29.03.1940
Neðri deild: 25. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í D-deild Alþingistíðinda. (2617)

67. mál, saltfisksveiðar togara

*Atvmrh. (Ólafur Thors):

Það er ekki margt í ræðu hv. 6. landsk., sem krefst svara frá mér á þessu stigi málsins. Ég verð þó aðeins að árétta það, sem ég sagði áðan, að ég held, að þessar tölur, sem ég nefndi, séu réttar. Ég hefi talið 160 kr. kolatonnið. Ég spurði af sérstökum ástæðum um verð á kolum í Gautaborg, vegna skipsferðar, sem átti að verða þangað, og var mér sagt, að það væri yfir 200 kr. tonnið, svo mér fannst ekki ósanngjarnt að áætla kolin þetta.

Það er ekki rétt og engin skynsemi í því að miða við kolaverð eins og hv. þm. áleit, að útgerðarmenn þyrftu að reikna sér þessi kol. Það er atriði, sem er ákaflega mikið álitamál. Stundum þurfa skipin líka að reikna sér kolin 300 kr., til þess að veiðiförin geti staðizt. Í öðrum veiðiförum geta þeir flutt kolin frítt, af því að þeir hafa haft hag af sölunni. Og ef ég nota þær tölur í þessu sambandi í dag til þess að reikna út hag af saltfisksveiðum, þá getur það ekki staðizt.

Þjóðfélagið þarf að eiga kol í landinu og hafa þau handbær. Og ég hefi ekki leyfi til að spyrja um annað en það, hvað þarf að borga fyrir þau hér, ef ég þarf að nota þau. Og held ég, að það sé því rétt að miða við, að borga þurfi 130200 kr. fyrir kolatonnið hér.

Ég hefi ekki séð tölur um útgerð þess skips, sem hv. 6. landsk. talaði um, en veit hinsvegar, að Helgafell og Þorfinnur hafa gert tilraun með saltfisksveiðar. Bæði skipin gáfust upp við þessa tilraun, vegna þess að þau töldu sig ekki geta staðið undir þeim halla, sem leiddi af þessum atvinnurekstri.

Ég held ekki heldur, þó að útgerð þessa eina skips kynni að hafa borið sig, að það megi ganga út frá því, að í því felist sönnun fyrir því, að allir togarar geti stundað veiðar með sæmilegri útkomu. Þetta skip, sem bv. 6. landsk. nefndi, fékk tryggt afurðaverð hjá S. Í. F., því að þetta var tilraun til þess að vita, hvort tiltækilegt væri að stunda þær veiðar. Ég var með þessu vegna þess, að ég áleit rétt að hvetja menn til þess að fara á saltfisksveiðar, ef sannað væri, að fiskafla væri einhverstaðar að finna. Niðurstaða útreikningsins á því, hvort þessi rekstur beri sig eða ekki, fer eftir því, hvað á að reikna verð á kolum til þessara veiða.

Ég get fullvissað hv. þm. um það, að hann hefir ekki ríkari tilhneigingu heldur en ríkisstj. til þess að mega líta þannig á, að það sé kleift að ganga til útgerðarmanna og segja: Ríkisstj. myndi meta það við ykkur, ef þið farið á saltfisksveiðar. — Það hlýtur að hvíla sem þung skylda á sérhverri ríkisstj. að reyna að afstýra atvinnuleysisbölinu í þjóðfélaginu. Þær skyldur verða kannske því brýnni og ríkisstj. ljósari, sem hver dagur leggst með meiri þunga á verkamanninn heldur en áður vegna aukinnar dýrtíðar í landinu.

En af þessu má ekki leiða það, að ríkisstj. láti villa sér sýn um það, á hvern hátt væri bezt bætt úr því böli. Og þó það væri æskilegt, að saltfisksveiðar togara bættu úr þessu, þá er líklegt, að það verði ekki. Þó getur það verið, ef aflabrögð glæðast að mun. Og það hefir komið til orða hjá ríkisstj., að hún beini til þeirra, sem fiskveiðar stunda, tilmælum um að athuga möguleika fyrir saltfisksveiðum.

En það er engin skynsemi í að samþ. þessa þáltill. Ég held, að skynsamlegt myndi ekki verða eða okkur til framdráttar að hætta ísfisksveiðum alls flotans í einu. Ég held, að það myndi þá skapast lægð á enska markaðinum og þangað myndi koma norskur fiskur, sem myndi svo verða fyrir okkur, þegar við vildum selja þangað aftur. Og það mætti telja nokkra bót, ef nokkur skip færu á saltfisksveiðar, ef þau veiddu þá nokkuð annað en þara og grjót, þó að það sé kannske sterkt til orða tekið, að þau veiddu ekkert annað.

Ég álít ekki ástæðu til þess að ræða um það nú, hvar ætti að taka tekjur til þess að standa undir atvinnuaukningu fyrir almenning. Það er ákaflega erfitt að ákveða það. En ef maður vill taka það af atvinnurekstri þeim, sem hér á hlut að máli, þá er vandasamt að athuga og ákveða, hver hafi grætt og hver hafi ekki grætt, og hverjir skuldi meira eða mínna. Það er sjálfsagt ekki auðvelt að koma þar við því réttlæti, sem æskilegt væri.

Viðvíkjandi fiskverði er mér kunnugt um, að á Ítalíu hefir verið greitt fyrir fiskinn með nokkru hærra verði. En það eru clearing-viðskipti við þau lönd. Og verður þá að athuga, hvaða vörur er hægt að kaupa frá þeim löndum, og hvað dýrar og hve heppilegar þær eru fyrir okkur.

Ég álit ekki heppilegt að hafa meiri umr. um þetta mál að sinni, en ég legg til, að því verði vísað til sjútvn. að svo komnu máli.