17.04.1940
Sameinað þing: 19. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í D-deild Alþingistíðinda. (2600)

111. mál, athugun á fjárhag þjóðarinnar

*Flm. (Jón Pálmason):

Ég þarf ekki mörg orð til að svara hv. 1. þm. Rang. Það þýðir að sjálfsögðu ekki fyrir okkur að þræta um það á þessum stað nú, hvernig komið sé fjárhag þjóðarinnar.

Mér virtist á ræðu hv. þm., að hann teldi fjárhaginn vera í svo góðu lagi, að hann hefði jafnvel aldrei verið betri en nú, en um það atriði ætla ég ekki að þræta. En viðvíkjandi þeim ásökunum hv. þm., að ýmsar skekkjur hefðu átt sér stað viðvíkjandi skýrslusöfnuninni, þá vil ég enn segja það, að hann hefir ekki hugmynd um það, hvort þær eru rangar, og eru þessar fullyrðingar hans því út í bláinn sagðar. En þessar skýrslur eru teknar eftir upplýsingum frá stofnununum sjálfum, og eftir þeim niðurstöðum, sem þær hafa fengið, og ég er hræddur um, að hv. þm. reynist ofvaxið að telja almenningi trú um, að þessar skýrslur séu allar rangar og villandi.

Snertandi það, að ég hafi gert mig sekan um að gorta af því, hvað illa væri komið hag þjóðarinnar, þá er það eins og svo margt annað hjá þessum hv. þm., að það er alveg hrein villa. Það er fjarri því, að ég hafi á nokkurn hátt verið að gorta yfir því, að illa væri komið fjárhag þjóðarinnar, en hitt er satt, að ég hefi ekki fundið ástæðu til að draga dul á það, hvernig fjárhagurinn er.

Um það, hvort þessi till. eigi að fara til fjvn. eða allshn., þá tel ég það ekki skipta verulegu máli, en þar sem hér er eingöngu um fjárhagslega athugun að ræða, þá áliti ég réttara, að fjvn. fengi málið til athugunar, og ég vil mega æskja þess, að forseti beri þá till. upp fyrst.