12.03.1940
Sameinað þing: 5. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í D-deild Alþingistíðinda. (2426)

15. mál, hitun og lýsing háskólans

*Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti! Ég ætla mér ekki að fara að lengja þessar umr., en finnst ég ekki komast hjá því að minnast á það nokkrum orðum, hvernig farið hefir verið með landsins fé, ekki aðeins með þessari háskólabyggingu og þjóðleikhúsinu, heldur með öllum þeim skólabyggingum, sem reistar hafa verið og öllum kemur saman um, að séu allt of stórar.

Þegar hv. þm. S. Þ. minnist á háskólann í Árósum, að sá bær hafi lagt til lóð undir háskólabyggingu og auk þess lagt háskólanum til stórfé, má benda honum á það, að háskólinn í Árósum er ekki byggður kannske 600 ár fram í fimann eins og háskólinn hér. Þessi háskóli hér er svo stór, að með normal-aukningu á nemendafjölda mundi hann vera nógu stór í 600 ár, en háskólinn í Árósum er byggður eftir College-systeminu, svo það er hægt að bæta við hann eftir þörfum. Og hvernig er svo hugsað fyrir nemendum í þetta hús? Í fyrra, þegar háskólinn var settur, sagði rektor háskólans. að hann mundi beita sér fyrir því, að settar yrðu takmarkanir fyrir aðsókn að skólanum, og það er á sama tíma sem verið er að byggja þessa stóru byggingu. Það er vitanlegt, að það vantar fé til þess að reka þessa stóru eign. Það þarf, eins og líka kemur fram í þessari till., fé til þess að hita húsið og lýsa. Að mínu áliti er þetta líkt eins og að koma til rausnarbóndans Davíðs á Arnbjargarlæk og sjá hús hans, sem byggt er upp á þrjár hæðir með marmaratröppum og stórum herbergjum. Hvernig ætti hann að hita þetta hús? Þótt hann eigi gott bú, ber það þetta ekki. Þetta kalla ég að yfirbyggja sig. Ég er ekki að segja þetta þessum manni til lasts. Ég tek hann aðeins sem dæmi um það, hvernig menn yfirbyggja sig. Það þarf ekki að fara víða um sveitir landsins til þess að finna hús, sem eru í ósamræmi við jarðirnar, sem þær standa á, eins og háskólinn er fyrir nemendafjöldann.

Þegar minnzt er á háskólann í Árósum, má minna á, að hann er byggður við hæfi þeirra, sem stunda nám í honum. Til þess að sýna, hve mikið er hugsað um það hér, vil ég benda á ummæli Níelsar Dungals, er hann sagði, að sá hluti háskólans, sem ætti að tilheyra læknadeildinni, ætti að byggjast við landsspítalann. Það var það, sem átti að gera. Hvað eigum við með þetta stóra hús að gera? Var ekki hægt að hafa það fallegt nema það væri svona stórt? Þessi háskólabygging er sorglegt dæmi um okkar fyrirhyggjuleysi, og það hefir sagt mér verkfræðingur, sem kunnugur er þessum málum, að þetta fyrirkomulag á byggingunni væri svo dýrt, að hægt hefði verið að byggja þennan háskóla og þau 10 íbúðarhús, sem áætluð hafa verið fyrir prófessora hans, fyrir sama verð og þessi eina bygging kostar.

Það var gert ráð fyrir, að háskólinn mundi kosta eina millj. króna. Nú eru eftir 4 ár af happdrættinu, og það er ekki hægt að halda áfram byggingunni, nema að fá það framlengt um þrjú ár. Þetta er af því að byggingin er of dýr, og þeir menn, sem fyrir þessu standa, sjá nú ekki nokkur ráð nema fá viðbót. Nú er það vitanlegt, að það er ríkissjóður, sem ber þetta, svo það er einkennilegt að þurfa að fá framlengd happdrættislögin, þótt haldið sé áfram byggingu háskólans.

Ég held, að þetta hafi verið eftirlitslaust og kontrollaust, og að það verði álíka baggi fyrir ríkissjóð að reka þetta allt of stóra hús, eins og þjóðleikhúsið er álitið nú.