20.03.1940
Sameinað þing: 8. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í D-deild Alþingistíðinda. (2484)

54. mál, sjórannsóknir og fiskirannsóknir

*Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti! Mér skildist, að það stæði eins á með þetta mál sem önnur, að þm. óski heldur eftir því, að það gangi fljótt að afgr. það, og þess vegna ætla ég ekki að hafa mjög langa framsögu, enda er þetta gamalkunnugt mál hér á Alþ., því að ég hefi flutt áður till. um sama efni og fengið þær samþ., og það er þegar orðin töluverð reynsla um framkvæmd þessara mála. Eins og þm. er kunnugt, var byrjað á því árið 1936, eftir að Alþ. hafði samþ. þál., sem ég bar fram um hafrannsóknir og rannsóknir á fiskimiðum og fiskigöngum hér við land, og var fyrst leigður togari til þessara rannsókna um stuttan tíma og síðar var varðskipið Þór útbúið í þessu skyni. Samskonar till. hafa verið samþ. þrisvar hér á Alþ., og þessum rannsóknum hefir verið haldið áfram siðan 1936, mest með varðskipinu Þór, Skipið var útbúið með rannsóknartækjum. sem ég ætla, að hafi kostað 6 þús. kr., og innréttað rúm í skipinu til þess að hægt væri að framkvæma þessar rannsóknir á skipsfjöl. En nú hafa þessar rannsóknir fallið niður, sökum þess að skipið var leigt, og sjálfsagt hefir það verið mjög skynsamleg ráðstöfun fjárhagslega. En ýmsar ástæður eru þess valdandi, að það er mjög óheppilegt, að þessar rannsóknir falli niður í ár.

Ég vil færa fram sem rök fyrir því, að í fyrsta lagi hafa þessar rannsóknir sýnt mjög mikinn árangur, þótt á byrjunarstigi séu. Í því sambandi vil ég nefna það, að einmitt þessar rannsóknir, mælingar á sjávarhita á ýmsum stöðum og ýmsu dýpi, og rannsóknir á því, hvaða fiskar hafast við í sjónum við eitt eða annað hitastig, hafa afarmikilsverða þýðingu til leiðbeiningar um það, hvar menn eigi að leita nytjafiska. Þessar mælingar hafa sýnt mjög nákvæmlega, við hvaða hitastig hrygningarfiskur eða fullvaxinn þorskfiskur heldur sig helzt, og sömuleiðis hvar hinn uppvaxandi fiskur heldur sig helzt. Það hefir líka fundizt, að því er virðist með alveg öruggri vissu, hvar leita megi karfans, sem menn gera sér vonir um, að geti orðið landsmönnum nytjafiskur. Það merkilega atriði hefir komið í ljós, að það má ganga að honum vísum á straumamótum, þar sem kaldur og hlýr straumur mætast, en þó þeim megin við línuna, sem hlýrri straumurinn er.

Ég ætla ekki að fara langt út í þessi atriði, því að það er hált á því svelli fyrir menn, sem ekki eru lærðir, en ég verð að geta um þetta, og einnig hitt, að úr því að með þessum, þó að sjálfsögðu mjög ófullkomnu rannsóknum, sem hafa farið fram á því, hvaða leiðir fiskurinn færi af Íslandsmiðum til Grænlands, hefir þó tekizt að leiða í ljós, að þetta mætti rekja, er hin mesta þörf á, að því verði haldið áfram. Það, sem mest hefir hamlað því, að þetta mætti rannsaka til hlítar, er ísrekið, og það þarf að reyna að rannsaka þetta aftur við sæmileg skilyrði. Fiskifræðingar telja miklar líkur til, að finna megi þessar fiskislóðir og rekja þær örugglega, og ég vil líka minna á það, að það hafa fundizt verustaðir ýmsra nytjafiska, sem hingað til hafa verið vanræktir, en líklegt má telja, að gætu haft allverulega þýðingu fyrir fiskiðnaðinn.

Það er mikill fjöldi nytjafiska, sem litið hafa verið rannsakaðir þessi 3–4 ár, sem varðskipið Þór hefir stundað fiskirannsóknir, og er það mikið fyrir þá sök, að náttúrlega höfum við miklu ófullkomnari útbúnað til slíks en tíðkast hjá öðrum þjóðum, þar sem menn eru langtum lengra komnir með þessar rannsóknir.

