03.04.1940
Sameinað þing: 12. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (2511)

93. mál, innflutningur á byggingarefni o. fl.

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég held, að rétt sé, að ég geri nú við umr. lítilsháttar yfirlit um byggingarefnamálið, þ. e. a. s. innflutning á byggingarefnum, og þá sérstaklega til Reykjavíkur, frá því rétt áður en stríðið skall á og eftir að það skall á, til þess að í sambandi við meðferð málsins komi fram upplýsingar um, hvernig hefir verið ástatt í þessu efni og hvað gert hefir verið.

Hv. frsm. gat um það í ræðu sinni, að í júní og júlí þá hefði verið byrjað að draga úr nýbyggingum, svo að verulegt atvinnuleysi hefði verið í byggingariðnaðinum síðasta sumar. Ég hygg, að hv. þm. eigi við það, að síðasta sumar, þegar gefinn var út síðari hluti byggingarefnaleyfa fyrir Reykjavík, var svo kveðið á, að menn seldu ekki byggingarefni til nýrra húsa, nema þeir sæju fram á, að þeir gætu afhent byggingarefni til þess að ljúka byggingunum. Þetta var gert með það fyrir augum, að ekki skapaðist það ástand í þessum málum, að hópur húsa stæði hálfsmiðaður og ónothæfur til íbúðar. Þetta var miðað við það, að gjaldeyrisástandið væri svo örðugt, að fyrirsjáanlegt væri, að erfitt yrði að sjá fyrir byggingarefni til þess að ljúka öllum þeim húsum, sem menn óskuðu að geta byggt. Ég vil ekki neita því, að þessar ráðstafanir kunna eitthvað að hafa dregið úr nýbyggingum í Reykjavík 1939, en ég vil taka fram, að eftir þeim upplýsingum, sem mér hafa verið gefnar í þessu efni, hefir alls ekki verið siðasta sumar tilfinnanlegt atvinnuleysi hjá byggingarverkamönnum eða byggingariðnaðarmönnum í Reykjavík, svo að ég held, að ofmælt sé að halda fram, að þessar ráðstafanir hafi orðið til þess að skapa slíkt ástand, en hafi það dregið úr byggingum, þá er það ekki af illvilja til byggingarmanna, heldur af hinu, að þeir, sem um þessi mál hafa fjallað, hafa litið svo á eftir nána íhugun, að ekki væri hægt vegna gjaldeyrisástandsins að flytja inn allt það efni, sem menn hefðu óskað eftir að fá.

Þegar styrjöldin skall á 1. sept., var eins og venjulega á haustin lítið til af byggingarefni í landinu, því að menn keppast við að ljúka húsum sínum af fyrir 1. okt., og er því venjulega mjög gengið til þurrðar það byggingarefni, sem fyrirliggjandi er. Þá var alveg óvíst, hvernig takast mundi að útvega byggingarefni, og ennþá óvissara, hvernig gjaldeyrisástandið mundi verða. Þá sóttu byggingarefnakaupmenn um að fá að kaupa nokkurt byggingarefni, sem þeir gætu náð með nærri því óbreyttu innkaupsverði og flutt inn fyrir sæmilegt verð, og það varð að ráði, að leyfa innflutning á þessu efni, sem þeir gátu þá náð i, en jafnframt var tekið fram, að þetta byggingarefni yrði flutt inn upp í þann byggingarefnakvóta, sem menn teldu fært 1940. Nú kom til álita, hvernig með þetta byggingarefni skyldi farið og hversu frjálst það skyldi vera. Þá lá sú hætta fyrir, að ef það yrði algerlega frjálst, þá færu menn að byggja þau hús, sem þeir vildu, sem svo stæðu hálfsmiðuð án þess að nokkur möguleiki væri á að ljúka við þau, og það sem verra var, að þetta yrði til þess, að ekki yrði hægt að útvega byggingarefni til þess að viðhalda húsum, en það er ljóst og um það eru allir sammála, að fyrst eigi að hugsa um að útvega byggingarefni til viðhalds og endurbóta, og fyrst eftir að séð hefir verið fyrir þeirri þörf, megi fara að hugsa um að reisa ný hús. Þegar þessi leyfi voru gefin út í haust, var það gert með því skilorði, að ekki skyldu afhent byggingarefni til nýrra bygginga nema með samþykki ráðun. Nú er þetta byggingarefnamál til áframhaldandi athugunar hjá gjaldeyrisnefnd og stj., og hafa verið teknar ákvarðanir í gjaldeyrisnefnd fyrir nokkru, að veita á þessu ári byggingarefnaleyfi upp á 1272 þús. kr. og þar í innifalin þau leyfi, sem gefin voru út í haust, eins og ég gat áðan um. Ef maður ber þetta saman við ástandið á síðasta ári, þá er þetta allt að því jafnhátt og það, sem úthlutað var á árinu 1939 til þessara sömu aðila, en það var 1375 þús. kr. Nú gefa byggingarefnaverzlanir þær upplýsingar, að verðlag allt að meðtaldri fragt muni hækka um 100%, svo að það mætti gera ráð fyrir, ef það stæði óbreytt, að fyrir þessa upphæð fengist allt að því helmingur af því byggingarefni, sem inn fluttist árið 1939, og því ætti að vera óhætt að vona, að þessi upphæð gæti nægt til þess að kaupa byggingarefni a. m. k. til viðhalds og endurbóta, og mun verða unnið að því, að verzlanirnar noti þetta efni með það fyrir augum.

