17.04.1940
Sameinað þing: 19. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í D-deild Alþingistíðinda. (2595)

111. mál, athugun á fjárhag þjóðarinnar

*Flm. (Jón Pálmason):

Út af þessum ummælum hv. 1. þm. Rang. vil ég taka fram, í fyrsta lagi, að hann veit ekkert um, þessi hv. þm., hvort skýrslusöfnun fjvn. síðastl. ár er ábyggileg eða ekki. Það hefir verið unnið að þessari skýrslugerð bæði af þessum hv. þm. og öðrum. sem hafa persónulegar ástæður til að koma í veg fyrir, að skýrslurnar verði birtar, vegna þess að þeir vilja ekki, að almenningur sjái, á hvern hátt launagreiðslur til þeirra og annara starfsmanna ríkisins fara fram. En að það hafi nokkuð upplýstst um það, að skýrslurnar séu óábyggilegar, er algerlega út í bláinn sagt. En um hitt má náttúrlega deila, hvort skýrslusöfnun á þennan hátt sé að fullu tæmandi. Hitt kemur nokkurnveginn ljóst fram hjá hv. þm., að hann er einn í hópi þeirra manna, sem ekki vilja fá það upplýst, hvernig fjárhagur þjóðarinnar er í raun og veru, vegna þess að hjá þeim mönnum er ríkjandi sá hugsunarháttur, sem hefir komið mjög í ljós hér á hv. Alþ. undanfarin ár, og ekki sízt nú upp á síðkastið, en það er að hugsa eins og maður, sem er á gjaldþrotabarmi og álítur, að bezt sé að láta allt afskiptalaust, það hrynji allt hvort sem er. Þessi hugsunarháttur hefir verið mjög ríkjandi bæði utan þings og innan, og getur það orðið til þess að blekkja þjóðina og leyna hana því, hvernig ástandið er í raun og veru í þessum efnum. viðvíkjandi því, hvort þessari till. skuli vísað til n., vil ég segja það, að ég álit eðlilegast, að fjvn. fengi málið til athugunar; það er hennar verksvið að fjalla um þessi mál.