagður er með þessu frv., en ég kannast ekki við, að sú gagnrýni, sem ég færði fram gegn frv. sem meðali til að hækka skatt á fasteignum atvinnurekenda, hafi ekki við rök að styðjast. Frv. ber það með sér, að hér er beinlínis efnt til þess að auka gjöld af þessum fasteignum, og að því leyti eru athugasemdir mínar réttar.