12.04.1940
Sameinað þing: 18. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í D-deild Alþingistíðinda. (2491)

106. mál, launamál og starfsmannahald ríkisins

*Frsm. (Pétur Ottesen):

Þó að hér sé óneitanlega um mjög mikilsvert og þýðingarmikið mál að ræða, þá þykir fjvn. ekki ástæða til að fylgja þessari þáltill. úr hlaði með mörgum orðum. Ber þá hvorttveggja til: Í fyrsta lagi, að í till. sjálfri er skýrt og greinilega mörkuð sú stefna, sem fjvn. ætlast til, að verði fylgt og lögð til grundvallar við athugun og endurskoðun þessa máls og setningu nýrrar löggjafar um þetta efni, — og í öðru lagi að n. hefir átt samræður við ríkisstj. um þetta mál og nauðsynina á því, að hér sé nýskipan á gerð, enda er þessi þáltill. flutt með vitund og vilja ríkisstj. og í samráði við hana!. Launalögin eru orðin yfir 20 ára gömul. Á þessu tímabili hefir orðið mjög mikil breyting á launakerfi ríkisins, og taka launalögin frá 1919 nú orðið ekki yfir nema tiltölulega lítinn hluta þess.

Í launalögum ríkisins er ríkjandi svo mikið ósamræmi og glundroði, að engan veginn er við það hlítandi, að við svo búið sé látið sitja. Fjvn. leggur því ríka áherzlu á, að gengið verði með röggsemi og festu að því að endurskoða og athuga launamál og starfsmannahald ríkisins, og að till. um nýja skipan þeirra mála, á þeim grundvelli, sem lagður er í þessari þáltill., liggi fyrir, þegar næsta reglulegt Alþingi kemur saman.