01.04.1940
Sameinað þing: 10. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í D-deild Alþingistíðinda. (2439)

95. mál, lýðræðið og öryggi ríkisins

*Flm. (Jónas Jónsson):

Á þeim tímum, er við lifum nú, er tvennt, sem sérstaklega kemur við okkar frelsi. Hið fyrra er það, að nú er komið að þeim tíma, er þjóðin á, ef gæfa er með, að taka í sínar hendur þau mál, er aðrar þjóðir hafa farið með um margar aldir. Við erum nú, eftir langa baráttu, komnir að því, sem þjóðin hefir sett sér sem ýtrasta takmark í frelsismálunum.

Annað er það, að á síðustu tímum hafa komið upp í heiminum ýmsar stefnur, sem ekki bærðu á sér fyrir heimsstyrjöldina. Þessar stefnur hafa sett svip sinn á heimspólitíkina og pólitíkina hér á landi. Það skipulag, sem við höfum fengið frá elztu þingræðisþjóðinni, Bretum, er nú í verulegri hættu af þessum stefnum. Þetta hefir komið fram síðustu 20–25 árið, og þær einkennilegu ástæður hafa skapazt, að við erum nú nær því að ná fullu frelsi en forfeður okkar hefðu getað búizt við, en hinsvegar er þetta frelsi í hættu af nýjungum sem geta skaðað okkar eðlilegu þróun, ef ekki er í tíma á stöðvuð að ósi.

Ég játa, að í þessu er nýjung fólgin, en minni þó á, að ekkert er nýtt undir sólinni. Í okkar sögu eru glögg dæmi frá fyrri öldum um svipaðar meinsemdir. Ég tek þrjú dæmi frá hinum forna þjóðveldistíma, því að þar er í rauninni um að ræða þrjár tegundir þeirra meinsemda, sem við eigum nú við að stríða, þó að í nokkuð öðrum formum sé.

Þegar landið var að byggjast, sendi Danakonungur Una hinn danska til landsins sem einskonar flugumann, til þess að véla landið, undir konung. En landsmenn, sem höfðu farið hingað í öðrum tilgangi en þeim að verða þjónar konungs, komu þannig fram við hann, að honum reyndist erfitt að haldast hér við og reka starfsemi sína. Þannig lauk fyrstu tilrauninni til að svíkja frelsið af Íslendingum í hendur stærri þjóðar.

Svo þegar kemur fram á Sturlungaöldina, eru tveir frægir menn, sem þekktir eru úr okkar sögu, þeir Þorvaldur Vatnsfirðingur og Guðmundur góði. Þorvaldur Vatnsfirðingur var einn hinn mesti ofbeldismaður aldarinnar. Hann og aðrir slíkir settu ofbeldið ofar lögum og rétti, og þeir áttu mestan þáttinn í því að gera lýðveldið ófært um að starfa á þann hátt, sem þurfti til þess, að þjóðin gæti verið frjáls. Í fornöld var þannig til bæði undirróður framandi þjóðar og svo dæmi Þorvaldar Vatnsfirðings og annara, sem beittu ofbeldi og eyðilögðu þjóðskipulagið. Þjóðin var þá sumpart ekki nógu sterk til að standást ofbeldið, og á hinn bóginn var ofbeldið sjálft orðið of sterkt í landinu.

