02.04.1940
Efri deild: 27. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í D-deild Alþingistíðinda. (2647)

96. mál, húsmæðrafræðsla

Páll Hermannsson:

Það er fátt manna hér í d., en hér er þó a. m. k. staddur hv. frsm. menntmn., og verð ég þá sérstaklega að víkja máli mínu til hans, fyrst hann er af tilviljun staddur hér.

Þegar ég sá þessa þáltill., þá gizkaði ég á, að hún væri m. a. fram komin til þess að víkja frá meðferð þingsins að þessu sinni frv. á þskj. 32 um breyt. á l. um húsmæðrafræðslu í sveitum. Mér varð þetta enn ljósara við ræðu hv. frsm., að þessi till. er að öðrum þræði og kannske einkanlega til þess að vísa hinu upphaflega lagafrv. frá. Að vísu er hér að auki annað málsatriði, sem sé um húsmæðrafræðslu í kaupstöðum og kauptúnum, en það er svo sjálfstætt mál, að það mætti náttúrlega koma sérstakt út af fyrir sig, ef mönnum sýndist það. Ég get ekki neitað því, að mér þykir nokkuð á skorta, að menntmn. hafi tekið myndarlega á þessu frv., sem í raun og veru er hér til 3. umr. samhliða þáltill. Málið hefir legið hjá henni ákaflega mikinn hluta þingtímans, þó að það sé í sjálfu sér ekkert stórt. Í öðru lagi hefir menntmn. á þessum tíma reynt að vinna að málinu, eins og stendur í grg. fyrir þessari till., en með næsta litlum árangri. Í grg. stendur, að n. hafi ekki séð sér fært að fara með málið inn á þessa braut að svo komnu máli, þar sem upplýsingar um fjárhagsafkomu skólanna hafi ekki legið fyrir. Svo getur n. þess, að hún hafi fengið upplýsingar um einn skóla. Þær upplýsingar fékk hún að einhverju leyti frá mér. Ég gaf n. upplýsingar um kostnað vegna skólans, stofnkostnað og áhvilandi stofnskuldir. En ég hygg, að auk þess eigi sæti hér á Alþingi menn, sem eru þrautkunnugir fjárhag allra húsmæðraskóla. Ég veit ekki betur en að einn úr skólaráði Laugalandsskólans sé jafnvel forseti þessarar d. Ég hygg, að maður, sem er gagnkunnugur Staðarfellsskólanum eigi einnig sæti í þessari d. Þá ætti ritara menntmn. að vera kunnugt um fjárhag skólans á Laugum, og þá er ekki eftir nema skólinn á Blönduósi, og hygg ég, að einhver ráð hefðu átt að vera til að fá um hann vitneskju.

Það stendur í grg. till., að útlit sé fyrir, að húsmæðraskólinn á Hallormsstað hafi þörf fyrir, að frv. um breyt. á húsmæðrafræðslulögunum verði samþ., en það sé óupplýst um aðra skóla, hvort þeir þurfi þess. En ef þeir þurfa þess ekki, þá fá þeir ekki heldur neitt, þó að frv. verði að 1., því að þannig er frá gengið, að þeir húsmæðraskólar í sveitum, sem hafa ekki áhvilandi stofnskuldir, fá ekki tillag úr ríkissjóði samkv. frv. Þeir kynnu að njóta þessara hlunninda síðar, ef þeir bættu við sitt húsnæði, en það er breyt., sem einatt þarf að gera við þessa skóla. Ég get þess vegna ekki neitað því, að ég hefði búizt við, að n. hefði gengið rösklegar að því að afgr. þetta frv. heldur en þessi þáltill. ber með sér. Nú býst ég við, að ekki þýði að gera sér rellur út af því, hvernig komið er, því að þetta frv. verður ekki samþ. á þessu þingi, jafnvel þótt fyrir því væri þingvilji. En ég verð að hafa þá skoðun ennþá, sem ég hafði, þegar ég gerðist meðflm. að frv. um breyt. á l. um húsmæðrafræðslu, að Alþ. geti ekki smeygt sér undan því að veita húsmæðraskólunum svipaða fjárhagsaðstöðu eins og héraðsskólarnir hafa, því að ég álít, að þótt héraðsskólarnir séu gagnlegir, þá séu húsmæðraskólarnir samt ennþá nauðsynlegri.

Ég stóð hér aðallega upp til þess að láta hv. frsm. vita, fyrst hann er hér staddur, að ég fyrir mitt leyti hefi orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með starf menntmn. í sambandi við þetta mál. Ég sé upp á hár, að af því hlýtur að leiða drátt á því, sem ég tel sanngirni gagnvart húsmæðrafræðslu í sveitum. Þess vegna verð ég að álíta mjög hæpið, að þessi þáltill. greiði nokkuð fyrir því máli, sem hún er um. En ef þingvilji er fyrir því, að reynt verði að undirbúa húsmæðrafræðslu í kauptúnum, þá er það fjarri mér að vilja setja fótinn fyrir það, því að ég er hv. frsm. alveg sammála um, að húsmæðrafræðsla í kauptúnum sé einnig nauðsynleg. Það er alveg rétt, að það er lítið um hana í kauptúnum, því að stærsti skólinn þar, kvennaskólinn í Reykjavík, er fyrst og fremst góður gagnfræðaskóli, en ekki húsmæðraskóli.

Ég hefði gjarnan viljað, að hv. frsm. hefði útskýrt nánar fyrir mér, hvaða upplýsingar það voru um húsmæðraskólana, sem sérstaklega vantaði, til þess að n. gæti tekið afstöðu til frv. um breyt. á húsmæðrafræðslulögunum út af fyrir sig án þess að binda það saman við húsmæðrafræðsluna í kauptúnunum. Ég segi fyrir mig, að ég er reiðubúinn til að gefa menntmn. fullkomnar upplýsingar um þann skóla, sem ég er kunnugur, Hallormsstaðaskólann, og ég vildi einnig fá að víta, hvort þessi n., sem er eins skipuð og menntmn. síðasta þings, hefir haft gleggri upplýsingar um þörf héraðsskólanna um síðustu áramót, þegar hún treysti sér til að taka ákvörðun um að bæta kjör héraðsskólanna, heldur en hún hefði getað fengið nú um ástæður húsmæðraskólanna í sveitunum.