18.04.1940
Sameinað þing: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í D-deild Alþingistíðinda. (2579)

24. mál, innflutningur á heimilisnauðsynjum farmanna

*Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Ég spurðist fyrir um það áðan hjá hv. allshn., hvernig á því stæði, að n. hefir ekki enn tekið fyrir þáltill. þá, sem ég flutti ásamt öðrum hv. þm. um kaupgreiðslu til sjómanna í erlendum gjaldeyri. Frsm. n. hefir engu svarað þessu. Má ég spyrja: Hvað á svona framkoma að þýða? Þykjast háttvirtir þingmenn vera of virðulegir til að svara svona einfaldri spurningu? Svona framkoma eykur ekki virðingu þjóðarinnar fyrir þeim.

Viðvikjandi þessu máli er hér ekkert annað að fara fram en skrípaleikur, eins og hæstv. viðskmrh. tók réttilega fram. Aðalatriðið er það; hvað mikinn hluta af kaupinu eigi að greiða í erlendum gjaldeyri. Þessi till. hefir bókstaflega enga þýðingu fyrir sjómenn, nema því aðeins, að það sé áður tryggt, að þeir fái nægilegan erlendan gjaldeyri til kaupa á því, sem till. fjallar um.

Það hefir enga þýðingu að vísa þessu til ríkisstj. eins og hér er lagt til. Till. mín fer aftur á móti fram á það, að engar hömlur séu lagðar á það af hálfu ríkisstj., að sjómenn fái kaup sitt greitt í erlendum gjaldeyri eins og l. standa til. Þennan rétt eiga sjómenn samkv. l. Það er þess vegna þingsins að láta vilja sinn í ljós um það, hvort sjómenn eigi að njóta þeirra réttinda, sem þeir eiga l. samkvæmt. Annað liggur ekki fyrir Alþ. í þessu máli.

Hitt er svo annað mál, hvað sjómenn og útgerðarmenn kunna að semja sín á milli.