20.03.1940
Sameinað þing: 8. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í D-deild Alþingistíðinda. (2564)

24. mál, innflutningur á heimilisnauðsynjum farmanna

*Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Ég vil aðeins segja, að þótt þetta sé ekki stórmál, þá get ég ekki haft á móti till. hæstv. viðskmrh. um að málinu verði vísað til n. Það er sjálfsagður hlutur, að málið fái þinglega meðferð, en ég vil vænta þess, að n. láti málið ekki tefjast það lengi, að það dagi uppi í þinginu.

Það var ekki annað, sem ég þurfti að segja, en viðvíkjandi því, að þetta væri mikið gjaldeyrisspursmál, vil ég segja, að samkv. brtt. minni er þetta ekki orðið svo fyrirferðarmikið.

Ég sá í blaði í morgun skýrt frá því, hvert væri mánaðarkaup manna á verzlunarskipunum. Það er nokkuð mismunandi, eftir því hvaða leiðir eru farnar, en það mun vera frá rúmum 1000 kr. og niður í 450 kr. Þá eru þetta 150 kr. í ferð, sem þessir menn eiga að fá, og mun láta nærri, að það sé 150 kr. á mánuði yfir þann tíma, sem skipin sigla. Er það ekki mikill hluti af heildarkaupinu.

Ég vænti þess, að ef þessu máli verður vísað til n., þá athugi hún þessa hlið þess.