29.03.1940
Neðri deild: 25. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í D-deild Alþingistíðinda. (2615)

67. mál, saltfisksveiðar togara

*Atvmrh. (Ólafur Thors):

Ég tel ekki ástæðu til að fara um þessa till. mörgum orðum á þessu stigi málsins. Ég geri ráð fyrir, að hún verði send til n. og fái þar betri athugun en hún hefir nú fengið. Þó mun ég láta nokkur orð falla um þetta mál. Ríkisstj. hefir gert sér ljóst fyrir löngu, að framundan bíði margvíslegir erfiðleikar í sambandi við atvinnuleysi almennings, sem fylgir í kjölfar rénandi saltfiskssölu. Þess vegna hefir hún um tveggja mánaða skeið látið athuga þessi mál, og ég get gefið nokkuð einstakar upplýsingar fyrir hönd stjórnarinnar, sem sýna, hve málið er örðugt viðfangs. Það er of augljóst mál til þess, að um það þurfi að ræða, að stj. getur ekki látið sér standa á sama„ ef saltfisksveiðar togara falla niður. Hún myndi hiklaust hafa komið með frumkvæðið að því, að veiðiskipin færu einhvern tíma á saltfisksveiðar, ef henni væri ekki ljóst, hvílíkir örðugleikar yrðu því samfara. Mér hefir verið falið af ríkisstj. að hafa forystu og afskipti gagnvart útgerðarmönnum af þessum málum, og af þeirri ástæðu mun ég svara þessum málum fyrir hönd stjórnarinnar. Ég hefi fengið skýrslur frá útgerðarmönnum, sem sýna, hvernig þeir áætla, að afkoman myndi verða, ef farið yrði á saltfisksveiðar. Þrjú útgerðarfélög hafa sent þessar skýrslur, — þó mætti segja„ að þau væru ekki nema tvö, þar sem eitt er frá bæjarútgerðinni í Hafnarfirði. Eftir að hafa athugað þessar skýrslur sá ég, að mjög orkaði tvímælis, að farin væri þessi leið, vegna hins háa verðs á kolum og salti. Skýrslurnar eru samdar eftir bókum félaganna og reiknaðar eftir afkomunni eins og hún var 1938 og 1939. Reiknað var með kolum, salti, kaupgjaldi og fleiru eins og það er í dag, miðað við notkunina í fyrra, en aflamagnið eins og það var í fyrra. Niðurstaðan í skýrslunum er sú, að hallinn af þessari veiði í aprílmánuði, sem er þó bezti tíminn af vertíðinni, nam 1600 kr. á dag á hvert skip. Þessi útkoma fæst með því að reikna verðiag á kolum heldur hærra en ástæða kann að vera til. Ég á sjálfur sök á því, að í þessari áætlun eru kolin reiknuð á 160 kr. tonnið. Þetta er að vísu nokkuð hátt, en það munar aldrei meiru en 250 kr. á dag. Útgerðarmenn fá líka kol með nokkuð lægra verði en tíðkast hér á landi, þar sem þeir kaupa þau sjálfir og flytja þau á sínum skipum. En aftur á móti er saltfiskurinn reiknaður hærra hér en útlit er fyrir, að fáist nú fyrir hann, og er miðað við verðlagið 1939. Ef nú yrði farið á saltfisksveiðar, yrði hallinn samkv. þessum skýrslum 48000 kr. á mán., ef miðað er við þá afkomu á ísfisksveiðunum, sem verið hefir hjá flestum skipum frá því að styrjöldin hófst. Það yrði mikið fyrir stjórnina að taka þessi fyrirtæki þjóðfélagsins úr rekstri, sem skila svo miklum ágóða, og setja þau í rekstur, sem yrði stórkostlegur halli af samkv. þessum útreikningi. Þessi skip, sem ég hefi hér skýrslur af, skila afla í 8 daga í apríl fyrir 48 þús. kr. Ágóðinn af ísfisksveiðunum nemur þá um 50–60 þús. kr. á hvert skip. Nú er saltfiskurinn reiknaður á 30 kr. skippundið, svo að með því að fara á saltfisksveiðar og bjarga með því atvinnu landsmanna í bili, yrði þjóðfélagið að leggja fram 60 þús. kr., þar sem ísfiskurinn er nú seldur á 100 kr. skippundið. Ég býst við, að flestum, sem þekkja til, þætti þetta nokkuð óaðgengilegt, jafnvel þó að engu væri hér við að bæta. En nú kemur ennþá tvennt til greina. Nú er komið fram yfir páska og sá tími liðinn, sem veiðist mest á, án þess að nokkur aflabrögð hafi verið, sem heitið geti. Með því verðlagi, sem nú er á saltfiski, er gersamlega vonlaust að fara á saltfisksveiðar, því með þeim aflabrögðum, sem verið hafa að undanförnu, yrði tekjuhalli togaranna gífurlegur. Vonandi glæðist veiðin, en þó að svo yrði, væri ríkisstj. ekki um að knýja togarana til að fara á saltfisksveiðar, meðan verðið er svo glæsilegt fyrir ísfiskinn. Þegar ríkisstj. byrjaði að ræða um þetta mál, voru undirtektir mjög góðar hjá útgerðarmönnum. Hún vakti máls á því, að útgerðarfélögin yrðu að hafa hugfast, að þau nytu þess mikla réttar, skattfrelsisins. Þó að fisksalan hefði gengið sæmilega undanfarna mánuði, væru horfurnar þannig með landvinnu, að full ástæða væri til þess að bera kviðboga fyrir afkomu almennings. Sagðist ríkisstj. vona, að útgerðarmenn sýndu skilning á hag þjóðfélagsins og að þeir settu hann ofar eigin hagsmunum. Útgerðarmenn segjast hafa þetta hugfast, en koma með þá eðlilegu spurningu, hvort ríkisstj. geti treyst sér að skora á þá að fara á saltfisksveiðar, og hún hefir ekki tekið afstöðu til þessa máls ennþá.

