11.04.1940
Neðri deild: 33. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í D-deild Alþingistíðinda. (2623)

67. mál, saltfisksveiðar togara

*Atvmrh. (Ólafur Thors):

Ég hefi því miður ekki heyrt ræðu hv. frsm. og ekki heldur ræðu hv. þm. V.-Húnv., því að ég var bundinn á áríðandi fundum.

Ég geri ráð fyrir, að flestum hv. þm. sé ljóst, hvernig þetta mál liggur fyrir. Eins og ég gat um við fyrri hluta umr. um þessa þáltill., hafði ríkisstj. rætt þetta mál allmikið við ýmsa útgerðarmenn, og þeir höfðu tekið mjög vel í það, að láta reyna þessa veiði, ef skynsamleg rök væru þar fyrir hendi. Nú hafa þegar allmörg skip stundað þessar veiðar, og árangur virðist ekki glæsilegur. Allir útgerðarmenn, sem stj. hefir átt tal við, hafa haft um það mjög góð orð og vilja gera hið sama, þó að síðar verði, einkum ef árangur, sem næðist af veiðunum, væri ekki mjög bágborinn.

Nokkrir útgerðarmenn hafa látið í ljós þá skoðun, að þeir væru fúsir til að reyna þessa leið, enda þótt afkoma skipanna yrði verri heldur en með því að stunda ísfisksveiðar, og gera það út frá því höfuðsjónarmiði, að mikil þörf er á atvinnu fyrir almenning.

Ég hygg, að ef ríkisstj. er á eitt sátt um það, að leggja til a. m. k. við suma útgerðarmenn í Reykjavík, að þeir hefji saltfisksveiðar um mánaðamótin eða síðari hluta þessa mánaðar, þá hafi náðst nokkur árangur, þótt ég ekki með því geti fullyrt, að allur flotinn fari á veiðar, — en raunar mun óhætt að fullyrða, að það sé ekki hægt, að allur flotinn færi á saltfisksveiðar. Enda mun það ekki vera tilgangur þeirra, sem gengizt hafa fyrir þessu máli, með því að nokkur áhætta væri því samfara að láta allan íslenzka flotann hverfa til þessara veiða, þar sem með því gæti skapazt þurrð á enska markaðinum, sem gæti haft óheppilegar afleiðingar fyrir íslenzka hagsmuni.

Ég hygg, eftir því sem stefna ríkisstj. er í þessu máli og vilji útgerðarmanna til þess að gera sína þjóðfélagslegu skyldu — og jafnvel fram yfir það, því að það má orka tvímælis, hvort það er útgerðarmanna, sem illa eru fjárhagslega staddir, að inna þá skyldu af hendi, að tryggja atvinnu almennings — að þá sé alveg óhætt að vísa þessu máli til ríkisstj. til frekari aðgerða, og mér skilst, að um það geti orðið samkomulag, með því að ríkisstj. hefir hugfast það sjónarmið, að almenningi sé brýn nauðsyn á að fá atvinnu, en jafnframt verði það athugað, hvort þetta auki atvinnu almennings eða þetta sé sú skynsamlegasta úrlausn á atvinnuleysi fólksins, að senda togarana á saltfisksveiðar. Ef þeir fá mjög rýran afla, þá getur verið mjög vafasamur þjóðfélagslegur hagnaður af því að halda úti allstórum hluta af togaraflotanum á slíkum veiðum. Ég álit nauðsynlegt að tryggja hæfilega stóran hóp skipa á veiðum til þess að hægt sé að rannsaka það fyllilega, hvort um nægilegan afla sé að ræða á hverjum tíma yfir vertíðina. Þetta höfuðsjónarmið mun ríkisstj. hafa hugfast, ef málinu verður vísað til hennar, og vil ég gera það að till. minni, að málinu verði vísað til ríki,stj. til frekari aðgerða.