29.03.1940
Efri deild: 24. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

85. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Magnús Jónsson:

Ég skal ekki fara út í miklar almennar umr. um fjárreiður, en það er satt, að kröfurnar eru alltaf háværar um auknar umbætur, og ég skil þá vel, sem fara fram á aukna skatta. Hinsvegar er ég ekki algerlega samþykkur þessu frv., því þrátt fyrir það, þótt kröfurnar væru réttmætar og yrði að auka útgjöldin, þá er ég á móti því að hækka tekjurnar á þennan hátt. Þegar minnzt er á sambandsþjóð okkar, Dani, má það vel í þessu máli, því þegar útgjöld ríkisins hækka og þeir þurfa að hækka skattana, leggja þeir ekki á beina skatta, — nei, þeir auka tekjurnar með því eina móti að taka það á vöruviðskiptunum. Og það er þar, sem ég álít að eigi að taka það. Það á að taka skattahækkanir gegnum viðskiptin. Það er gömul regla.

Ég skil aldrei þegar menn segja, að einn skattur sé tilfinnanlegri en annar, að aukaútsvarið sé tilfinnanlegra en tekjuskatturinn. Ég veit ekki, hvaða munur er á því, hvert maður greiðir það. Ef maður á að borga 800 kr. og 1000 kr., eru það 1800 kr., sem hann svarar út. og honum er alveg sama hvert það rennur. Útsvarið er að vísu orðið tilfinnanlegt víða, af því að tekjuskatturinn er orðinn svo hár.

Ég skal svo ekki fara meira út í almennar umr. og ekki heldur fara meira út í benzínskattinn, hvort hann sé hærri eða lægri en í Danmörku, en mér er sagt, að það sé nú 50 aura verð á benzíninu. (viðskmrh.: Það munar nú ekki mikið um einn eyri af 50). Það eru nú 50 einseyringar í 50 aurum, en máske tekst þessum ráðh., sem greip fram í, að koma þeim upp í meira. Annars skal ég segja það, að ég er meira með benzínskattinum en tekjuskattinum. Þetta er bara almenn andstaða frá minni hálfu.

Hv. 1. þm. N.-M. tókst nú ekki með sinni góðu ræðu að þroska mig nógu mikið. Það fór alveg út úr höndum hans, þegar hann ætlaði að hanka mig á atkvgr. minni um vitagjöldin. Það hefir ekki verið varið til vita neitt svipað því sem vitagjöldin hafa verið: Þetta var bara ábending til ríkisvaldsins um að verja álitlegri upphæð í þessu skyni. Það er ekki verið að stofna sérstakan ríkissjóð. vitagjaldið er dálítið sérstakt. Það er skattur, sem við yfirleitt tökum af erlendum skipum, og það hafa komið fram kvartanir og undrun yfir því, hvað vitagjaldið væri hátt, þar sem ekki væru byggðir fyrir það vitar, og þegar þessar sérstöku ástæður eru fyrir hendi, að hér er verið að greiða fyrir siglingum þessara sömu skipa hér við land, þá er full ástæða til þess að taka þessar kvartanir til greina.

Svo er það 1. gr. frv. Ég verð að segja, að ég hefi alltaf verið undrandi yfir því að setja heila grg. í 1. gr. Það er ekkert annað en kjánaskapur að segja, að tekjuöflunin sé til þess arna, til þess að standast útgjöld ríkisins 1941, og greiða tillag til jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga! Mikið var! Nei, það þurfti að fóðra þetta um leið. — Mér finnst frv. mjög ólíkt því, sem ég hefði viljað hafa þessi lög. Ég mun svo ekki lengja umr. frekar um þetta mál.