12.03.1940
Sameinað þing: 5. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í D-deild Alþingistíðinda. (2431)

15. mál, hitun og lýsing háskólans

*Flm. (Jónas Jónsson):

Það undrar mig, að síðasti ræðumaður skyldi vera að ómaka sig til þess að gera till. um að fá með einhverju móti ljós og hita í þessa byggingu. Ég skil það svo, að þetta sé af því, að hann telur sig ekki stuðningsmann ríkisstj. og geri þar af leiðandi ráð fyrir því, að það þurfi að taka það fram við stjórnina, að hún geri slík verk. Ég vil nú álíta, að stjórnin jafnvel þótt ekki væru í henni 5 menn muni hafa leitazt við að fá ljós og hita í þetta hús, eins og hann gerði, þegar hann byggði sitt hús.

Hinsvegar finnst mér þessi till. svo skemmtilegur smiðisgripur, að ég vil biðja um nafnakall um hana. Mér finnst þurfa að standa í bókum þingsins, hve margir vildu samþ. slíka till. Út af því, sem annar þm. sagði, að háskólinn væri stór, þá er það mál, sem mér kemur ekki við. Það er búið að byggja háskólann, og hann verður ekki starfræktur nema hann hafi ljós og hita. Hvort sem hann er vel eða illa byggður, verður hann að hafa ljós og hita. Það, sem hér liggur fyrir, er því það, hvort við ætlum að reyna að létta af ríkinu þessum kostnaði. Þetta hefði ekki komið til mála,, ef um aðra byggingu hefði verið að ræða, en háskólinn er alþjóðareign, og það hefir mikla þýðingu fyrir bæinn að hafa svona stofnun og að hafa hana sem fullkomnasta. Þegar hæstv. fjmrh., sem er bæjarráðsmaður fyrir Reykjavík og bæjarfulltrúi, hefir sem skynsamur maður bent á það, að ekki er hundrað í hættunni, þótt till.samþ., og stutt mína sögusögn um, að þessu var tekið með nokkrum velvilja í bæjarstj. Reykjavíkur, af því þeir fundu til þess, að þetta var bænum til hags, held ég ekki, að hv. þm. þurfi lengur að hræðast þetta skref.

Ég hygg ekki ástæðu til þess að tala meira um þetta, en vil minna á það, að það, sem hér liggur fyrir, er það, hvort þm. vilja reyna að koma á sparnaði, sem kemur bænum við og landinu líka.