23.04.1940
Sameinað þing: 23. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í D-deild Alþingistíðinda. (2606)

111. mál, athugun á fjárhag þjóðarinnar

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Ég skal vera ákaflega stuttorður um þetta mál. Mér skildist á hv. flm., að hann teldi, að mjög mikið af því, sem hann leggur til, að athugað verði, mætti athuga í sambandi við skattskýrslur.

Í öðru lagi taldi hann, að þær stofnanir, sem eiga að fara yfir skattskýrslur, skattanefndir úti um land og ríkisskattan. hér í Reykjavik, ættu að geta leyst þetta af hendi án aukins mannafla. Hann taldi ennfremur, að þar væri hægt að fá allan þann fróðleik, sem hann ætlast til, að aflað verði samkv. till. sinni. En ég vil benda honum á það, að öll sú skýrslusöfnun í sambandi við skattamálin, sem lagt er til að gerð verði í þessari till., er þannig lagað verk, að ef ætlazt er til, að skattanefndirnar annist um þá vinnu, þá myndu þær þurfa að bæta við mönnum í sína þjónustu, og það allverulega.

Í öðru lagi vil ég benda hv. þm. A.- Húnv. á, að það myndi þurfa sérstök l. til að framkvæma þetta, því að allan þann fróðleik, sem ætlazt er til að safna, er alls ekki að finna í skattskýrslunum. Í þessari till. er m. a. talað um samgöngufyrirtæki, bæjar- og sveitarfélög og sparísjóði m. m., en slíkt er alls ekki unnt að sjá af skattskýrslum. Þetta eru skattfrjálsir aðilar og telja alls ekki fram, eiga enga skattskýrslu. Þó að menn vildu leggja allan sinn vísdóm í þá rannsókn, þá er alls ekki unnt að sjá af skattskýrslu t. d., hvernig rekstur sparisjóðsins á Blönduósi er, því hún er engin til, og svo er um ýmislegt fleira, sem nefnt er í þessari till., að skattskýrslur gefa alls ekki upplýsingar um það. Það stendur því óhagganlegt, að et þessi till. yrði samþ. og kæmist í framkvæmd, þá yrði að samþ. sérstök l., er heimiluðu þeim mönnum, er að þessu ynnu, aðgang að hverskonar reikningum og skýrslum opinberra fyrirtækja og einstaklingsfyrirtækja sem væri. En til slíks þyrfti sérstök lagafyrirmæli. Ég man svo langt, að þegar „Rauðka“ var stofnuð og það kom til mála að láta hana fá slíka heimild, þá voru ekki allir þm. því fylgjandi, að henni yrði veitt slíkt, og minnir mig þm. A.- Húnv. vera meðal þeirra.