12.03.1940
Sameinað þing: 5. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í D-deild Alþingistíðinda. (2428)

15. mál, hitun og lýsing háskólans

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Mér finnst þetta ekki svo viðurhlutamikið mál, að það megi ekki ganga fram nokkurnveginn slindrulaust. Það er ekki farið fram á annað en að leita samninga við Reykjavíkurbæ um hitun og lýsingu háskólans.

Mér er ljóst, að það eru nokkur vandkvæði á því, að bærinn geti tekið þetta að sér eins og nú stendur. Hitaveitan er rétt að komast á, og henni eru bundnir þungir baggar, svo sennilega er varla um það að ræða, að hún geti borið kostnaðinn af hitun háskólans fyrstu árin, og kæmi þá til mála, hvort bærinn gæti gert þetta sjálfur. Um lýsinguna er svipað að segja. Sogsvirkjunin á við nokkra erfiðleika að etja og er á byrjunarstigi.

Ég get staðfest það, sem hv. flm. sagði um, að þetta hefir borið á góma í bæjarstj. Reykjavíkur og yfirleitt tekið þannig, að ekki er ástæða til fyrir þingið að vísa því frá fyrir þeirra hluta sakir. Mér finnst, að vel mætti samþ. að fela ríkisstj. að vekja máls á þessu við bæinn. Það felst engin ábyrgð í því fyrir þingið og það er ekki farið fram á að beita neinum þvingunarráðstöfunum; ekkert annað en að málið verði rætt. Ég sé ekki annað en að það sé viðurhlutalítið að samþ. till. og fela ríkisstj. að athuga málið.