20.03.1940
Sameinað þing: 8. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í D-deild Alþingistíðinda. (2654)

10. mál, kaupgreiðslur til sjómanna í erlendum gjaldeyri

Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Í raun og veru er þetta mál í áframhaldi af því máli, er var hér fyrst á dagskrá, till. til þál. um innflutning á heimilisnauðsynjum farmanna. Eins og tekið var þá fram af hæstv. viðskmrh., er undirstaðan undir því, að sjómenn geti yfirleitt keypt nauðsynjar til heimila sinna erlendis, að þeim fái eitthvað af kaupi sínu greitt í erlendum gjaldeyri. Málið er annars svo einfalt, að það þarf ekki að segja meira um það heldur en stendur í grg., og þá sérstaklega því bréfi, sem er tilfært þar. Ég sé ekki, að hæstv. viðskmrh. hafi nokkra heimild til að takmarka þann gjaldeyri, sem sjómenn fá greiddan í erlendum höfnum. Mér virðist ótvírætt, að samkv. sjómannalögunum hafi sjómenn skýlausan rétt til að fá allt sitt kaup greitt í þeirri mynt, sem er gjaldgeng á staðnum, að því undanskildu, sem er heimilt að halda eftir af kaupinu samkv. l. Nú er það svo, að sjómenn hafa ekki neytt þessa réttar síns til fulls. Þeir hafa haft samkomulag um þetta við atvinnurekendurna og gert ákaflega sanngjarnar kröfur. Virðist mér ekki mega mínna vera en þeir megi vera frjálsir að því að semja um þetta við útgerðarmenn. Eins og tekið hefir verið fram, standa nú yfir samningar milli sjómanna og útgerðarmanna, m. a. um þetta mál. Hv. 2. landsk. tók alveg réttilega fram, að í raun og veru þurfi sjómenn ekkert um þetta að semja, því að þeirra réttur sé alveg skýlaus. Hitt er annað mál, hvað sjómenn vilja ganga langt í að nota þennan rétt. Hæstv. viðskmrh. tók fram í ræðu sinni áðan að útgerðarmenn hefðu rætt um þetta við sig. Ég hygg, að málinu yrði bezt borgið með því, að hæstv. ráðh. skipti sér ekkert af því. Ég hygg, að það mundi bezt greiða fyrir, að samningar tækjust, að hæstv. ráðh. gæfi út skýlausa yfirlýsingu um, að hann skipti sér ekkert af málinu, en meðan svo er litið á, að hæstv. viðskmrh. eða stj. yfirleitt sé hlutaðeigandi, þá geri ég ráð fyrir, að það verði til þess að torvelda samninga.

Eins og kunnugt er, þá hefir annarsvegar smjaðrið fyrir sjómönnum í orði og hinsvegar naglaskapurinn gagnvart þeim á borði verið svo áberandi, að öllum ber saman um, að það sé eitt af einkennunum í okkar þjóðlífi. Blöð tveggja stjórnmálaflokka, sem að ríkisstj. standa, hafa stutt málstað sjómanna alveg eindregið í þessu máli og þessi tillaga hlýtur þess vegna að hafa fylgi meiri hl. Alþ. En ef það væri ekki, sem ég skil ekki, að geti verið. þá væri það ekki annað en auglýsing um það, að afstaða þessara flokka og blaða þeirra til sjómanna væri ekki annað en hræsni frá upphafi, en það á eftir að koma í ljós við atkvgr. um þessa till.