27.03.1940
Efri deild: 22. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í C-deild Alþingistíðinda. (2396)

89. mál, sjómannalög

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég hefi skrifað undir flutning þessa máls með einskonar fyrirvara, þar sem ég geri ráð fyrir, að rétt sé að koma fram með víðtækari breytingar á þessari löggjöf en frv. fer fram á. Ég skal þó játa, að ég er ekki tilbúinn með þær brtt., enda er það allvandasamt í ýmsum atriðum að breyta þessari löggjöf á skömmum tíma. Ég vil ekki heldur segja, að ég sé mótfallinn þessu frv., en það er mín skoðun, að ef sjómannal. yrði breytt, þá ætti að taka þau í heild til nákvæmari athugunar, en ekki setja inn í þau einstakt atriði, sem tekur til sérstakrar starfsgreinar. Ég skal upplýsa það, þó að það hafi ekki áhrif á þetta mál, að á Norðurlöndum, þar sem sjómannal. eru að miklu leyti shlj. okkar löggjöf um þetta efni, eru loftskeytamenn ekki í l. sjálfum taldir til yfirmanna. Hinsvegar er staða þessara manna mikið trúnaðarstarf, og er ekki óeðlilegt, að þeir vilji njóta þeirra hlunninda, er l. veita yfirmönnum, þó að þeir geti ekki í raun og veru heitið yfirmenn. Loftskeytamaður er sjálfstæður starfsmaður undir stj. skipstjóra og hefir ekki yfir öðrum að segja. Það er hrein undantekning, ef maður er settur undir stj. loftskeytamanns. Þó tel ég loftskeytamenn þess maklega að komast í þennan flokk manna, en það myndi veita þeim nokkur hlunnindi, bæði í sjúkdómstilfellum og svo að því leyti, að þeir væru þá ráðnir með lengri uppsagnarfresti. Þetta vildi ég taka fram, þó að ég muni að sjálfsögðu greiða frv. atkv. mitt.