Ég ætla ekki að fara að þreyta hv. þm. með neinum tölum í þessu sambandi, en aðeins bæta því við, að fyrir þátttöku okkar Íslendinga í fiskirannsóknum og hafrannsóknum má ætla, að það sé, að erlendis hefir okkur nú verið veitt tiltölulega mikil athygli í sambandi við þessi mál, og við höfum þar af leiðandi fengið sæti í alþjóða-hafrannsóknaráðinu, og má búast við því, að till. frá Íslendingum hafi miklu meira að segja meðal þeirra vísu manna heldur en yrði, ef við tækjum engan þátt í rannsóknum á því sviði, og er þess vegna alveg sérstök ástæða fyrir okkur að halda þeim áfram, jafnvel þó að í smáum stíl verði. Fyrsta ástæðan fyrir því er sú, að við Íslendingar höfum farið því á flot við aðrar þjóðir, að við mættum breyta landhelgi okkar að nokkru, mest með tilliti til uppvaxandi nytjafiska, í fyrsta lagi að alfriða Faxaflóa fyrir botnveiðitækjum. Í því sambandi er vert að geta þess að þær hafrannsóknir og tilraunir, er fóru fram hér í Faxaflóa, hafa að því er mér virðist leitt ákaflega merkilega hluti í ljós. Þar reyndist miklu meira vera af fiski innan við landhelgislínuna en utan við hana, enda þótt dýpið væri að heita mætti hið sama og sjávarhiti og botn nákvæmlega eins. Ég vil aðeins nefna í þessu sambandi örfáar tölur, þar sem reynt var að veiða með botnvörpu beggja megin landhelgislinunnar, á samskonar botni, álíka miklu dýpi og alveg jöfnum sjávarhita. Á 71/2 klst. veiddust utan landhelgislínunnar 2656 fiskar, en hinsvegar innan hennar við sömu skilyrði 18792 fiskar. Þetta er geysimikill munur. Á öðrum stað, þar sem alveg stóð eins á, fengust utan við landhelgislínuna 154 fiskar, en innan við hana 2649 fiskar. Þetta eru ákaflega eftirtektarverðar tölur, þó að þær náttúrlega segi ekki allan sannleikann, því að það er margt fleira, sem kemur til greina, en fjöldi fiskanna, t. d. hve stórir þeir eru, en samt er vert að veita þessum tölum athygli.

Það, sem ég meina með þessum till., er í fyrsta lagi það, að þegar nágrannaþjóðir okkar, og eiginlega allar þær þjóðir, sem tekið hafa þátt í fiskirannsóknum, bæði í norðurhöfum og við strendur Íslands, eru nú í styrjöld og geta ekki framkvæmt neitt þessháttar, væri það ákaflega mikils virði fyrir okkur Íslendinga, sem erum að mestu leyti lausir við hildarleikinn, a. m. k. beinlínis, að við héldum áfram þeim litlu fiskirannsóknum, sem byrjað var á. Það er varla unnt að afsaka það, að láta þetta algerlega niður falla.

Í öðru lagi er það afaráríðandi, ef við ætlum að fá einhvern árangur af málaleitun okkar um friðun Faxaflóa, að við látum einmitt fara fram á þeim slóðum nákvæmar og óslitnar rannsóknir. Það verður að leitast við, að þær verði óslitnar og að engin ár falli úr. Ég hefi þess vegna hugsað mér og ráðgast um það við mér fróðari menn, að reynandi væri að gera varðbátinn Óðin út um nokkurn tíma til að rannsaka Faxaflóa eða grunnmiðin við Austfirði og Vestfirði, önnurhvor eða bæði. Mér er ljóst, að þetta skip er ekki til þess fallið að gera rannsóknir á djúpmiðum, en á Faxaflóa og fjörðunum austan lands og vestan gætu þær rannsóknir komið að fullu liði. Árni Friðriksson fiskifræðingur segir t. d., að í varðbátnum Óðni sé rúm til að setja niður rannsóknartæki og láta fara fram þær rannsóknir, sem nauðsynlegt sé að gera í skipinu sjálfu. Einnig hefir hann sagt mér, að rannsóknir við Norðurland geti vel fallið saman við landhelgisgæzlu yfir síldveiðitímann.

Ég ætla nú ekki að láta fleiri orð fylgja þessari till., en vil þó aðeins bæta því við, að það er lagt til, að ríkissjóður greiði kostnaðinn af þessu að því leyti, sem hann fæst ekki annarstaðar að; en nokkur hluti af þessum kostnaði hefir verið greiddur úr fiskimálasjóði undanfarin ár. Nú er sá sjóður náttúrlega öllu fátækari en áður var, vegna þess að miklu minna fé er nú veitt til hans úr ríkissjóði en áður. Þess vegna er ekki hægt að fullyrða neitt um, hvers hann væri megnugur í þessum efnum nú. Það væri ekki heldur illa til fallið, ef Fiskifélag Íslands sæi sér fært að taka einnig þátt í þessu, því að það liggur mjög nærri verksviði Fiskifélagsins.