05.04.1940
Sameinað þing: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í D-deild Alþingistíðinda. (2460)

95. mál, lýðræðið og öryggi ríkisins

*Einar Olgeirsson:

Hv. þm. muna sjálfsagt eftir meðferð þeirri, sem frv. hæstv. félmrh. fékk hér nýlega, er hv. allshn. klippti úr frv. einræðisþáttinn, og hann labbaði að því loknu hér út úr salnum, og heldur lúpulegur. Það er lík meðferð, sem þessi till. hv. þm. S. Þ. hefir fengið nú, er hv. allshn. hefir máð úr henni mestu firrurnar, enda þorir hv. flm. ekki að sýna sig á þinginu, er þetta fer fram. Það hefir sjaldan verið reitt hærra til höggs en þá, er hann kom með þessa till. Hann rakti m. a. sögu Íslands um þúsund ár og virðist með framsöguræðu sinni hafa ætlað að vinna sér til forsetnignar á Íslandi; en er málið kemur frá hv. n., þorir hann ekki að sýna sig hér í salnum. Raunar er ekki nema sjálfsagt að fagna því, er slíkir menn fá þvílíka útreið. Og málið er nú komið á nýjan grundvöll, þannig að ekki er lengur hægt að gera gys að því eða draga það sundur í háði. Það er ljóst, hvað fyrir þeim mönnum vakir, sem flytja málið á þessum nýja grundvelli; málið er nú nokkurn veginn mótsagnalaust, svo að hægt er að ræða það. Aðaltilgangur upphaflegu till. var að veita valdhöfunum rétt til að útiloka ákveðna menn frá trúnaðarstöðum í þjóðfélaginu vegna pólitískra skoðana þeirra. Þetta hefir hv. allshn. fellt. Raunar er hér ekki um nýja stefnu í þjóðfélaginu að ræða, þessar ofsóknir hafa áður verið beinlínis skipulagðar, og hefir Jónas Jónsson stofnað sérstaka n. í því skyni. Nú mætti virðast sem hv. allshn. hefði með till. sinni snúizt á móti þessum atvinnuofsóknum. Þó kemur þetta ekki fram í till. hv. n. Úr þessu þarf að bæta og gera ráðstafanir til tryggingar því, að atvinnuofsóknunum sé hætt. Þegar ég ber fram þessa kröfu við hæstv. ríkisstj., tala ég fyrir munn Alþ. og samkv. samþykkt, er Alþ. hefir gert. Sú samþykkt leggur ríkisstj. á herðar að binda enda á slíkar ofsóknir út frá þeirri forsendu, að þær fell í sér mikla hættu fyrir þjóðfélagið. Ég á hér við samþykkt þá, sem hv. Nd. gerði árið 1937 og fólst í rökst. dagskrá, er samþ. var í sambandi við ákveðið mál. Vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér nokkrar linur úr þingtíðindunum, D-deild frá síðara þingi 1937. Þáltill. sú, sem um ræðir, er prentuð á 101. dálki og hljóðar svo:

„Þar sem deildin telur þörf á að koma í veg fyrir hverskonar atvinnukúgun í þjóðfélaginu og misrétti um veitingar embætta og starfa við öll atvinnufyrirtæki, er nauðsyn á nánari rannsókn um þessi efni og yfirgripsmeiri, — og í trausti þess, að ríkisstjórnin láti gera þá athugun hið fyrsta, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þetta var samþ. með miklum atkv. — mun, og allir þeir þm., sem töluðu í málinu, lýstu yfir samþykki sínu. Sveinbjörn Högnason mælti þá ( Alþt., D. 1931, d. 100):

„Fyrsta skilyrðið fyrir hvern þann, sem gerast vill umbótamaður á þessu sviði, er, að hann sé jafnfús til að viðurkenna ranglætið, hvar sem það á sér stað, og sé jafnfús til að reiða refsivöndinn gegn sínum samherjum eins og andstæðingunun, ef þeir eiga það skilið. Annars kemur góður vilji ekki að gagni. Ég er reiðubúinn að taka höndum saman við hvern þann mann, sem í fullri alvöru vill útrýma hlutdrægni kunningsskapar og pólitískra flokka í sambandi við atvinnuúthlutun, ef það mál er flutt á breiðum grundvelli og ekki sem bitbein fyrir einstaka stjórnmálaflokka.“

Til þess að geta hugmynd um, hvernig á þetta mál var litið af Sjálfstfl., les ég það, sem Sigurður Kristjánsson, 6. þm. Reykv., sagði þá, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er ekki meira um annað skrafað nú á dögum en lýðræðið. En ég efast stórlega um, að þeir flokkar, sem sífellt reyna að skreyta sig með lýðræðisnafni og deila um það, hver sé mestur lýðræðisflokkur, geri sér ljóst, hvað lýðræði er í raun og veru. Lýðræði er það eitt, að allir menn í þjóðfélaginu njóti sama réttar.“ Og síðar segir hann:

