20.03.1940
Sameinað þing: 8. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í D-deild Alþingistíðinda. (2565)

24. mál, innflutningur á heimilisnauðsynjum farmanna

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég held, að hv. 2. landsk. hafi misskilið mig hrapallega. Hann segir, að ég hafi sagt, að sjómenn hafi fengið að flytja inn hindrunarlitið þær nauðsynjar, sem þeir hafi komið með til landsins. Með orðinu „hindrunarlítið“ átti ég ekki við, að þeir hafi ekki þurft að borga toll, heldur hafi fengið, eins og till. fer fram á, innflutningsleyfi fyrir þeim nauðsynjum, sem þeir hafa komið með til landsins, Aftur á móti hafa þeir verið látnir borga toll, enda munu hvorki sjómenn eða aðrir hafa ætlazt til þess, að þeir fengju að flytja inn tollfrjálst, en ég endurtek það, sem ég sagði áðan, að það hefir verið reynt að koma til móts við sjómenn í þessu efni. En þetta dæmi, sem hv. þm. tók til um sjómanninn, sem flutti inn fataefnið, hlýtur að stafa af því, að hann hafi ætlað sér að gefa það ekki upp.

Hv. þm. sagði, að ég hefði ekki látið sjómennina vita neitt um bréf það, sem ég hefði skrifað útgerðarmönnunum, þar sem ég óskaði eftir, að þeir greiddu ekki sjómönnum meira í erlendum gjaldeyri en gert hefði verið undanfarið, nema í samráði við ráðh. Það er rétt, ég skrifaði ekki stéttarfélagi sjómanna samskonar bréf, en í sambandi við samningana við sjómennina tók ég greinilega fram, að eins og þá stæði teldi ég ekki hægt að ganga lengra en gert hefði verið. Þess vegna hélt ég, að þeir hefðu búizt við, að svipað bréf mundi koma, en ég sló þann varnagla, að ef talið væri, að óskum manna væri ekki fullnægt, þá skyldi talað við ráðun. Þannig stendur málið nú, að fulltrúar sjómanna og útgerðarmanna hafa haft samband sín á milli um það, og ég álit, að það sé alveg rétt hjá hv. þm., að þeir eigi að ræðast við um það.