Þá er þriðja atriðið, sem er að vissu leyti mest táknrænt fyrir hættu þá, sem lýðræðinu stafar af alþjóðlegum kenningum. Guðmundur góði virðist hafa verið mikill hugsjónamaður. eins og viðurnefni hans bendir til, einlægur í sinni kaþólsku trú. En hann beygði sig fyrir páfanum í Róm, sem var hans æðsti yfirmaður, og erkibiskupinum í Niðarósi, sem var hans næsti yfirmaður. Það, sem þessir menn skipuðu, reyndi hann að framkvæma. Sök Guðmundar var sú, að hann setti það lægra að vera Íslendingur en hlýða þeirri alþjóðlegu stefnu, er hann fylgdi. Guðmundur góði var til með að líða mikið fyrir sína trú; það er margt fallegt í fórnarsögu Guðmundar, en því verður ekki neitað, að þessi trú, sem virðist hafa verið honum fullt hjartans mál, hafði þær afleiðingar að veikja hið íslenzka þjóðskipulag, er hann og fleiri fóru að reka erindi erlendra hagsmuna á Íslandi. Ég veit, að hver, sem hér er viðstaddur, þekkir þessi dæmi og mörg önnur hliðstæð. En við þetta áttum við að búa strax í fornöld, erlendan áróður framandi hagsmuna, alþjóðlegan áróður trúarhreyfingar og svo það, að margir Íslendingar tóku að beita ofbeldi, þó að þeir væru ekki undir þessum alþjóðlegu áhrifum, svo að það má segja, að líkt fór fyrir Íslendingum á seinni hluta 13. aldar og fyrir stóru lýðræðisríki í Evrópu fyrir skömmu, eftir að þar höfðu um hríð barizt tveir alþjóðlegir öfgaflokkar, þannig að mjög menntuð þjóð lagði sig undir harðstjórn til að fá frið, eins og Íslendingar á 13. öld.

Nú vil ég leiða hugann að því, að það, sem kom fyrir í okkar sögu áður, steðjar að okkur nú. Sumar þessara alþjóðlegu stefna, og þær eru fleiri en ein, hafa uppi fullkomnari áróður en Hákon gamli, þó að slyngur væri, eða jafnvel kaþólska kirkjan. Vísindin eru tekin í þjónustu þessarar propaganda og ekki svifizt neins til að véla þjóðirnar undir þessar kenningar. Ég tek það til dæmis, er stj. Rússlands leggur í stríð við Finnland og fullyrðir, að stj. þar sé ekki lögleg, þjóðin vilji ekki hafa hana, hin rétta stj. sé í Rússlandi, hún vilji ekki tala við hina finnsku stj. vegna þess, að hún sé ólögleg, og ætli að setja í hennar stað mann, sem hefir verið lengi í útlegð þar austur frá. Það er enginn vafi á því, að Rússar hafa gert sér vonir um þetta í hjarta sínu; þeir hefðu ekki sagt það annars, því að þeir hafa gert sig ærið hlægilega á þessum mislukkuðu bollaleggingum. Sannleikurinn er sá, að finnska þjóðin stóð saman af svo miklum krafti, að henni tókst að bjarga mestum hluta af landi sínu og geta sér ódauðlega frægð fyrir hreysti sína í baráttunni gegn þessu stórveldi. Það, sem gerzt hefir í Finnlandi, er það, að finnska þjóðin hefir með gífurlegu aðhaldi, oft með hörku, því er ekki að neita, og með miklum dugnaði víggirt land sitt og undirbúið sig undir þetta mikla átak. Og ég vil halda því fram, að það sé erfitt fyrir lýðræðislöndin nú á tímum að standast, nema þau gæti þess, að þessi undirróður fái ekki að festa rætur, leyfi ekki undirróðursmönnum að skipuleggja ofbeldishópa, sem setja ofbeldið yfir réttinn, þannig að það takist að eyðileggja opinberar stofnanir landsins.

