18.04.1940
Sameinað þing: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í D-deild Alþingistíðinda. (2570)

24. mál, innflutningur á heimilisnauðsynjum farmanna

*Frsm. (Þorsteinn Briem):

Till. sú, sem hér liggur fyrir, hljóðar í fyrsta lagi um það, að ríkisstj. er falið að veita íslenzkum farmönnum, sem eru í siglingum til annara landa, heimild til þess að flytja inn heimilisnauðsynjar fyrir allt að helmingi launa sinna, án þess að það komi til afskipta gjaldeyris- og innflutningsnefndar. Í öðru lagi er lagt til að fela ríkisstj. að sjá um, að tollskoðun fari fram á þessum varningi. Hv. flm. hefir sjálfur flutt brtt. á þskj. 205 við 1. lið till. Brtt. er á þá leið, að í stað þess, sem lagt er til í þáltill., að heimildin taki til helmings launanna, þá megi hver farmaður kaupa fyrir 150 kr. í hverri ferð. Allshn. hefir athugað þessa till. og leggur minni hlutinn til, að hún verði samþ., en meiri hl. vill ekki binda svo algerlega hendur ríkisstj. fyrirfram, hvernig sem á stendur, hve mikið af erlendum gjaldeyri skuli greiða farmönnum í hverri ferð. Meiri hl. væntir þess, að hæstv. ríkisstjórn komi á svo sanngjarnri reglu í þessum efnum sem henni þykir frekast fært. Meiri hl. væntir þess einnig, að gjaldeyris- og innflutningsnefnd sýni fulla lipurð í þessum málum, og hafa ekki borizt umkvartanir yfir afgreiðslu á gjaldeyri til farmanna. Í því trausti hefir meiri hl. orðið sammála um að vísa till. til ríkisstjórnarinnar.