17.04.1940
Sameinað þing: 19. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í D-deild Alþingistíðinda. (2594)

111. mál, athugun á fjárhag þjóðarinnar

*Sveinbjörn Högnason:

Ég ætla aðeins að segja örfá orð til athugunar um þessa till. áður en henni verður vísað til n. Það hefir áður verið gerð tilraun til skýrslusöfnunar svipaðrar þeirri, sem farið er fram á í þessari till., m. a. mun hv. flm. hafa stofnað skrifstofu til þess í fyrra, og ég veit ekki, með hvaða heimild. Hún mun hafa kostað allmikið fé, en hefir komið að mjög litlu gagni, vegna þess að upplýsingarnar, er byggðust á skýrslusöfnun eins og gert er ráð fyrir í þessari till., voru mjög óábyggilegar, og ekki er vitað, að þær hafi komið að neinu liði, vegna þess hve óáreiðanlegar þær voru og náðu ekki nema yfir starfsmenn ríkisins og um það hversu launagreiðslum til þeirra væri varið. En til þess þurfti að stofna skrifstofu og hafa þar fimm launaða starfsmenn.

Nú er ætlazt til samkv. þessari till., er hér liggur fyrir, að hefja mikla og stórfellda rannsókn á fjárhag þjóðarinnar, og sennilega yrði að fá sæg af mönnum til þess að hafa framkvæmd þess með höndum. Ef þetta yrði samþ., myndi það sjálfsagt kosta nýja n., skrifstofu og allmarga starfsmenn, og því verki myndi ekki verða lokið á einu ári, heldur standa yfir í nokkur ár. Hér er um stórfelld aukin útgjöld að ræða fyrir ríkið, ef miða skal við það, hvað sú skrifstofa kostaði á síðastl. ári, er þó leysti lítið starf af hendi.

Hinsvegar skal því ekki neitað, að ef hægt yrði að safna áhyggilegum skýrslum um þessi mál, gæti það komið að gagni. En ég býst við því, að þetta mundi lenda í höndum manna. sem e. t. v. gæfu að lokum jafnóábyggilegar skýrslur á allan hátt eins og sú skrifstofa, sem var að safna skýrslum um þetta á síðastl. ári. Ég veit ekki, hvernig vinnuaðferð þeirra manna, er þar störfuðu, var háttað, en sú skrifstofa kostaði nokkur þús. kr. En ef þessi till. yrði samþ., myndi kostnaðurinn vitanlega verða margfalt meiri, og vafasamt, að skýrslurnar yrðu ábyggilegar.

Ég vil aðeins láta það í ljós um þessa till., að ég vil, að henni verði vísað til fjvn., því að ég veit, að sú n. hefir langbezta aðstöðu til þess að meta, að hvaða gagni hún myndi koma, ef hún yrði samþ., og hve mikill kostnaður myndi verða við framkvæmd hennar, og geti þm. því verið nokkuð rólegir, ef þessari till. verður vísað þangað. Ég vil beina því til þm., að þeir taki þetta til hliðsjónar um leið og þeir taka þessa till. til athugunar.