11.04.1940
Neðri deild: 33. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í D-deild Alþingistíðinda. (2626)

67. mál, saltfisksveiðar togara

*Einar Olgeirsson:

Það er nú komið fram á miðjan þann tíma, sem togararnir eru vanir að stunda saltfisksveiðar, og við sitjum hér enn og ræðum um það, hvort togararnir skuli fara á saltfisksveiðar eða ekki. Ég er hræddur um. að samþykkt þessarar till., sem hér liggur fyrir, myndi þýða það, að þeir fáu togarar, sem komnir eru á saltfisksveiðar, haldi áfram, en hinir færu ekkert á saltfisksveiðar. Ég held. að það sé nauðsynlegt, að Alþ. gangi frá sínum ályktunum viðvíkjandi saltfisksveiðnnum alveg skýrt og skorinort, þannig að það sé öruggt, að verkalýðnum verði bætt upp það tjón, sem hann verður fyrir, ef saltfisksveiðarnar falla niður.

Við sósialistar flytjum till. um ráðstafanir í þessa átt, sem því miður er ekki komin aftur frá þeirri n., sem henni var vísað til. Og þar sem gera má ráð fyrir, að hún komi seint frá n. aftur, eins og sumt, sem vísað er þangað, þá vildi ég leyfa mér að bera fram skrifl. brtt. við þessa till. til þál., um að ráðstafanir verði gerðar til þess að bæta verkalýðnum upp þann vinnumissi, sem hann verður fyrir, ef togararnir fara ekki á saltfisksveiðar.

Ég skal ekki ræða efni þessarar till. frekar. Ég hefi áður gert það og skal ekki endurtaka það, en ég vil segja það aftur, að ég fæ ekki séð nokkra skynsemi í því að knýja togarana til að fara á saltfisksveiðar, ef fyrirsjáanlegt tap verður á því, ef möguleikar eru til að láta togararfélögin greiða álíka mikinn skatt, sem síðan yrði notaður eingöngu til greiðslu vinnulauna handa verkamönnum.