Nú vil ég benda á, að þetta er orðið mikið vandamál, ekki aðeins frá sjónarmiði byggingariðnaðarmanna, heldur almennt vandamál, þegar það kemur í ljós, að það, sem borga þarf út úr landinu fyrir byggingarefni, er strax í janúar 100% hærra en í fyrra, og mér leikur grunur á, að muni hækka verulega síðar. Þetta þarf allt að borga í erlendum gjaldeyri, því að okkar floti hefir nóg að gera að flytja annað en byggingarefni, svo að hann hefir ekkert afgangs fyrir byggingarefni, svo að eftir því sem við flytjum meira af því, þarf að leigja meira af aukaskipum annarstaðar frá og greiða fyrir þau í erlendum gjaldeyri. Menn hafa verið að gera sér vonir um, að þessi upphæð kynni að nægja til viðhalds og endurbóta, en það verður reynslan að leiða í ljós. Nú bætist hér við erfiðleikana að borga svo stórum hækkuðu verði hverja einingu af byggingarefni, sem til landsins er flutt, að svo erfitt hefir verið að fá leigð skip til þessara flutninga, að til vandræða horfir, og það stórkostlega. Mér er kunnugt um, að sumir aðilar hafa lengi verið að reyna að fá skip til að flytja byggingarefni, sem þeir hafa haft leyfi til að flytja inn, en án árangurs. Þegar ástandið er svona, annarsvegar þessi mikla hækkun á innkaupsverði og flutningsgjöldum og þessi mikla óvissa um gjaldeyrisástandið og þær óskaplegu kröfur um innkaup á öllum vörum, — ég skal nefna sem dæmi að það kostar nú um 600–700 þús. kr. að leigja skip með einn olíufarm, og þarf að greiða allt út í hönd eins og flestar nauðsynjar nú, — og svo þegar þar á bætist þessi mikla óvissa um sjálfan flutninginn, þá verð ég að segja, að við verðum nauðbeygðir til að viðhafa varúð í þessum málum og setja enn sem komið er þau skilorð, að það byggingarefni, sem inn er hægt að flytja, verði ekki notað til nýbygginga, fyrr en séð er fyrir því, sem afla þarf til viðhalds og endurbóta.

Þetta er þá í sem stytztu máli það, sem gerzt hefir í þessu efni. Horfurnar eru með öllu óvissar, en þær geta því miður á engan hátt kallazt glæsilegar.

