11.04.1940
Neðri deild: 33. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í D-deild Alþingistíðinda. (2625)

67. mál, saltfisksveiðar togara

*Atvmrh. (Ólafur Thors):

Út af því, sem síðasti ræðumaður sagði um kyrrsetningu togara í Englandi, þá liggur ekkert fyrir um það, og þá er ekki heldur ástæða til þess að ræða þá hluti nú.

Ég legg til, að þáltill. verði vísað til ríkisstj. út frá því sjónarmiði, að það er upplýst við þessa umr., að ríkisstj. gerir nákvæmlega það sama í málinu, hvort sem þessi þáltill. verður samþ. eða ekki. Það hefir engin áhrif um gerðir ríkisstj., og þá þykir mér, þegar slíkar upplýsingar liggja fyrir frá ríkisstj., það vera eina þinglega lausnin að vísa málinu til ríkisstj.

Út af því, sem hv. þm. að öðru leyti sagði, vil ég segja það, ef hann hugsar sér það sem möguleika, að togurunum verði settir tveir kostir, annar að fara á saltfisksveiðar, enda þótt vitað væri, að sá atvinnurekstur bæri sig ekki, eða hinsvegar að leggja skatt á þá togara, sem stunda ísfisksveiðar, til þess að bæta úr atvinnuleysi fólksins, sem hefir haft atvinnu af saltfisksverkun, að ef skynsamleg rök mæla með því, að togarar fari á saltfisksveiðar og ríkisstj. álítur það vera gerlegt, þá mun hún beita valdi sínu til þess, að skipin fari á saltfisksveiðar.

Ég sé ekki, að það sé glæsilegt frá þjóðhagslegu sjónarmiði að senda togarana á saltfisksveiðar, ef sú atvinna, sem fæst við það, yrði svo dýru verði keypt þjóðhagslega séð, að ekki þætti slíkt tiltækilegt. Ef segja má, að þjóðarböl það, atvinnuleysið sem nú er, sé til komið af óviðráðanlegum atburðum, þá er það hvorki beint eða óbeint tregðu útgerðarmanna að kenna, að skipin hafa ekki stundað saltfisksveiðar. Af þessu leiðir atvinnuleysi fólksins. Hver á að borga? Frsm. sagði., að útgerðarmenn ættu að borga. Það virðist að þessir hv. þm. vilji slá því föstu, að sérhver sá atvinnurekandi, sem vegna breyttra kringumstæðna getur ekki haft sömu atvinnu að bjóða og áður, eigi ekki aðeins að hafa siðferðislega skyldu, heldur einnig lagalega skyldu til þess að greiða framfærslukostnað þessa fólks. Mér finnst þetta vera fjarstæða. Og ég sé satt að segja ekki, hvernig þessir menn hugsa sér að leggja slíkt á herðar fyrirtækja, sem Alþ. hefir viðurkennt, að séu svo illa stæð, að þau verði að njóta forréttinda í þjóðfélaginu hvað greiðslu opinberra gjalda snertir. Og þó að ég viðurkenni, að aðstaðan hefir breytzt, þá er hitt jafnvíst, að hún hefir ekki breytzt svo mikið, að það sé forsvoranlegt að leggja slíkar kvaðir á þessi fyrirtæki. Og það er áreiðanlega hinu opinbera sjálfu fyrir mestu, að þessi fyrirtæki geti rétt við. Ég álit, að ef þess þykir þörf að grípa til frekari ráðstafana til atvinnuaukningar fólkinu til handa, þá beri að ræða það mál á miklu viðari grundvelli heldur en að samþ. þessa till., því hún styðst hvorki við rök né sanngirni. Og eins og ég hefi þegar bent á, þá er alveg sama, hvort hún verður samþ. eða afgr. eins og ég hefi stungið upp á. Í hvorugu tilfellinu er tekin nein afstaða til þessa máls. Mér þykir eðlilegast, að till. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.