10.04.1940
Sameinað þing: 17. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í D-deild Alþingistíðinda. (2474)

114. mál, æðsta vald í málefnum ríkisins

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég vil enn mótmæla þeirri afgreiðslu, sem höfð er á þessum stórmálum hér. Ég vil að vísu ekki mótmæla því, að það geti verið rétt, að þörf hafi verið á því, að afgreiða þau í nótt, en þar sem hæstv. ríkisstj. mun hafa verið það ljóst, er þingfundum var slitið í dag, þá bar henni skylda til að láta okkur, þm. í stjórnarandstöðu, vita það jafnframt öðrum hv. þm. Ég álít, að e. t. v. hafi framkoma hæstv. ríkisstj. ekki gefið okkur sama tækifæri og öðrum hv. þm. til þess að fylgjast með í því, sem hefir verið að gerast, og tel ég það ábyrgðarlausa framkomu af hennar hálfu gagnvart fulltrúum þjóðarinnar, sem kosnir eru á sama hátt og með sama rétti og þeir hv. þm., sem fylgja ríkisstj. En ég álít, að hér riði mikið á því, að íslenzka þjóðin og fulltrúar hennar á Albingi standi saman og komi einhuga fram um þau mál, sem hér liggja fyrir. Gengið út frá þeim upplýsingum, sem ríkisstj. hefir gefið, og því, sem skráð er í þessum þáltill., sem hér liggja fyrir, viljum við lýsa yfir því, að við teljum, að hér liggi fyrir „fors major“, sem við Íslendingar verðum að taka okkar afleiðingum af, og út frá því munum við greiða atkv. með þeim till. til þál., sem hér liggja fyrir, þótt ég vilji um leið ítreka, að ég tel ekki slíka afgreiðslu á öðru eins stórmáli og þessu, sem ríkisstj. hér stofnar til, vera forsvaranlega. Hinsvegar er okkur það ljóst, að um mál eins og það, er hér um ræðir er allt undir því komið, að þjóðin geti staðið saman sem ein heild.