Þá komum við að því atriði, sem ég vil gera almennt að umtalsefni, hvort æskilegt sé, að hér verði framkvæmdar verulegar nýbyggingar eins og nú standa sakir. Nú býst ég við, að frá almennu sjónarmiði verði flestir sammála um, að þjóðhagslega séð sé mjög óhyggilegt að kaupa byggingarefni til stórra muna og byggja ný hús eins og nú standa sakir, því að slík hús hlytu alltaf að verða mylnusteinar um háls eigenda þeirra, og í annan stað er mikill partur af því efni, sem keypt væri til þeirra húsa, algerlega tapað fé, miðað við að nota það til annara hluta, einkanlega til þess að reyna að losa eitthvað um skuldir þjóðarinnar, ef þess væri nokkur kostur. Og það hljóta allir að vera sammála um, a. m. k. allir hv. alþm., að á svona tímum er æskilegt að leggja í sem allra minnstar framkvæmdir, sem erlendan gjaldeyri þarf til, en reyna heldur að draga að sér höndina sem mest og losna heldur úr skuldum, ef nokkur kostur væri. Þetta býst ég við, að allir séu sammála um. En þá kemur hitt vandamálið, sem óneitanlega er stórt vandamál, en það er það, sem byggingariðnaðarmenn hugsa mest um, og það er ákaflega eðlilegur hlutur, en það er, hvaða ráðstafanir eigi að gera til þess, að þeir, sem hafa haft atvinnu sína við nýbyggingar, en þeir eru fjöldamargir, geti haft eitthvað að að hverfa. Eins og hv. flm. gat um, þá er það kannske ekki nema að litlu leyti fyrir opinberar ráðstafanir, að dregið hefir úr nýbyggingum, heldur er þar mest um að kenna utan að komandi ástandi, sem við fáum engu um ráðið. Ég vil taka fram, að ég tel alveg óhugsandi, að hægt sé að leiða þetta mál alveg hjá sér og sinna í engu málum þeirra manna, sem hér biða atvinnuhnekki, heldur verði að fá einhverja lausn, en það finnst mér, að eigi ekki að gera með því, að það opinbera ýti undir nýbyggingar eins og nú standa sakir, heldur eigi að reyna að koma á fót annari atvinnu, eftir því sem möguleikar eru á, sem þessir menn gætu fengið aðgang að, og ég segi það hiklaust sem mína skoðun og legg áherzlu á það, að ég tel miklu skynsamlegra frá þjóðhagslegu sjónarmiði að leggja talsvert á sig til fjáröflunar innan lands í því skyni heldur en það opinbera geri ráðstafanir til þess að auka þyngslin á gjaldeyrinum með því að ýta undir byggingar eins og nú standa sakir. Ég tel vel tímabært og nauðsynlegt, að Alþingi hefði samþ. fjárveitingu í því skyni að koma á fót atvinnu, sem sá hluti manna gæti starfað að, sem vitanlega hlýtur að verða atvinnulaus nú á næsta sumri og sennilega meðan á stríðinu stendur, vegna þess að nýbyggingar falla að miklu leyti niður, því að það hlýtur að verða, að þær falli að miklu leyti niður.

Mér finnst, að þessu máli hafi of lítill gaumur verið gefinn hér á þingi. Í sambandi við afgreiðslu fjárl. á nú að gefa stj. heimild til niðurskurðar á ýmsum liðum fjárl., og kann að vera, að hægt sé að gera slíkt að vissu marki, — en gæti ekki verið líka nauðsynlegt fyrir stj. að hafa heimild til að gera ráðstafanir til að auka atvinnu til að vega á móti þeim atvinnumissi, sem hlýtur að koma fram vegna styrjaldarástandsins? Ég vil benda á, að ef framleiðslan getur gengið áfram óhindrað, þá muni mikill hluti þjóðarinnar geta þar séð sér farborða, og að sumu leyti kannske fengið eitthvað skárri aðstöðu. Gæti vel farið svo, að þessi hluti þjóðarinnar yrði eitthvað aflögufær til að styðja þá, sem verr yrðu úti, og mér finnst, að það sé eðlileg ályktun af þessu viðhorfi, að gerðar séu ráðstafanir til þess, að stj. hafi heimild til þess að veita fé til atvinnuaukningar í því skyni. Þetta vil ég leggja áherzlu á einmitt í sambandi við þetta mál. Það er í raun og veru engin lausn frá þjóðhagslegu sjónarmiði að ætla að leysa mál eins og þetta með því að örva framkvæmdir, sem frá sjónarmiði allra væri í raun og veru æskilegast að mættu bíða. Ætti miklu betur við að mínum dómi að reyna í stað þeirrar atvinnu að skapa aðra nýja, og ég vil leggja áherzlu á, að mér finnst, að þessu máli hafi allt of lítill gaumur verið gefinn við afgreiðslu fjárl. hér á þingi.

Ég álít, að ómögulegt sé nú að gefa neina ákveðna yfirlýsingu um, hvort hægt verði að afla svo mikils byggingarefnis, að hægt verði að leggja í nýbyggingar. Það mál verður tekið til athugunar í stj. og gjaldeyrisnefnd og teknar ákvarðanir eftir því, sem útlit er fram undan.

Ég lít því svo á, að hér sé um miklu stærra mál að ræða en það, hvort þessi klásúla um innflutning á byggingarefni skuli falla niður eða ekki. Það, sem hér ber sérstaklega að athuga, er það, á hvern hátt bezt og hagkvæmlegast verði bætt úr því atvinnuleysi, sem kemur til með að stafa af byggingarefnisskortinum. Vegna þeirra hluta vil ég óska þess, að málinu verði vísað til nefndar til frekari athugunar.