Ég minntist á það áðan, að tvennt kæmi til greina fram yfir það, sem þessar skýrslur sýndu. Annað er, hve lítil eru aflabrögðin, og hitt, hve lélegar horfur eru með sölu á saltfiski. Það er ekki nema vika síðan á þessum eina markaði okkar, þ. e. a. s. í Portúgal, voru boðin út 3000 tonn af saltfiski fyrir 24 shillinga pakkinn, eða 20 kr. lægra en Íslendingar seldu hann á sama tíma í fyrra, og þá keyptum við kolin á 40 kr. tonnið, en nú á 160 kr. Þetta eru ekki glæsilegar horfur. Að vísu er lýsisverðið hagstætt og getur nokkuð bætt upp saltfisksverðið, en í þessum skýrslum er miðað við núverandi verðlag á lýsi. Ég held þess vegna, að margt þurfi að athuga, áður en sú leið er farin til að bæta úr atvinnuleysinu, að senda togarana á saltfisksveiðar, sem yrðu að vera talsvert miklar, ef þær kæmu að gagni. Ríkisstj. er ljóst, að eitthvað verður að gera til að bæta almenningi upp það atvinnuleysi, sem þessi vinnustöðvun hefir í för með sér, en skýrslur útgerðarfélaganna hafa mjög dregið úr þreki hennar til þess að fara þá leið, sem ég hefi gert að umtalsefni.

Nú er svo, að ég er ekki alveg viss um, hvort hér í Reykjavík þyrfti að vera beinlínis atvinnuskortur framundan. Það er ýmislegt, sem ætla má, að hafi bætandi áhrif á afkomu almennings, og á ég þar fyrst og fremst við hitaveituna. Ríkisstj. hefir sannfrétt, að það verði örugg vinna um langan tíma, svo óhætt er að líta vonglöðum augum fram á veginn. Ég er ekki heldur viss um, að ástæða sé til að vera svartsýnn í dag, enda þótt saltfisksveiðarnar yrðu litlar eða engar. Sérstaklega vildi ég mega treysta því, ef því versta yrði afstýrt, að hægt verði að halda atvinnulífinu uppi með opinberum framkvæmdum. Gæti vel verið, er fjárhagur ríkisins batnaði, að ríkisstj. tæki sér bessaleyfi um aukin útgjöld til að bæta úr hag almennings og auka atvinnuna.

