20.03.1940
Sameinað þing: 8. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í D-deild Alþingistíðinda. (2562)

24. mál, innflutningur á heimilisnauðsynjum farmanna

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þessi till. fer fram á það, að Sþ. skori á ríkisstj., eins og það er orðað hér, að ákveða,, að heimilt sé að flytja inn án afskipta gjaldeyrisnefndar vörur, sem sjófarendur kaupa til heimilisþarfa fyrir allt að helming launa sinna, en samkv. brtt. fyrir 150 kr. fyrir hverja ferð, sem skipin fara milli landa.

Ég vil taka það fram í tilefni af þessari till. og því, sem hv. flm. sagði, að ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að nauðsynjar, sem farmenn hafa keypt erlendis á ferðum sínum, hafa þeir fengið að flytja í land hindrunarlítið, ég vil ekki segja hindrunarlaust, því að verið getur, að fyrir hafi komið, að steinn hafi verið lagður í götu þess, að þær hafi fengizt fluttar inn í landið. Ég held því, að ekki sé rétt að tala um, að verið sé að tína af sjómönnum spjarir þær, sem þeir kunna að hafa komið með til landsins.

En það er annað atriði, sem nokkuð hefir verið talað um, en það er, hversu mikið af kaupi sínu sjómenn skuli fá greitt í erlendum gjaldeyri. Um það hafa staðið yfir samkomulagsumleitanir milli fulltrúa sjómanna annarsvegar og hinsvegar útgerðarmanna, bæði á flutningaskipum og togurum. Ég geri mér vonir um, að áður en langt um líður náist samkomulag um þetta atriði, sem er undirstaða þess, hversu mikið sjómenn flytja inn. Útgerðarfélögin hafa staðið í sambandi við ráðun. um þetta, vegna þess að það snertir gjaldeyrisástandið almennt, hversu mikið af kaupinu er greitt í erlendum gjaldeyri. Vona ég, að samkomulag náist, og mun verða reynt að koma til móts við óskir sjómannanna um frjálsan innflutning.

Ég vil leggja til, að umr. um þessa till. verði frestað og vísað til allshn. Sþ. Annars vil ég taka fram, að það er ákaflega stórt atriði, hversu mikinn hluta af kaupi sínu sjómenn fá í erlendum gjaldeyri. Það skiptir milljónum, miðað við núverandi gengi, sem greitt er í kaup á skipunum. Sjá þá allir, hversu gífurleg upphæð það er, sem þannig færi út úr landinu, ef stórlega væri aukið við kaupgreiðslur í erlendum gjaldeyri. Það þarf ekki að auka mikið hlutfallslega þá upphæð, sem greidd er í erlendum gjaldeyri, til þess að það verði ákaflega stór upphæð samtals. Þess vegna er þetta kannske stærra mál en menn gera sér grein fyrir.