29.03.1940
Efri deild: 24. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

85. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Magnús Jónsson:

Ég hefi skrifað undir nál. með fyrirvara og ég hefi gert það á undanförnum árum, þegar þetta frv. hefir verið í n., sem ég hefi átt sæti í. Það er í vissu falli dálítið einkennileg aðstaða, sem ég ætla ekki að fara út í frekar. Það er sérstaklega nú, að ekki er ástæða til að setja sig á móti frv., því auk þeirrar almennu ástæðu, að ríkissjóður getur ekki komizt af án þess að fá þessar tekjur eða þá einhverjar aðrar tekjur í staðinn, þá er nú líka sú aukaástæða, að mþn. í skatta- og tollamálum er starfandi, sem tekur a.m.k. verulegan part af efni þessa frv. til meðferðar, og þá sérstaklega 2. gr. frv. Ég tel tekjuskattstiga þann, sem þar er ákveðinn, óhæfilegan, og það er hann, sem gerir það að verkum, að ég mun aldrei fyrirvaralaust geta samþ. þau l., sem innihalda þann tekjuskattstiga.

Ég skal ekki fara að þreyta hv. d. með löngum umr. um þetta mál. Það getur líka verið, að þingið fái þetta til meðferðar áður en langt um líður. Ég býst við, að öllum hv. dm. sé það ljóst, að þegar þessi tekjuskattstigi er skoðaður við hliðina á hinni geipilegu tekjuþörf bæjar- og sveitarfélaga, sem þau verða að innheimta með beinum sköttum, þá sé hann orðinn svo hár, að hann nái ekki nokkurri átt. Ég get ekki í svipinn sagt um, hvað oft er búið að hækka hann, en þegar hann var upphaflega settur 1921, þá var þetta sama sem ekkert, en það þótti þó mikill nýr skattur þá. Síðan var eftir 10 ára skeið samþ. að innheimta hann með 25% álagi, en svo leið ekki nema í ár þangað til heimilað var að innheimta hann með 40% álagi. Það þótti þó ekki nóg, því rétt á eftir var búinn til nýr skattstigi, sem var hærri en sá gamli með þeim álögum, sem bætt hafði verið við. Síðan var heimilað að innheimta hann með 10% álagi.

Ég hefði gaman af að nefna 2–3 dæmi um þá þróun, ef svo mætti að orði komast, sem orðið hefir í þessum málum. T.d. af 4–5 þús. kr. átti samkv. skattstiganum frá 1921 að greiða 72 kr. af 1000 kr. og 4% af því, sem eftir var. Þegar svo bætist við þetta 25% skv. heimild frá 1932, verða þetta kr. 90.00. Með heimildinni frá 1933 um 40% viðauka, verða þetta kr. 100.80. Skv. skattstiganum frá 1933 greiðast af þessum sömu tekjum kr. 140.00, og þegar við bætist 10% viðauki skv. heimild frá sama ári, eru þetta kr. 154.00. Eftir lögunum um bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs, 1935, verða þetta kr. 155.00, og loks með þessum 12% viðauka, sem hér er gert ráð fyrir, verða þetta kr. 173.00. Taki maður svo 7–8 þús. kr. laun, er greitt í skatt af þeim árið 1921 kr. 222.00, en er nú komið upp í 677.00 kr., og af 10–11 þús. kr. launum var árið 1921 greitt kr. 462.00, en verður eftir að þessi lög hafa verið samþ. kr. 1713.00, og sjá menn þess vegna, hve ákaflega mikil þessi hækkun er, þannig að ég hefi það fyrir satt, vegna þess að það hefir verið sagt í útvarpið af þeim fjármálamanni íslenzkum, sem er einna mestur unnandi hinna beinu skatta, að hvergi þekkist á byggðu bóli nokkuð líkt þessu. Hann sagði að vísu, að það væri hvergi eins gott, en eitt er víst, að það er hvergi neitt líkt. Ég skal ekki segja um það, hvað sú milliþn. sem hefir þetta mál til meðferðar og sömuleiðis fjáröflun bæjar- og sveitarfélaga, leggur til, en ég taldi enga ástæðu til þess að vera að hrófla við þessu máli, þar sem það er í rannsókn og fylgdi meðnm. mínum því í því að samþ. frv., en skrifaði þó undir með fyrirvara.

Um brtt. hv. l. þm. N.--M. og 2. þm. S.-M get ég ekki tekið undir með hv. frsm. um, að deildin öll muni verða þessu samþykk, því ég fæ ekki, þrátt fyrir ræðu hans, séð nokkurn mun á þessari till. og því frv. um brúasjóð, sem nýlega var fellt hér. Ég tel það mikla lipurð og mildi af hæstv. forseta, sem af honum má vænta, að hann lætur till. sem þessa koma til atkv., og ég held, að það hljóti að fara um þessa till.

Eins og frv. Ég vil gefa flutningsmönnum mikið hrós fyrir dugnað þeirra í því að reyna að hafa þetta fram til síðustu stundar, en get ekki fylgt þessu frekar en frv., og er þá aðalástæðan sú, að ég er yfirleitt á móti þessum endalausu og stöðugu hækkunum, og held mig ekki muna það skakkt, að einn af helztu fjármálamönnum framsfl. hafi sagt, að við mundum einhverntíma þurfa að klifra niður tindinn. Ég held, að það sé ófært að halda alltaf hærra og hærra. Það má segja, að ekki muni mikið um einn eyri, þegar um 60–70 þús. kr. er að ræða, en dropinn holar steininn, og það hefir oft verið deilt á Alþingi fyrir minna. Auk þess sem það er mín skoðun, að allt eigi að fara í sama sjóðinn, og svo beri fjárveitingavaldinu að veita úr honum með lögum, en að það eigi að hætta við þessar deildir af ríkissjóðnum, þar sem verið er að búa til dálitla ríkissjóði í ákveðnu skyni. Ég skal ekki ræða þetta frekar. af því að við ræddum það svo mikið, þegar frv. um brúasjóð var til umr. hér í deildinni, en það er áreiðanlega heppilegra, að allt sé lagt í ríkissjóðinn og veitt úr þeim eina ríkissjóði til þess, sem Alþ. telur þarft í það og það skiptið. Ég taldi ekki ástæðu til þess að taka þetta fram í n., en vil taka það fram hér, til þess að gera grein fyrir mínum fyrirvara.