Þá er till. sú, sem við flytjum þrír þm., hver úr sínum stuðningsflokki núverandi ríkisstj. Það, sem vakir fyrir okkur og jafnframt fyrir þorra hv. þm. og þorra þjóðarinnar, er það, að Alþingi og ríkisstj. eigi að slá því föstu, að það sé meining umboðsmanna hins íslenzka lýðræðis að láta ekki lukkast þennan neðanjarðaráróður, þó að við líkjum okkur ekki við Finna um allan dugnað, enda erum við betur settir en þeir í þessu efni. En við verðum að gæta þess, að ekki verði hægt að sprengja okkur sundur með þeim vitisvélum, sem hinn aðkomni áróður hefir í fórum sínum. Nú munu margir segja, sem hallast að ofbeldiskenningum, að hið íslenzka þjóðfélag hafi ekki í þjónustu sinni aðra menn en þá, sem eru með þjóðfélaginu, og sé hart að farið, ef aðgæta eigi í hvert sinn, hvort ekki sé meðal vor einhver Uni danski, Þorvaldur Vatnsfirðingur eða Guðmundur góði. Þeir munu segja: Lofið okkur að hafa Una danska. — þó að vitað sé„ að hann er að vinna fyrir erlenda valdhafa. Um þetta má deila. Einhverjir, sem eru undir þessum skaðlegu áhrifum, munu segja, að með slíku eftirliti sé sýnd of mikil harka. En ég leiði athygli að því, hvernig þessir flokkar fara að í öðrum löndum. Mörg lönd eru nú, því miður, komin undir ofbeldisstjórnir, sem áður hafa átt sér fáa forsvarsmenn, — og hvernig hafa þær farið að við okkar samherja? Ég tek dæmi af einu ágætu menningarlandi. Þar voru þeir menn, sem hér eru kallaðir góðir Alþfl.-menn, teknir af skrifstofum sínum. bundnir á hestkerrur, ekið með þá um bæina og þeir barðir með svipum. Allir ofbeldisflokkar hafa þessi einkenni. Sumstaðar er andstæðingum þeirra ekki leyft að lifa, sumstaðar er þeim varpað í fangelsi og þeir látnir sæta herfilegri meðferð. Því er það, að hver sá maður, sem aðhyllist ofbeldiskenningar nútímans og segir, að það sé ranglátt, ef fulltrúar erlends valds megi ekki hafa fullan embættisrétt, hann gerir meiri kröfur til okkar en sjálfs sín. Ein af þessum ofbeldisstefnum hefir t. d. undarlegt lag á því inn á við að slátra miskunnarlaust og með herfilegum aðferðum helztu mönnum stefnunnar, ef þeir eru ekki þóknanlegir þeim mönnum, sem eru á toppinum í ,það sinn. Það er því ólíku saman að jafna, þessu og því, sem við lýðræðismenn segjum og gerum. Hér er aðeins stungið upp á að gefa leiðarvísi fyrir hæstv. ríkisstj., nefndir, bæjarstj. og opinberar stofnanir, að láta ekki menn eins og Una danska og Guðmund góða, sem þó góður væri, var um marga hluti óhæfur til að gegna valdamikilli stöðu, vera trúnaðarmenn þess opinbera. Það segir sig sjálft, að menn með slíkan skoðanahátt geta ekki gegnt ábyrgðarmiklum trúnaðarstörfum eða verið í neinum sérstökum dáleikum hjá ríkisstj. Í þessari till. er ekki talað um neinar fangabúðir né að gera menn útlæga, enn siður um að kvelja menn eða taka þá af lífi. Hið eina, sem farið er fram á að gera, ef till. verður samþ., sem ég vona, að verði, er aðeins það, að hið íslenzka lýðræðisþjóðfélag taki upp þann sið hægt og rólega, án þess að nota samskonar dómstóla og rannsóknarnefndir, sem þessir ofbeldismenn viðhafa í öðrum löndum, að reyna smátt og smátt að koma þeim skilningi inn hjá þjóðinni, að menn með slíkar öfgaskoðanir geti ekki haft umboð fyrir þjóðfélagið. Menn geta ekki farið með umboð fyrir þjóðfélagið nema því aðeins, að þeir séu með þjóðfélaginu. En hvaða lífsmöguleika hafa þessir menn? mun einhver e. t. v. spyrja. Því er þar til að svara, að þeir hafa alla okkar framleiðslumöguleika. Það eru til hjá okkur vissar atvinnugreinar, sem þeir menn, er hafa komið þannig fram, að þeir verðskulda ekki að hafa trúnað þjóðfélagsins, geta stundað og haft jafnvel meiri tekjur heldur en allir 5 ráðh. til samans. Enda þótt þessi till. verði samþ., geta slíkir menn samt bjargað sér, ef þeir geta grætt á einhverjum atvinnurekstri, því að ekki er hægt að banna þeim það að svo komnu. En ef slíkir menn brjóta meira af sér og gerast brotlegir við greinar hegningarl., má að sjálfsögðu refsa þeim.

