29.03.1940
Efri deild: 24. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í B-deild Alþingistíðinda. (243)

85. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég og hv. 2. þm. S.-M. eigum brtt. á þskj. 210. Efni hennar er gamall kunningi í hv. d., og þarf ekki að fara nákvæmlega út í það. Ég vil þó leyfa mér að minna á, að undir þeim umr., sem fóru fram um frv. til l. um brúasjóð, upplýstist það, að eftir er að brúa margar stórár, og einnig það, að ríkissjóður hefir ekki séð sér fært á undanförnum árum að veita það mikið fé til brúagerða í einu, sem þarf til að gera eina slíka brú á ári. Hinsvegar kom það í ljós undir umr., að meiri hl. þessarar hv. d. kunni ekki við að leggja ákveðinn skatt á í ákveðnu augnamiði og mynda af honum brúasjóð, en ekki er neitt talið því til fyrirstöðu, að skattur, sem fyrir væri, væri hækkaður eða fé væri veitt til þessa í fjárl. Í tilefni af þessu fluttum við við 2. umr. fjárl. till. um framlag til þeirrar brúar, sem mest þörf er í. Það er áætlað, að hún kosti um 100 þús. kr. Það er hægt að byggja hana í tvennu lagi. 50 þús. kr. munu nægja til þess, að umferð geti átt sér stað, en síðar er hægt að byggja fyrir hinn helminginn. Þetta sparar í „valútu“, benzíni og gúmmi 13 þús. kr. á ári með því verði, sem nú er á þeim vörum, og með þeirri bílaumferð, sem þarna á sér stað, ef tekið er meðaltal síðustu 3 ára.

Það sjá allir, að brýn þörf er á þessari brú. Hér er farið fram á að hækka benzínskattinn, sem gert er ráð fyrir í 3. gr. þessa frv. að hækki um 4 aura, að hækka hann um í eyri, upp í 5 aura, og að samhliða því, sem ákveðið er í frv., að þessi viðbót, sem inn kemur fyrir þennan hækkaða skatt, renni til vegagerða og malbikunar á vegum, þá renni 1/5 af hækkuninni til þess að brúa stórár, og fyrsta brúin, sem á að byggja, sé sú brú, sem myndi gefa allt aðflutt efni og allan kostnað til baka á 4 árum.

Með þessu hygg ég, að málið sé komið í þann farveg, að þeir, sem ekki gátu verið með því sem sérstöku brúasjóðsfrv., geti nú verið með því, og einnig þeir, sem ekki gátu verið með því að taka það upp í fjárl. sérstaklega, vegna þess, að þeir töldu fjárhag ríkissjóðs ekki það góðan, að hann mætti við þessum útgjöldum, geti nú fylgt því, þar sem tekjur hér eru áætlaðar móti gjöldunum. Ég hygg, að hvorug af þessum ástæðum sé nú til staðar, og þess vegna geti öll hv. d. orðið sammála um að samþ. þessa till.