29.03.1940
Neðri deild: 25. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í D-deild Alþingistíðinda. (2642)

69. mál, bætur til verkalýðsins vegna vinnumissis

*Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti ! Þessi till., sem við flytjum hér á þskj. 117, er um það, að verkalýðnum verði bættur upp vinnumissirinn„ sem hann verður fyrir, ef ekki verður gert út á saltfisksveiðar. Það hefir verið allmikið um þetta mál rætt, og ég býst við, þó að menn séu ekki á eitt sáttir um það, hve miklu þetta vinnutap nemur, þá séu menn sammála um það annarsvegar, að verkalýðurinn verði að fá uppbót fyrir það vinnutap, sem hann verður fyrir, ef saltfisksveiðarnar falla niður, og hinsvegar geri ég ráð fyrir, að menn verði sammála um það, að ekki sé viturlegt að kasta fé í það að gera togarana út á saltfisksveiðar, ef sannanlegt er, að tap verði á því og svo framarlega sem hægt væri á annan heppilegri hátt að bæta verkalýðnum þetta vinnutap upp. Við höfum hinsvegar þess í stað lagt til, að lagður yrði skattur á þá togara, sem ísfisksveiðar stunda, en því fé yrði siðan varið til atvinnuaukningar. Hér liggur þess vegna fyrir möguleiki til þess að tryggja verkalýðnum uppbætur á þann vinnumissi, sem hann verður fyrir, ef ekki verður gert út á salt, án þess að þjóðin þurfi að tapa nokkru á því„ heldur yrði þetta aðeins tilfærsla á peningum innan þjóðfélagsins. Það virðist liggja í augum uppi, að þessi leið er fær, svo framarlega sem hv. þm. vilja. Maður skyldi ætla, að ekki væri þörf á því að fjölyrða um það, hversu mikil þörf verkalýðsins er fyrir meiri vinnu. Ég vil þess vegna vænta þess, að till. fái samþykki hér á Alþ.