Ég viðurkenni það, sem hv. flm. þessarar till. sagði, að í Hafnarfirði væri ekki glæsilegt um að lítast, þar sem íbúarnir hefðu enga vinnu, nema atvinnubótavinnu, ef saltfisksveiðarnar hættu. Það er líka rétt hjá honum, að gera þarf alveg sérstakar ráðstafanir til að bjarga þessu fólki frá yfirvofandi neyð. En ég býst við. eftir rannsóknum í þessu máli, að það verði síður en svo létt verk. Það er stórkostlegur misskilningur, sem kom fram hjá hv. flm. þessarar till., að yrðu aflabrögðin svipuð og undanfarin ár, nægðu saltfisksveiðar í 4–5 vikur til að afstýra atvinnuleysinu. Verði aflabrögðin eitthvað svipuð því, sem verið hefir undanfarin ár„ og verðlagið svipað því, sem útlit er fyrir, og kolin reiknuð með núverandi verði, er fyrirsjáanlegur stórkostlegur halli af þessum rekstri. Hann myndi verða margfaldur á við þá atvinnu, sem fólkið fengi með þessu móti.

Ég sótti upplýsingar til annara en þeirra, sem mér standa næstir í útgerðinni, og lét annað útgerðarfélag reikna út, hve mikinn afla þeir teldu sig þurfa til þess að útgerðin gæti borið sig einn mánuð. Og kom þá í ljós það, sem ég hafði gert mér hugmynd um, að aflinn þyrfti að vera nákvæmlega tvöfaldur við það, sem hann var í fyrra, og þó sé miðað við hærra verðlag. Ég álít, að það verði að athuga, hvaða leiðir séu færar til að afla ríkissjóði tekna í þessu skyni, til þess að geta staðið undir hækkandi útgöldum vegna rénandi atvinnuvega í landinu. Það er ekki alveg víst, að sú leið yrði farin, að leggja skatt á þessa útgerð eða aðra útgerð til þess að afla þessa fjár.

Þessi útgerð hefir verið skattfrjáls í viðurkenningu þess, að það væri eina leiðin til þess að bjarga henni frá hruni. Og það þýðir líka að bjarga þeim almenningi, sem á henni hefir lifað.

Hafi þetta nú verið svo, að þetta sé eina leiðin til þess að bjarga útgerðinni við, hljóta menn að beita nokkurri varfærni áður en farið er að leggja á hana nýjan skatt, enda þótt gengið hafi betur fyrir henni í nokkra mánuði en áður.

Það er nokkuð misjafnt, hvernig skipunum hefir gengið. Sumum þeirra hefir gengið ágætlega, sumum vel og sumum hörmulega illa. Og tugir þúsunda kr. hafa tapazt á einstökum skipum síðan styrjöldin hófst.

Það verður einnig að muna, að skattfrelsið var veitt af því, að það var álitið, að það ætti að gera eitthvað til þess að útgerðin gæti losað sig við einhvern skuldabaggann, sem á henni hvílir. En ég er reiðubúinn að vera með í því að taka þátt í athugun á skattálagningu á þessa aðila eða aðra, til þess að þjóðfélagið geti, eftir því sem óhjákvæmilegt þykir, tekið á sig byrðar vegna rénandi atvinnumöguleika fólksins.

Ég ætla að láta þessar tiltölulegu stuttu upplýsingar nægja við þessa umr. málsins, en mun að sjálfsögðu óska eftir að eiga tal við þá n., sem fær málið til athugunar, og leggja ný gögn fyrir hana f. h. ríkisstj., og hún mun einnig afla sér gagna sjálf.

Ég legg svo til, að umr. um málið verði frestað og því vísað til sjútvn.