Ég held, að ég taki aðeins eitt dæmi áður en ég lýk máli mínu,, til þess að sýna, hve undarlega miklu valdi þessi alþjóðlegi áróður af ýmsum lit getur náð yfir mönnum. Það er ung kona hér í þessum bæ, sem ég þekki, því að ég hefi verið kennari hennar. Þetta er mjög vel greind og góð kona, en hún er ekki alveg heilbrigð andlega, því að hún er áhangandi einnar þessarar ofbeldisstefnu. Hún sagði við einn þeirra, er vinna við Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis: ,.Blessað barn ert þú, að þú skulir halda, að Rússar hafi ráðizt á Finnland, því að Finnar réðust á Rússa. Rússar viðurkenndu það, að fyrir nokkrum mánuðum hefðu heyrzt skotdrunur á landamærunum, og þá voru landamæraskærur byrjaðar, og Finnar voru byrjaðir að skjóta.“ Þetta er gott dæmi þess, að greindur og vel menntaður maður getur fyrir áhrif þessa undarlega trúboðs orðið alveg fjarri því að vita hin allra einföldustu sannindi, svo sem þau, að finnska þjóðin hafi ekki gert annað en að verja sig, og að hún bauð alla hugsanlega friðarkosti, en rússneska stórveldið hafnaði þeim öllum, og finnska þjóðin var hrjáð og hrakin úr nokkrum hluta landsins af þessu stórveldi, er lét her sinn sækja fram með öllum sínum vígvélum.

Nú vil ég spyrja hv. þm.: Er ekki fullkomin ástæða til að taka tillit til þess, að þetta fólk. sem hinn útlendi áróður hefir ginni, svo að það hefir hliðstætt viðhorf við Guðmund góða, sé þannig á vegi statt að því megi treysta til að vinna íslenzku þjóðfélagi gagn í trúnaðarstöðum? Einn frumlegur íslenzkur sagnfræðingur, sem að mörgu gefur gaum, hefir komið með þá kenningu, að þegar ófarnaðurinn var kominn inn í hið íslenzka þjóðfélag og útlendur áróður var að byrja að festa hér rætur, hafi Íslendingar verið svo vel á verði gagnvart þessari afstöðu, að þeir byrjuðu á því að gera Þorlák biskup Þórhallsson að dýrlingi og litlu síðar gerðu þeir Jón Ögmundsson einnig að dýrlingi. Það var þvert á móti boði rómversk-kaþólsku kirkjunnar að búa til dýrlinga, nema því aðeins, að þeir hefðu hina réttu línu, og það mál varð að bera undir Moskva þeirra tíma, páfann í Róm. Íslendingar gerðu þetta beinlínis til þess að verja sig fyrir hinu trúarlega og jafnframt pólitíska trúboði þeirra tíma, og líka til þess að tryggja sig gegn því, að dýrlingatrúin yrði greidd óhæfilega dýru verði. Íslenzka þjóðin var of fátæk til skattgreiðslu til hinna alþjóðlegu dýrlinga. Það er dálítið ánægjulegt fyrir okkur núlifandi Íslendinga, sem eftir langar hörmungar erum að byggja upp okkar frelsi, að minnast þess, hvernig forfeður okkar reyndu af öllum mætti að berjast gegn hinu alþjóðlega og hættulega valdi kirkjunnar, en þar var hættan fólgin á þeim tímum.

Ég býst ekki við, m.a. af því, að ég er ofurlitið kvefaður, að ég muni taka aftur til máls um þetta mál, nema mér gefist beinlinis tilefni til þess. Ég álít, að þetta mál liggi ákaflega ljóst fyrir. Ég býst ekki við, enda hefi ég ekki hugsað mér að sannfæra neinn, að ég hafi sannfært menn um réttmæti þess. Ég ætlaði aðeins að reifa málið frá hlið okkar flm. þess. Ég geri ekki ráð fyrir framhaldi þessarar umr. Ég get ímyndað mér, að það verði stungið upp á því af einhverjum hv. þm. að setja málið í n.: um það get ég vitanlega ekkert sagt. En ég tel það alveg óþarft, málið er alveg ljóst. Ég tel, að það beri vott um, að þm. skilji ekki fullkomlega þessa tíma, ef þeir telja hægt að komast hjá því að taka hiklausa afstöðu, eða þeir greiða atkv. gegn því. Ég vil skjóta því til hæstv. forseta, að hann reyni að hraða afgreiðslu þessa máls, svo að málið verði rætt og afgr. á undan fjárl.