„Í höndum þeirra manna, sem nú fara með völdin í landinu, er Ísland ekki lýðréttarríki.“ Þetta var nú álit Alþingis 1937. Ísland var ekki að áliti Sjálfstfl. lýðréttarríki þá, vegna þess, að þar viðgekkst atvinnukúgun. Alþ. fann ástæðu til að lýsa yfir þessu og krefjast þess, að úr yrði bætt. Nú spyr ég hæstv. ríkisstj.: Hvað er nú orðið okkar starf á þessum þrem árum? Eftir ein þrjú ár kemur jafnvel fram á Alþ, till.- um að lögfesta atvinnukúgunina. Og hv. þm. hafa snúizt svo í málinu, að þeir fást ekki til að gera ráðstafanir, sem duga, gegn þessum óskunda. Það er daglega verið að svipta menn störfum hér á landi af pólitískum ástæðum. Það hafa nú nýlega verið reknir menn úr skólum landsins, t. d. kennaraskólanum, mönnum bannað að taka próf og nota sér prentfrelsið samkv. stjskr., fyrir það eitt að hafa stjórnmálaskoðanir, sem valdhöfunum eru ekki að skapi. Þeir, sem með völdin fara, hafa nú náð þeim tökum, að þeir bægja mönnum frá atvinnu og nota sér óspart, hvernig hið íslenzka borgaraþjóðfélag setur mönnum skilyrði. Bæði við atvinnufyrirtæki einstakra manna og þess opinbera fara stöðuveitingar eftir stjórnmálaskoðunum, og menn eru oft sviptir atvinnu, ef þeir gerast svo djarfir að brjóta í bága við vilja ríkisstj., — ríkisstj., sem hefir verið falið fyrir 3 árum síðan að leiðrétta það misrétti, sem hún mun hafa vitað um.

Ég skal því taka það greinilega fram gagnvart hæstv. ríkisstj., að þar sem vitað er, að þessi stj. hefir hjálpað til þess að brjóta móti vilja Alþ., er það ekki nema hlægilegt af slíkri ríkisstj. að þykjast ætla að gera einhverjar ráðstafanir til þess að vernda lýðræðið. Einmitt frá slíkri stj. stafar lýðræðinu hætta.

Ég get ekki komizt hjá að minnast þess, að einn af frumkvöðlum þessarar till., hv. 2. þm. Eyf., sagði í ræðu sinni, að Alþ. ætti að vernda einstaklingsfrelsið og mannréttindi. Já, langt getur nú skörin færzt upp í bekkinn, þegar fulltrúar núv. stjórnarflokka dirfast að halda slíku fram. Ég vil mínna á það, að það er alls ekki nóg með það, að þessir menn vilji eyðileggja og þurrka út einstaklingsfrelsi og mannréttindi Íslendinga, heldur eru þeir að þurrka út og hreint og beint drepa manndóm úr hinni íslenzku þjóð.

Svo ætla ég rétt aðeins, til þess að drepa betur á, hve það er hlægilegt að ætla að fela núv. stj. að framkvæma það að hafa vakandi auga með og vernda lýðræðið í landinu, að mínna á 3 ára gamla ályktun Alþ. um að efla lýðræðið og spyrja, hvað stj. hafi gert í því máli.

Ég ætla að gefa mönnum hugmynd um, hvað styður bezt það, sem látið er í veðri vaka, að sé tilgangur þessarar till., og hvernig hið íslenzka lýðræði verður varið með lýðræðisaðferðum. Ég hefi bent hv. þm. í fyrri ræðu minni á, að það, sem fyrst og fremst þyrfti að gera til þess að koma á lýðræði hér á Íslandi og festa það í sessi, væri það, að hv. þm. væru formælendur hins rétta meiri hl. þjóðarinnar, og væru tryggir stuðningsmenn hans í ráðum sínum og framkvæmdu vilja þjóðarmeirihlutans. Ég vona, að allir þeir þm., sem skynbærir eru á þessa hluti, sjái, að ráðið til þess er að breyta kjördæmaskipuninni á Íslandi. En getum við treyst núv. ríkisstj. til þess, þar sem Framsfl., sem græðir á þessu misrétti, er sterkasti stuðningsflokkur hennar? Því er alls ekki treystandi að þessi stj. hafi forgöngu í því máli eða geri nokkrar ráðstafanir til þess að undirbúa nokkrar breyt. til bóta á kjördæmaskipuninni, og koma þannig á fullkomnara lýðræði hér á Íslandi. Það dettur engum einasta manni í hug, að meiningin með þessari till., ef samþ. verður, sé sú, að gera lýðræðið fullkomnara með stuðningi stjórnarflokkanna í ríkisstj. Þessi till. ber þess merki,, bæði að efni og formi, að hún er komin frá harðsvíruðustu fjandmönnum lýðræðisins. Þetta veit hver maður, og um leið og menn gera sér ljóst, hve fjarri lagi það er að halda það, að við séum nú nokkru nær því en 1937 að fá lýðræði, hljóta menn að sjá, að þessi till. er alls ekki í þeim tilgangi gerð. Þó að við þessa till. væri ekkert að athuga, er það, að ætla að fela núv. ríkisstj. að hafa eftirlit með framkvæmd hennar, alveg sama sem að fela andstæðingum lýðræðisins, er vilja drepa það, að halda lífinu í því. Ég held, að áður en Alþ. ætlar að fela núv. ríkisstj. slíkt, ætti Alþ. að endurtaka ályktun sína frá 1937 móti atvinnukúgun og gæta þess, að ríkisstj. fari meira eftir vilja Alþ. en hún hefir gert, og breyti þar með í meira samræmi við vilja meiri hl. þjóðarinnar. Slíkt væri hin bezta vörn fyrir lýðræðið, og að öllu leyti heppilegast fyrir íslenzka lýðræðið nú.