10.04.1940
Sameinað þing: 17. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í D-deild Alþingistíðinda. (2468)

114. mál, æðsta vald í málefnum ríkisins

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég vil f. h. okkar flokks mótmæla þeirri aðferð, sem farið hefir fram í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Okkar flokki hefir ekki gefizt tækifæri til að fylgjast með þeim umr., sem fram hafa farið, við höfum ekki heldur fengið að vita, hvaða till. það væru, sem fram hefðu komið. Okkur hefir þess vegna ekki gefizt tækifæri til þess að ræða þetta mál við miðstjórn flokksins, á sama hátt og aðrir þingflokkar. Ég vil þess vegna óska eftir því, ef það vegna málsins má ske, að gefinn yrði frestur til síðari hluta þessa dags, svo að okkur gefizt tækifæri til þess, eins og öðrum flokkum, að athuga þetta mál.

Ég vildi ennfremur, þar sem ekki liggja fyrir um það frá hæstv. forsrh., sem hafði framsögu þess máls, upplýsingar hér á þingfundinum, sem ég gæti trúað, að gefnar hefðu verið á þeim fundum, sem stjórnarflokkarnir hafa haldið með sér, um einstök atriði í sambandi við þetta mál, leyfa mér að koma með fyrirspurn um það, hvort nokkuð samband hafi náðst við Danmörku í dag, við konunginn eða sendiherra Íslands, þannig, að nokkuð liggi fyrir, sem hægt er að upplýsa þingheim um í sambandi við slíkt. Þá vildi ég um leið óska eftir lögfræðilegri skýringu frá ríkisstj. í sambandi við þessa till., sem mér skilst, að þýði það, að ef við samþ. hana og tækjum okkur það vald í hendur, sem af því leiðir, þá séum við í raun og veru að fara aðrar leiðir en þær, sem beinlínis eru fyrirskrifaðar í okkar stjórnarskrá og lögum. Þar fyrir segi ég ekki, að ekki hafi verið nauðsynlegt að fara slíkar leiðir. Þessu vildi ég sérstaklega óska eftir að fá svarað og ennfremur, hvort nokkuð liggur fyrir um það, að í sambandi við þetta liggi fyrir nokkrar kröfur eða afskipti af hálfu nokkurs erlends valds, og hvort okkur sé ekki óhætt að taka ákvarðanir um þau mál, sem ríkisstj. leggur hér fyrir þingið, sem fulltrúum algerlega fullvalda ríkis.

Í fyrsta lagi vil ég sem sagt biðja hæstv. forseta að gefa yfirlýsingu um það, hvort hann myndi verða við því að fresta þessum fundi til þess að gefa okkur samskonar tækifæri og allir aðrir hv. þm. hafa haft til þess að athuga þessi mjög svo veigamiklu mál, sem fyrir liggja.