22.04.1940
Sameinað þing: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í D-deild Alþingistíðinda. (2531)

116. mál, þegnskylduvinna

*Pétur Ottesen:

Með þessari þáltill. höfum við þrír þm., sem flytjum hana, viljað koma nýrri hreyfingu á þetta mál. Okkur hefir litizt svo á, að sjálfsagðasta leiðin til þess, að allur almenningur taki það til umræðu og geti myndað sér um það rökstuddar skoðanir, sé sú, að ríkisstj. taki nú þegar að sér undirbúning þess og leggi fyrir næsta Alþingi ákveðnar till. í frumvarpsformi, enda sé miðað við það, að þjóðaratkvgr. geti farið fram um málið við næstu reglulegar kosningar til Alþingis, á árinu 1911. Við lítum svo á, að það hafi orðið málinu mjög til tjóns, að hingað til hefir legið í lausu lofti, hvernig framkvæmd þessarar þegnskylduvinnu yrði hagað. Það átti vafalaust sinn þátt í þeirri niðurstöðu, sem varð við þjóðaratkvgr. um málið við þingkosningar 1916, er aðeins lítill hluti kjósenda lýsti sig fylgjandi þegnskylduvinnu. Menn gerðu sér svo mjög rangar hugmyndir um málið, að enn eru þær því til hindrunar. En frá þeim tíma hafa orðið djúptækar breyt. í þjóðfélagi okkar, og ein afleiðing þeirra er aukin nauðsyn þegnskylduvinnunnar í einhverri mynd. Þessi till. er ekki um annað en að fela ríkisstj. undirbúning málsins og að leggja síðan till. um það fyrir Alþingi. Fyrst að því loknu kemur að framkvæmdum. Annars fer nú hugmyndin að verða býsna gömul og þekkt af afspurn hér á landi. Á Alþingi 1903 flutti þáv. þm. Húnv.. Hermann Jónasson á Þingeyrum, tillögu í 4 liðum um þegnskylduvinnu, þar sem dregin voru fram ýmis atriði, er snertu hana. Um svo stórt mál var ekkert að undra, þótt árin liðu án þess að það næði framgöngu. En hugmyndin féll engan veginn niður. Þrem sinnum síðan hafa komið tili. í þá átt hér á Alþingi. Í þessu sambandi vil ég minna á tillögur, sem Björgvin sýslumaður Vigfússon í Rangárvallasýslu er höfundur að, þar sem gert var ráð fyrir skóla, er nemendur sæktu þannig, að þeir ynnu sjálfir af sér skólagjaldið. Þá flutti hv. þm. A.-Húnv. (JPálm) fyrir fjórum árum þáltill. í svipaða átt. Og á fyrra þinginu 1937 var fyrst flutt frv. um vinnuskóla. Gekk þetta allt saman í sömu átt og stefnt er með till. okkar.

Það er vitað, að eftir því, sem tímar hafa liðið, hefir meira og meira vandræðaástand skapazt hér í bæjunum, þar sem yngri sem eldri menn hafa gengið atvinnulausir og ekki haft nokkurt verkefni svo og svo mikinn hluta ársins. Eitthvað verður að gera í þeim málum. Þetta hefir m. a. orðið til að ýta undir þessa hugmynd, sem hefir verið vakandi með þjóðinni undanfarna áratugi.

Þegnskylduvinnan ætti að geta orðið grundvöllur undir það, að menn verði færir um að standa fyrir ýmsum framkvæmdum, um leið og hún á að bæta úr því mikla atvinnuleysi, sem nú ríkir í kaupstöðum landsins, og yfirleitt við sjávarsíðuna. Þegnskylduvinnan ætti að geta orðið til þess að hrinda í framkvæmd ýmsum nauðsynlegum verkefnum í landinu, um leið og hún kennir fólki margvíslega vinnu, sem er vitanlega ákaflega hollur lærdómur fyrir fólk, sem er að ganga út í lífið. Við flm. viljum vænta þess, að Alþ. vilji fallast á að greiða götu málsins einmitt á þann hátt, sem hér er lagt til.

Það er álit okkar flm., að með því að fara svona að, sé þetta mál í raun og veru vel og rækilega undirbúið og að almenningur í landinu geti frekar eftir en áður tekið afstöðu til málsins, ef það yrði lagt undir atkvgr. við kosningar árið 1941.

Mér þykir ekki ástæða til þess að láta fleiri orð fjalla um þessa till., en vil vænta þess, að málið fái góðar undirtektir Alþ. nú. Við flm. erum sannfærðir um, að fyrir hendi er það mikill skilningur á þýðingu og gildi þessa málefnis, að mikilsvert sé, að það verði vel undirbúið fyrir næstu kosningar. Við erum einnig sannfærðir um það, að því verði fullkominn gaumur gefinn, þegar til þess kemur, að menn fá tækifæri til að segja álit sitt um það.